Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 15:26:12 (2143)


[15:26]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins út af því að það kemur enn sú fullyrðing hjá hæstv. forsrh. að framsóknarmenn hafi ítrekað krafist þess að handafl þýddi lagabreytingu eða lagabeitingu. Ég hef ítrekað lýst því yfir hér, bæði úr þessum ræðustóli og annars staðar, að ég teldi það að stjórnvöld ættu að grípa til þeirra möguleika sem þau hefðu í valdi sínu, þ.e. eins og það að hafa áhrif á það hvernig Seðlabankinn vinnur, hvernig Seðlabankinn hefur áhrif á markaðinn. Það er hluti af því og ef það eru ákvæði í bankalögum sem kveða á um það að bankinn geti haft áhrif á vexti, þá á hann auðvitað að gera það. Það er það sem við höfum verið að tala um og ítrekað krafist og ég segi aftur, auðvitað var það líka það sem ríkisstjórnin gerði þegar hún tók ákvörðun um það núna að breyta vöxtum á skuldabréfum ríkissjóðs, þá var

það ekki þannig að þegar hæstv. ráðherra eða ráðherrar eða ríkisstjórn mættu til vinnu að morgni þessa dags, ég man nú ekki lengur hvaða dagsetning var sem rætt var um vextina í ríkisstjórninni, þá hefðu vextirnir breyst eitthvað um nóttina, heldur tók ríkisstjórnin ákvörðun um það að beita nú þeim aðferðum sem hún hefði tiltækar til að knýja fram vaxtalækkun með handafli eða handleiðslu hvort heldur þeir vilja nú kalla það.
    Varðandi stöðuna í efnahagslífinu, þ.e. að það skuli þó þrátt fyrir allt vera stöðugleiki nokkur, þá var grunnur að þeim stöðugleika lagður í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstjórnar og ég rakti það nokkuð hér í upphafsorðum mínum áðan og tímans vegna hef ekki aðstæður til þess að endurtaka það nú en þar voru upphafsskrefin stigin og það hefur leitt til þess að stofnunum hefur tekist að halda sig nokkuð vel við þær fjárveitingar sem markaðar eru í fjárlögum. En efnahagsstefnan hefur hrunið því það eru einmitt ýmsar aðrar stærðir sem breytast og verið er að breyta í fjáraukalögunum sem við erum að ræða nú heldur en það að stofnanirnar hafi farið með rekstur sinn allan út um víðan völl. Það er áætlunargerð og efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar sem hefur brugðist.