Þjóðfáni Íslendinga

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 10:52:40 (1849)


[10:52]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegur forseti. Ég tel að það sé ágætt að verja nokkrum tíma þessarar virðulegu stofnunar til að ræða lög og reglur um þjóðfána Íslendinga. Það er kannski ekki síst tilefni til að gera það núna þar sem þessi lög verða fimmtug á næsta ári, árinu 1994, þegar lýðveldið á fimmtugsafmæli. Ég hef hlýtt af athygli á það sem hv. flm. og fleiri hafa sagt um þetta mál. Ég er sammála þeim um það að það er rétt að endurskoða þetta út af fyrir sig, lögin og reglurnar, í ljósi fenginnar reynslu. Hins vegar geri ég ráð fyrir að ég sé svona heldur í varkárari kantinum þegar kemur að því að nota fánann. Ég held að menn eigi að fara hóflega fram í þeim efnum og sýna eðlilega, skynsamlega, jarðbundna íhaldssemi þegar kemur að því að setja reglur um notkun á fánanum. Fáninn er ekki neitt hversdagsplagg eða hversdagsklæði, í þeim skilningi orðsins plagg. Fáninn er ekki hversdagsplagg heldur tengist hann auðvitað tilteknum grundvallaratriðum í því að vera þjóð og þess vegna eiga menn að umgangast fánann og reglur um fánann varlega og hófsamlega. Þessi markaðsnotkun á fánanum sem sést t.d. í Danmörku, hún er gríðarlega mikil og hún er meiri heldur en ég mundi t.d. telja eðlilegt að því er varðar íslenska fánann. Þess vegna vildi ég gjarnan að reglurnar miðuðust við hófsamlega notkun fánans, þó ég viðurkenni auðvitað að það er erfitt að setja nákvæmar reglur í þessu efni, því það er í sjálfu sér tiltölulega einfaldur hlutur að búa til fána eða koma fánalitum fyrir hvar svo sem menn kjósa að gera það. Það er því erfitt að koma við einhverjum reglum sem banna mönnum þessa notkun eða hina á fánanum, hvar sem menn kjósa að gera svo. Þess vegna er málið alls ekki einfalt. En ég vil láta það koma fram að ég vil alla vega vera í varkárari kantinum að því er varðar notkun á fánanum.
    Í þessu efni og að því er varðar vörumerki í þessu sambandi, þá þurfa menn auðvitað ekki aðeins að taka mið af þeim reglum sem hér eru í gildi heldur líka, eins og menn þekkja, þeir sem hér hafa talað, alþjóðlegum reglum. Það eru t.d. alþjóðlegar reglur um það að ekki má nota landaheiti í vörumerkjum. Ég kann satt að segja ekki þessar alþjóðlegu reglur nógu vel til að muna hvaða reglur gilda um notkun á fánum í vörumerkjum fyrirtækja eða í tengslum við vörumerki fyrirtækja, en ég hygg að fánar komi þar eitthvað við sögu. Þannig að hv. allshn. skoðar það vafalaust, þessar alþjóðlegu reglur sem Ísland er aðili að, alveg eins og fyrirmæli laganna og reglugerðarinnar um notkun á fánum. Þetta vildi ég láta koma hér fram, virðulegi forseti, um leið og ég tek undir það að ég tel sjálfsagt að menn af og til, á fimmtíu ára fresti eða svo, en ekki mikið oftar, endurskoði reglur eins og þær sem hér er verið að tala um.