Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 23:37:44 (2220)

           [23:37]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel að þingmenn stjórnarandstöðunar hafi í þessari umræðu sýnt að þeir hafa fullan vilja á því að efnisleg umræða fari fram. Og þegar ráðherrar hafa svarað þeim efnislega þá er það talið fullnægjandi. Hæstv. heilbrrh. hefur staðið nokkuð vel hvað það snertir að koma fram í umræðunni með þeim hætti og eftir að búið var að benda hæstv. fjmrh. á það að hann hefði ekki brugðist við á þann veg að svara þeim spurningum sem til hans var beint þá gerði hæstv. fjmrh. það. Hæstv. forsrh. hefur ekki gert það. ( Forsrh.: Hvað, fyrirgefðu?) Að svara þeim fyrirspurnum sem til hans hefur verið beint. ( Forsrh.: Hann hefur leitast við það, jú.) Nei, það hefur hæstv. ráðherra ekki gert. Að vísu eftir að ég kvartaði undan því klukkan rúmlega ellefu að hann hefði ekki svarað neinu þá loksins kom hann hér í salinn og tók til við að svara þeim ræðumönnum sem þá voru að tala í formi andsvara. En hæstv. forsrh. hefur ekki enn flutt neina venjulega ræðu í þessum umræðum þannig að hann hefði tíma til að svara þeim spurningum sem til hans hefur verið beint. T.d. hvað snertir þær mörgu spurningar sem ég beindi til hans þá hefur hann ekki svarað neinni þeirra. ( Forsrh.: Þetta er ekki rétt.) Hæstv. forsrh. getur sjálfur gengið úr skugga um það með því að skoða umræðuna. Hann veitti andsvör hér sem voru svona almennar fullyrðingar, nokkuð út og suður, en komu á engan hátt inn á þær spurningar sem ég bar fram til hans.
    Ég vil segja það við hæstv. forsrh. alveg skýrt: Við ætlumst til þess að forsrh. taki á málefnalegan hátt þátt í umræðum hér. Við erum ekki að biðja hann að flytja langar ræður en við ætlumst til að hann taki, fimm, tíu eða fimmtán mínútur sem þarf til að svara þeim spurningum sem til hans er beint. Við erum að beina þeim til ráðherrans vegna þess að við teljum þær mikilvægar. Og það dugir ekki að nota bara andsvörin hér í svona almennum pólitískum skætingi í málfundastíl þegar beðið er um svör við spurningum. Og eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði hér í fyrr í kvöld, og er alveg rétt hjá þeim þingmanni, er það mjög hæpið hjá ráðherranum að ætla sér að nota andsvaraformið eingöngu í þessi orðaskipti þingmanna og ráðherra vegna þess að andsvaraformið er það stutt að það er ekki hægt að ætlast til þess að ráðherrar veiti svör við öllum þeim spurningum sem þá eru bornar fram. Þess vegna ætla ég, virðulegur forseti, að endurtaka hér nokkrar af þeim spurningum sem ég hef borið fram til hæstv. forsrh. og hann hefur í engu svarað.
    Í fyrsta lagi spurði ég hæstv. forsrh. að því hvort hann væri enn þeirrar sömu skoðunar sem hann hefur flutt hér ítrekað síðan hann varð forsrh. að það væri samhengi á milli ríkissjóðshallans og vaxtastigsins í landinu? Ef hann væri þeirrar skoðunar að forsendan fyrir varanlegri vaxtalækkun væri sú að ná ríkissjóðshallanum niður hvert væri þá svar hans við spurningu um horfurnar um varanlega vaxtalækkun þegar við blasti við afgreiðslu þessa fjáraukalagafrv. að hér í þessari umræðu er verið að afgreiða fjáraukalagafrv. fyrir árið í ár sem felur í sér tæplega 14 millj. halla þótt hæstv. fjmrh. hafi lýst hér nokkurri von sinni um að hallinn yrði eitthvað minni? Hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir að engin von standi til þess að 10 milljarða hallinn í fjárlagafrv. fyrir næsta ár verði minni. Því er eðlilegt að hæstv. forsrh. svari því hér: Telur hann að þessi mikli halli í fjáraukalagafrv. sem hér er til umræðu og fjárlagafrv. fyrir næsta ár sem liggur hér fyrir hafi engin áhrif á vaxtastigið á næsta ári? Þessi spurning mín hefur svo sérstaklega verið rökstudd enn frekar af hv. þm. Finni Ingólfssyni, sem benti á það hér fyrr í þessum umræðum og fékk heldur ekkert svar, hæstv. forsrh., við þeirri ábendingu að þegar þeir átta til níu milljarðar sem notaðir höfðu verið til þess að greiða fyrir vaxtalækkuninni núna væru uppurnir um mitt næsta ár, hvað þá? Hvað þá?
