Rekstur leikskóla á vegum sjúkrahúsa

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:05:44 (1684)


[16:05]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir að taka upp þetta mál. Það er kjarni þess að hæstv. heilbrrh. hefur verið ansi örlátur á svipuhöggin gagnvart foreldrum barna á leikskólum Ríkisspítalanna. Hann hefur sagt eitt í dag og annað á morgun. Foreldrar hafa mótmælt, fóstrur hafa sagt upp og starfsfólk sjúkrahúsanna hefur fyllst þungum áhyggjum.
    Þetta er orðin býsna einkennileg framhaldssaga að ekki verði nú meira sagt. Og loksins núna þegar stjórn Ríkisspítalanna hafði tekið málið í sínar hendur að því er virtist og þegar lausn virtist í sjónmáli með samþykktinni sem gerð var 15. nóv. sl., þá kemur hæstv. ráðherra enn einu sinni fram á sjónarmiðið og segir: Hér er það ég sem ræð. Og málið heldur áfram að vera í hnút, framtíðin ótrygg og óljós.
    Tíminn leyfir ekki frekari umræður um þetta mál. En ég vil mjög eindregið hvetja hæstv. ráðherra til þess að sveifla svipu valdsins framvegis af meiri gætni en hann hefur gert á þessum fáu mánuðum sem hann hefur verið í embætti. Ég held að honum veiti ekki af þeirri áminningu og hann ætti að hugleiða hana vandlega. Hann ætti líka að viðurkenna mistök sín. Það er enginn minni maður að því. Og hann á að sætta sig við þær ákvarðanir sem stjórn Ríkisspítalanna hefur tekið.