Þjóðfáni Íslendinga

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 10:49:08 (1848)


[10:49]
     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Ég tek til máls til þess að styðja 1. flm. þessa máls og vil gjarnan bæta því við vegna þess að hér hefur verið vakið máls á því að við þurfum að hafa í huga, ef við framkvæmum tillögu af þessu tagi, hversu ofarlega eða neðarlega við skipum íslenska fánanum. Mér flaug í hug það sem ég rakst á fyrir fáeinum dögum, að kona sat á hjóli og fremst á hjólinu var íslenski fáninn málaður, ekki aðeins fánalitirnir heldur fáninn allur. Það getur vel verið að við teljum þetta svona jafn óviðurkvæmilegt og það sem einn af fyrri ræðumönnum nefndi, undirfatnað. En ég vil þó koma á framfæri þeirri skoðun minni að mér þykir það skynsamlegt af okkur, sem og öðrum þjóðum, að við heimilum þeim að nota íslenska fánann til að auðkenna vörur og þjónustu sem uppfylla ákveðnar kröfur um gæði, þannig að merki þjóðarinnar sé merki þeirrar vöru sem stenst fyllstu gæðakröfur. Vel að merkja tel ég þetta eiga við um afurðir bæði úr sjávarútvegi og landbúnaði sem við vitum að eru afurðir hreinni ræktunar, hreinni starfsemi en þekkist með flestum öðrum þjóðum.
    Grannþjóðir okkar hafa víða notað fána sína til kynningar, til að vekja umhugsun um land sitt, ekki aðeins við afurðir heldur kynningu fyrir ferðamenn og ég tel þetta hvort tveggja eiga erindi til okkar. Hér á landi úir og grúir af varningi, af kynningarvarningi, sem er merktur fánalitunum og munar aðeins krossinum í þjóðfánanum sjálfum. Á meðan við höfum ekki skilyrtar reglur um notkun af þessu tagi eða framfylgjum ekki reglum um notkun, þá er alveg ljóst að við höfum ekkert vald á því hver notar fánann og hver ekki, við hvaða tækifæri eða ekki. Ef við komum á reglum af þessu tagi, heimilum notkun fánans þar sem vel á við, þá tel ég að við förum betur á stað og náum betur valdi á málinu heldur en nú er, virðulegi forseti.