    Hæstv. forsrh. sem ráðherra efnahagsmála þarf að veita svör við þessum spurningum, ekki bara vegna þess að við berum þær upp hér á Alþingi, heldur vegna þess að hann hefur sagt það opinberlega að nú eigi fyrirtækin í landinu að bregðast við þeim árangri sem náðst hefur með varanlegri vaxtalækkun og leggjast í fjárfestingar eða aðgerðir til sóknar í atvinnulífi til að auka atvinnu í landinu. Þá verða fyrirtækin að fá frá hæstv. forsrh. hér á þinginu, sem er hinn eðlilegi vettvangur slíkra yfirlýsinga, einhver rök fyrir því að þetta sé ekki byggt á sandi í ljósi kenninganna um ríkissjóðshalla og vaxtastig.
    Ég heyrði að vísu hæstv. ráðherra halda því fram hér í innskoti áðan í andsvari sínu að það sem skipti máli væri heildarfjárþörf ríkisins á lánsfjármarkaði, ekki hallinn sjálfur. Það er að vísu algerlega ný kenning hjá hæstv. ríkisstjórn. Það má hins vegar ræða hana ef það er kenningin. En þá verður líka að vera alveg skýrt hvað menn eru að tala um alveg nákvæmlega.
    Hæstv. forsrh. sagði það hér áðan að yfirlýsingin um erlendar lántökur væri ekki bara hótun, henni yrði fylgt fram. Þá vil ég segja við hæstv. forsrh.: Það er hættuspil. Það er hættuspil að fara að fjármagna húsbyggingar á Íslandi með erlendum lánum. Þjóð sem er farin að fjármagna íbúðarbyggingar sínar með erlendum lántökum, hún er komin á hættustig. Þjóð sem er farin að fjármagna rekstur sjúkrahúsa og skóla með erlendum lántökum, hún er komin á hættustig. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. geri sér grein fyrir því.
    Eru kjörin sem kunna að bjóðast á þeim erlendu lánamörkuðum þá betri en þau sem kynnu að bjóðast hér innan lands þótt þau væru fyrir ofan 5% vaxtamarkið? Það er líka fullkomlega ósannað mál. Vegna þess að gengisáhættan á hinum erlenda lánamarkaði er slík að það er ekki hægt að jafna því saman við lántökur á íslenskum markaði.
    Það er hægt að rekja fjölmörg dæmi um það hvernig bæði ríkissjóður og Landsvirkjun, sem er fyrirtæki sem við þekkjum nú báðir nokkuð til, hafa tapað verulegum fjármunum á því að velja vitlausar myntir á ákveðnum tímapunkti og orðið þess vegna að líða fyrir verulegt gengistap af lántökuákvörðunum fyrri ára. Til þess að eitthvert vitrænt samhengi sé í efnahagsumræðunni og ákvörðunum aðilanna úti í þjóðfélaginu, hæstv. forsrh., þá verða að fást hér svör við þessum spurningum.
    Ég spurði hæstv. fjmrh. hér fyrr í kvöld, vegna þess að hæstv. forsrh. var þá ekki í salnum, hvort hann gæti þá svarað einni af þeim spurningum sem ég hafði borið fram við hæstv. forsrh. af því að ég vildi greiða fyrir umræðunni. Þá kom hæstv. fjmrh. upp og sagði að hæstv. forsrh. hefði svarað því fyrr í umræðunni og hann væri sammála því svari. Honum var þá bent á það, hæstv. fjmrh., að forsrh. hefði engu svarað í umræðunni um það atriði. Hæstv. fjmrh. kom þá upp og sagði að, jú, það væri líklegast rétt að forsrh. hefði engu svarað hér á þingi um það atriði en líklegast hefði hann heyrt hann svara því í fjölmiðlum í gær.
    Virðulegi forseti. Við erum hér með þjóðþing og það er orðið dálítið hættulegt þegar jafnvel ráðherrarnir í ríkisstjórninni eru orðnir svo ruglaðir í ríminu að þeir í fyrstu halda því fram að það sem þeir hafi heyrt fyrir tilviljun forsrh. segja í fjölmiðlum hafi verið flutt hér í umræðunni fyrr í dag á Alþingi. Þessi stóll hér er hinn formlegi vettvangur sem ríkisstjórnin hefur til að flytja sitt mál. Þótt vissa virðingu sé hægt að bera fyrir fjölmiðlum í landinu þá dugir það ekki að umræðan sé gerð svo óljós að enginn viti lengur hvað er sagt hvar.
