Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 18:00:18 (2160)


[18:00]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. til fjáraukalaga sem nú er til umfjöllunar er enn ein staðfestingin á því að stjórnarstefnan í ríkisfjármálunum hefur beðið algert skipbrot. Hæstv. fjmrh. er ekki hér í salnum núna, en ég vildi gjarnan óska eftir því að hann yrði viðstaddur þessa umræðu. Hins vegar sé ég að hæstv. forsrh. er hérna og ég ætla að fá að beina nokkrum orðum til hans síðar í ræðu minni og eins hæstv. heilbr.- og trmrh.
    Hæstv. ríkisstjórn fór af stað með það í upphafi þessa árs að hallinn á fjárlögum færi ekki nema lítils háttar yfir 6 milljarða kr. Nú hefur það komið fram við þessa umræðu að fjárlögin munu verða, þegar upp er staðið, með 13,8 milljarða kr. halla. Þrátt fyrir yfirlýsingar, og það bara upp á síðkastið, að að öllum líkindum gæti ríkisstjórnin náð á tveimur fyrstu árum síns starfsferils að skila fjárlögum hallalausum, þá er mikið langt frá því. Og nú kemur hæstv. fjmrh. með andsvar við ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. áðan og fer að reyna að rugla menn í ríminu með því að þetta sé nú ekki eins alvarlegt, því að fjárheimildirnar séu allt aðrar heldur en fjárlögin sem samþykkt voru hér í desember á sl. ári. Staðreyndin er auðvitað sú, og það er það sem menn verða að horfa á, að menn samþykktu hér fjárlagafrv. sem varð að fjárlögum og átti að vera með 6,2 millj. kr. fjárlagahalla. En þegar upp er staðið og það frv. sem hér er nú til umræðu og umfjöllunar, um fjáraukalög, gerir ráð fyrir því að hallinn á árinu verði 13,8 milljarðar.
    Þessi mikli halli er orðinn þrátt fyrir það að hér sé um gríðarlegar skattahækkanir að ræða. Það kom fram á landsfundi Sjálfstfl. árið 1991, fyrir alþingiskosningarnar í apríl, að skattarnir ættu að lækka, tekjuskatturinn niður í 35% eða skattalækkun upp á 9.150 millj. kr. En bara tekjuskattshækkunin á síðasta ári, sem þessi ríkisstjórn beitti sér fyrir, var upp á tæpa 3 milljarða kr. Þannig að þau loforð sem ríkisstjórnarflokkarnir gáfu fyrir alþingiskosningarnar 1991 hafa verið svikin. Það hafa verið lögð á þjónustugjöld sem eru upp á 2,5 milljarða. Vaxtabætur hafa verið skertar. Barnabæturnar hafa verið lækkaðar. Vextir í félagslega húsnæðislánakerfinu hafa verið hækkaðir. Vextir í hinu almenna húsnæðislánakerfi hafa verið hækkaðir. Lánstíminn hefur verið styttur. Skattleysismörkin hafa verið lækkuð.
    Á öllu þessu ber ríkisstjórnin ábyrgð og hæstv. fjmrh. þó alveg sérstaklega. Hann ber ábyrgð á því að nú er búið að byggja hér upp skattkerfi sem er svo kolvitlaust að það tekur engu tali. Hinn almenni launamaður í landinu borgar nú í kringum 70% jaðarskatt, þ.e. launafólk sem er með tekjur á bilinu 150--250 þús. kr. í mánaðarlaun. Vegna allra þessara breytinga sem gerðar hafa verið á skattkerfinu þá fara af hverjum 100 kr. sem þetta fólk vinnur sér inn til viðbótar, til að mæta kjaraskerðingunni fyrstu 70 kr. beint til fjmrh. áður en það fær sjálft 30 kr. 70% jaðarskattur. Þetta gerist hjá þeim stjórnmálaflokkum sem lofuðu fólkinu fyrir alþingiskosningarnar 1991 að skattarnir skyldu lækkaðir.
