Þjóðfáni Íslendinga

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 10:46:15 (1847)


[10:46]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka flm. fyrir framlagningu þessa máls sem ég tel vera gott mál og mjög þarft að fara að líta svolítið á hvernig við notum íslenska þjóðfánann. Ég tók hins vegar eftir því að flm. gleymdi að vísa málinu til nefndar. Ég tel nokkuð víst að málið eigi að fara til allshn. Ég sé að flm. kinkar kolli og það er rétt. Það er sú nefnd sem ég á m.a. sæti í og mun vissulega taka þátt í að vinna að framgangi þessa máls, þó mér sé ekki alveg ljóst hvaða leið menn vilja fara í þessu.
    1. flm. er mikill kjarkmaður. Hann kom hér upp og veifaði staðfestingu þess að hann hefði brotið lög, þar sem hann hefði keypt póstkort með íslenska fánanum hjá Sameinuðu þjóðunum, en það sýnir það auðvitað að eftirlit með þessum þætti laganna er í brotum. Ég tel alveg eins hann að auðvitað eigum við að vera stolt af fánanum og við eigum að lyfta honum til vegs og virðingar, eins og hann sagði, og að nota hann miklu meira heldur en við höfum gert til þessa. En auðvitað verðum við að fara varlega og það má ekki misnota fánann, eins og hv. þm. Páll Pétursson varaði hér við áðan. En við höfum séð það fyrir okkur víða erlendis að þjóðir nota fánann og þær nota hann rétt. Þær nota hann mikið og þær nota hann sem ákveðin gæðastimpil og það er einmitt þannig sem við eigum að nota hann. Að því leyti til tel ég alveg rétt að það megi nota hann á vörur og söluvarning, ef það er undir ströngu eftirliti. Ef það er nefnd sem sannreynir gæðin og veitir heimild til að nota slíka merkingu sem íslenski fáninn væri, þá væri það auðvitað ekkert annað en landkynning og staðfesting á því að þarna væri um gæðavöru að ræða. Þetta veit ég að t.d. Austurríkismenn gera og menn geta gengið út frá því sem vísu að vörur sem fá að nota austurríska fánann á sínum umbúðum eru vörur sem hafa farið í gegnum mjög strangt eftirlit, mjög strangt gæðaeftirlit, og menn geta verið þess fullvissir að þar er gæðavara á ferðinni. Þetta eftirlit verður að vera til staðar. Ef það er ekki, þá getum við misnotað hann og þá getur verið betra heima setið en af stað farið. Þannig að ég styð þetta með þessum hætti.
    Ef þessi leið er farin, þá yrði þetta á endanum mjög góð landkynning og af hinu góða. Með þessu hugarfari mun ég skoða þetta mál í hv. allshn.