Rekstur leikskóla á vegum sjúkrahúsa

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:12:49 (1687)



[16:12]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra rifjaði upp að við hefðum áður rætt um þetta sama mál hér utan dagskrár. Það er kannski umhugsunarefni fyrir hæstv. ráðherra hversu oft þarf að taka ákvarðanir hans upp utan dagskrár á Alþingi. En það var vissulega rétt, við gerðum það hér og árangur þeirrar umræðu tel ég að hafi verið að það var hafin samvinna og samstarf milli ráðuneytis, forsvarsmanna sjúkrahúsa og starfsmanna um lausn í þessu stóra máli. Lausn sem sú nefnd lagði fyrir ráðherrann og fyrir stjórnarnefnd Ríkisspítala m.a., svo að ég nefni það af því að ég sit þar, var birt 5. nóv. þar sem var rætt um það að framlag ríkisins yrði 14 þús. kr. fyrir hvert barn sem nú er á þessum leikskólum. Þetta er bréf dags. 5. nóv. og undir það ritar hæstv. ráðherra og tekur það skýrt fram að framlagið sé miðað við hvert barn. Sama dag er sent út bréf til sveitarfélaga þar sem er svipaður rekstur eins og í Kópavogi og þar er farið fram á það að sveitarfélagið leggi fram 6 þús. kr. á mánuði fyrir hvert barn með lögheimili í Kópavogi. Ég nefni það af því að þetta er bréf stílað á bæjarstjórann í Kópavogi en önnur sveitarfélög munu hafa fengið bréf með sama erindi. Við trúðum því að ráðherrann mundi standa við þessa lausn og þess vegna var afgreidd tillaga á fundi stjórnarnefnda Ríkisspítala 16. nóv. sl. Hálftíma fyrir þann fund var haft samband við starfsmann ráðuneytis þar sem hann staðfesti það enn og aftur að hér væri um að ræða 14 þús. kr. framlag á hvert barn, ekki á vistrými heldur hvert barn. Daginn eftur kemur síðan bréf frá hæstv. ráðherra þar sem hann segir: Nei, þetta er ekki hvert barn, þetta er vistrými. (Forseti hringir.)
    Tíminn er búinn, segir hv. þm. Gunnlaugur, bróðir hæstv. ráðherra og ég fer eftir því, en ég vona það að ráðherra beri gæfu til þess að leysa þetta mál á þann máta sem þetta samráð kvað á um.