    Í upphafi árs 1992 þegar menn stefndu að því að ná fjárlagahallanum niður í núll á tveimur fyrstu árunum, þ.e. skila hallalausum fjárlögum, þá fóru menn af stað og töluðu við starfsfólk á opinberum stofnunum, á heilbrigðisstofnunum, á hinum ýmsu opinberu stofnunum, og hétu því að ef menn næðu nú árangri í að spara og gætu orðið innan fjárlaga, þá væri það alveg klárt að starfsfólkið fengi að njóta þess í bættum kjörum. Á fundi sem þáv. hæstv. heilbr.- og trmrh. átti með starfsfólki í heilbrigðisþjónustunni í janúar 1992, og ég býst við að hæstv. fjmrh. sem nú kemur í salinn hafi átt aðra slíka fundi með starfsfólki í ríkiskerfinu, þá lofaði þáv. hæstv. heilbrrh. Sighvatur Björgvinsson því að ef mönnum tækist að spara, þá skyldu stofnanirnar njóta þess arna og það væri hægt að bæta starfsfólkinu það. Nú gerðist það í heilsugæslunni í Reykjavík að á árinu 1992 varð sparnaður á bilinu 6--7 millj. sem er verulegur árangur vegna þess að það er ekki mjög mikil velta hjá þessum fáu heilsugæslustöðvum hér. Starfsfólkið trúði því að við þetta loforð yrði staðið, sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar gaf í upphafi árs 1992. Ítrekað á árinu 1993 hafa stjórnir heilsugæslunnar í Reykjavík skrifað bréf til hæstv. heilbr.- og trmrh., bréf til hæstv. fjmrh. og óskað eftir því að við þessi loforð yrði staðið. Þessar 6--7 millj. kr. sem hefðu sparast árið 1992 yrðu fluttar yfir til heilsugæslunnar árið 1993. Enn hefur það ekki gerst og það er ekkert í þessu frv. til fjáraukalaga sem gerir ráð fyrir því að það eigi að flytja þennan rekstrarárangur og rekstrarafgang sem varð árið 1992 yfir til heilsugæslunnar, þannig að við þessi loforð verði staðið. Þess vegna þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að koma nú aftur og óska eftir því við þetta sama fólk að nú verði menn að spara og ef menn nái að spara, þá muni starfsfólkið njóta þess. Það verður auðvitað ekki tekið mark á þessum yfirlýsingum nú ef þær koma og eftir því verður gengið. Ég vil því spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. og eins hæstv. fjmrh. hvort við það loforð sem fyrrv. hæstv. heilbr.- og trmrh. gaf og situr nú enn í ríkisstjórn sem viðskrh. og iðnrh., hvort við þetta loforð verður staðið og með hvaða hætti það verði gert.
    Það er auðvitað líka einkennilegt á sama tíma og menn tala um hagræðingu og sparnað og að alveg nauðsynlegt sé að ná því, alveg sérstaklega í heilbrigðisþjónustunni, þá skuli menn enn halda því til streitu að ætla að sameina Borgarspítalann og Landakotsspítala eins og hæstv. fyrrv. heilbr.- og trmrh. lagði til, því það er alveg ljóst að það mun á næstu árum, verði af þessari sameiningu, ekki leiða til tuga eða hundraða millj. kr. útgjaldaauka heldur milljarða kr. útgjaldauka á næstu árum. Bara það að samþykkja að sameinaður Borgarspítali og Landakotsspítali verði háskólasjúkrahús, þannig að við rekum tvö háskólasjúkrahús í 250 þús. manna samfélagi, þá þýðir það viðbótarútgjöld á bilinu 400--600 millj., bara sú ákvörðun ein og sér, þannig að það sjúkrahús geti staðið undir merkjum sem háskólasjúkrahús. Það er ekkert verið að gera í því að koma á verkaskiptingu milli þessara sjúkrahúsa. Það stendur til, eftir því sem best er vitað, og hæstv. heilbr.- og trmrh. getur þá kannski upplýst okkur sem ekki vitum betur um það, að flytja barnadeild sem nú er á Landakotsspítala yfir á Borgarspítalann í stað þess að flytja hana yfir á Landspítalann þar sem barnadeild er fyrir. Þetta eru fyrstu merki þess og þar mun það koma fram, að ef barnadeildin verður flutt yfir á Borgarspítalann frá Landakotsspítala en ekki yfir á Ríkisspítalana, þá er það alveg ljóst að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. heilbr.- og trmrh. meinar ekkert með því að koma á verkaskiptingu milli sjúkrahúsanna sem er þó alger forsenda fyrir því að menn nái hér árangri í hagræðingu og sparnaði.
