Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 15:03:38 (2009)


          


[15:03]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er nú rangt hjá hæstv. fjmrh. og það er skaði að hafa fjmrh. sem kann jafnilla söguna í skattlagningarmálum. Ég held að hæstv. fjmrh. verði að fara á námskeið og læra þessa hluti betur því að fyrri ríkisstjórn greip til aukinna niðurgreiðslna á matvöru sem jafngiltu því að skattlagning á matvælum, öllum helstu innlendu matvælum, kjöti, grænmeti og fleiri tegundum fór úr þeim 24,5% sem þá voru og niður í 11--14% og var á því bili allan tímann sem sú ríkisstjórn sat. Þetta var óumdeilt. Þetta var m.a. hluti af aðgerðum í kjaramálum sem tóku yfir þetta tímabil og þetta ætti hæstv. fjmrh. að vita.
    Það var hins vegar ekki gert, það er rétt, að taka formlega upp þá kerfisbreytingu að þessi skattlagning væri á lægra þrepi. En skattlagning á allra mikilvægustu innlendu matvörurnar var á þessum tíma ígildi þess í gegnum auknar niðurgreiðslur að vera 11--14% en þær höfðu síðan stórhækkað í tíð núv. ríkisstjórnar, ekki síst á öðrum tegundum en þeim sem falla undir búvörusamninginn. Þetta getur hæstv. fjmrh. skoðað ef hann vill.
    Ég held líka, hæstv. fjmrh., að það verði þá að bera fleira saman ef menn eru í þessum útreikningum um raunupphæðir skatta sem mér heyrist hæstv. fjmrh. hér vera. Það eru aðstæður fólksins til að borga skattana. Við skulum ekki gleyma því að á þessum tíma er verið að bera saman eða síðan hefur kaupmáttur launatekna t.d. fallið um 10 og ýmsir slíkir erfiðleikar gengið í garð þannig að þó svo að hæstv. fjmrh. kunni að geta sagt að raunhækkun skatta framreiknuð hafi ekki orðið meira en milljarður í hans tíð, þá hafa skattaprósenturnar hækkað mikið eins og hæstv. fjmrh. veit og þetta þarf líka að skoða og bera saman. Og tilfærslunni reynir hæstv. fjmrh. ekki að mótmæla, enda ekki von.