    Í þessari umræðu um það frv. til fjáraukalaga sem hér hefur verið til umfjöllunar í dag hafa menn mikið rætt um vaxtalækkunina sem fyrir dyrum stendur eða sem margir vilja halda fram að hafi nú kannski náð fram að ganga. Hæstv. forsrh. gerði mikið úr því að það þyrftu að vera skilyrði til staðar og það væri í fyrsta skipti núna á þessu hausti sem skilyrði hefðu verið til staðar til að lækka raunvexti. Nú birtist það, eins og kom hér fram hjá hv. 8. þm. Reykn., að Morgunblaðið greinir frá því í dag að þessi raunvaxtalækkun er auðvitað ekkert komin niður í einhver 5 eða 6%. Hún er eitthvað miklu meiri. Þegar menn vega

saman verðtryggðu lánin og óverðtryggðu lánin, þá er ekki um neina 5 eða 6% raunvaxtalækkun að ræða. Sennilega eru vextirnir núna enn hærri en þeir voru þó þegar þessi ríkisstjórn tók við og var hennar fyrsta verk á sínum tíma að hækka vextina um 2--3% og síðan hafa þeir stöðugt farið hækkandi. En hvaða skilyrði eru það sem þurfa að vera til staðar, hæstv. forsrh., til þess að vaxtalækkunin geti gengið fram?
    Sú aðgerð sem gripið var til til vaxtalækkunar var og er í raun og veru ekkert annað en sjónhverfing. Það sem gerist er það að 8--9 milljörðum kr. er á fáum dögum dælt út í hagkerfið sem leiðir auðvitað til þess að eftirspurn eftir peningum minnkar tímabundið, þannig að það verður til tímabundin vaxtalækkun að mönnum sýnist og halda að hún sé í raun og veru einhver langtímalækkun. Því fer fjarri. Það sem gerðist var það að Seðlabankinn losaði um bindiskylduna, lausafjárhlutfalli viðskiptabankanna var breytt og Seðlabankinn fór að greiða vexti á bindiskylduna eftir á. Öllum þessum peningum, 8--9 milljörðum kr., var hent út í hagkerfið á fáum dögum. Hvað þýðir þetta þegar fram líða stundir? Þetta þýðir það að þegar ríkissjóður er rekinn núna á þessu ári með 13--14 milljarða kr. halla og á næsta ári með 16--20 milljarða kr. halla, þá getur ríkissjóður ekki annað gert um mitt ár 1994 en að fara inn á markaðinn aftur og þá auðvitað hækka vextirnir. Það er ekkert annað sem gerist. Þannig að hæstv. forsrh. er raunverulega ekkert annað að gera heldur en kaupa sér frið með vaxtalækkunum, sem eru eintómar sjónhverfingar, fram yfir sveitarstjórnarkosningarnar á næsta ári, vegna þess að áhrifin af 8--9 milljörðunum hafa fjarað út um mitt ár 1994.
    Það er síðan auðvitað mjög alvarlegt gagnvart almenningi og þeim fyrirtækjum og stofnunum sem núna eru að kaupa bréf á markaði að halda því fram að þarna sé um varanlega vaxtalækkun að ræða, lækkun sem menn geta treyst og þannig að byggja upp trú á falskan markað í raun og veru. Og það er ábyrgðarhluti hjá hæstv. forsrh. þegar hann veit það og hefur margoft sjálfur sagt það á undanförnum árum, mánuðum, vikum og missirum, að það sé ekki hægt að ná vöxtunum í landinu niður nema ríkissjóður dragi úr sínum fjárlagahalla. Að ætla svo að skapa falska trú á markaðinn með því að vita að ríkissjóðshallinn er á bilinu 13--15 milljarðar á þessu ári, 16--20 á næsta og ætla síðan að halda því fram að það sé orðinn einhver traustur markaður sem geti staðið undir 5--6% raunvöxtum í landinu. Þetta er rangt og þetta er ábyrgðarhluti og því spyr ég hæstv. forsrh.: Hefur hann breytt um skoðun á því að það sé ekki nauðsynlegt að draga úr fjárlagahallanum til þess að hægt sé að ná raunverulegri vaxtalækkun til langframa?