    Fyrsta atriðið sem ég hef ekki fengið neitt svar við er afstaða ráðherrans til þessa samhengis milli ríkissjóðshalla og vaxtastigsins. Annað atriði sem ég hef ekki heldur fengið neitt svar frá hæstv. forsrh. við er hver sé afstaða hans til þess 12--16% raunvaxtastigs á óverðtryggðum lánum sem nú er í bankakerfinu í ljósi þess að bankarnir breyttu ekki vaxtastiginu núna á síðasta breytingardegi og í ljósi þess að hæstv. fyrrv. viðskrh., núv. seðlabankastjóri, kemur með þær skýringar á þessu háa vaxtastigi að það stafi annars vegar af fákeppniseðli íslenska bankakerfisins og hins vegar af rekstrarerfiðleikum bankanna. Ef þessar skýringar seðlabankastjórans eru réttar þá vitum við báðir, hæstv. forsrh., að þeir tveir þættir munu ekkert breytast á næstu missirum. Það verða áfram fákeppniseinkenni á íslenskum peningamarkaði og það verða áfram erfiðleikar hjá íslenska bankakerfinu. Er þá seðlabankastjórinn virkilega að segja það að þess vegna verði menn að sætta sig við 12--16% raunvaxtastig á óverðtryggðum lánum í bankakerfinu? Og er hæstv. forsrh. sammála þessum skýringum seðlabankastjórans? Ég spurði að því hér í dag. Það hefur ekkert svar fengist við því. Og ef hann er ekki sammála þeim, með hvaða rökum telur hann þá að raunvaxtastigið á óverðtryggðum lánum geti lækkað hér á næstunni?

    Þriðja atriðið sem ég hef ekkert svar fengið við hér í dag er sú spurning mín til hæstv. forsrh. hvert sé svar hans gagnvart yfirlýsingu Alþýðusambands Íslands og yfirlýsingum forseta Alþýðusambandsins og formanns BSRB varðandi það að þjóðarsáttarsamningarnir séu í hættu ef sumir starfsmenn ríkisins fái margra tuga prósentuhækkun en aðrir ekki. Þegar jafnvarkár maður og forseti Alþýðusambandsins lætur þau orð falla sem hann gerir í viðtali við Morgunblaðið í dag þá er mikill þungi þar á bak við. Þess vegna spurði ég hæstv. ráðherra: Ætlar ríkisstjórnin að aðhafast eitthvað eða ekki vegna úrskurðar kjaranefndar og Kjaradóms eða ætlar ríkisstjórnin að festa það í sessi að sumir opinberir starfsmenn fái hér launahækkanir upp á marga tugi prósenta?
    Hæstv. ráðherra veit það ósköp vel að það er hægt að finna fjölmörg rök fyrir því hjá hinum ýmsu starfshópum opinberra starfsmanna að þar hafi aðstæður breyst með sama hætti og hjá hæstaréttardómurum og hjá prestum. Þess vegna sé hægt að réttlæta launahækkanir þeirra. Ég held að það gangi einfaldlega ekki upp að sannfæra launamenn um það að á sama tíma og það sé sjálfsagt og eðlilegt að þeir sem fari með jólaguðspjallið fái margra tuga prósenta hækkun núna rétt fyrir jólin, þá eigi þeir sem afgreiða jólamatinn, þeir sem framleiða jólabækurnar, þeir sem bera út jólapóstinn ekki að fá neitt. Ástæðan fyrir því að almenningur í landinu hefur sætt sig við það að taka þátt í þessum erfiðleikum með þeim hætti sem Alþýðusambandið staðfesti og BSRB er nú að búa sig í er sanngirni, það séu allir á þessum sama bát. Það er meginástæðan. Íslenskt launafólk hefur ávallt verið tilbúð að leggja á sig mikla erfiðleika bæði nú og áður ef sanngirni væri gætt. En þótt prestar og dómarar séu þannig staddir að sjálfsagt sé hægt að færa ýmis rök fyrir þeirra launahækkunum, þá mun þjóðin einfaldlega ekki skilja það að þeir séu einhvern veginn svo illa haldnir að það verði bókstaflega að hækka hjá þeim.
    Þó ég telji nú ekki allt upp sem ég spurði hér um og hef ekki fengið nein svör við, þá ætla ég samt sem áður að ljúka þessari upptalningu hér og nú með því að minna hæstv. forsrh. á að ég spurði líka um yfirlýsingar hans varðandi Kjaradóm. Ég þóttist heyra hæstv. forsrh. segja það hér í gær í fjölmiðlum að það mundi ekki koma meira frá Kjaradómi. Efnislega var það þannig. Ég man ekki orðalagið alveg nákvæmlega, en þegar hann var spurður hvort þingmenn kæmu ekki næst og þannig koll af kolli, þá var svar hans einhvern veginn á þann veg að það mundi ekki vera. Og þess vegna spurði ég hæstv. forsrh.: Hvaða tryggingu hefur hann fyrir því að Kjaradómur láti nú staðar numið? Eða telur hæstv. forsrh. að Kjaradómur muni halda áfram að kveða upp úrskurði? Og ég gat þess svona í leiðinni, bara til þess að hæstv. forsrh. vissi af því, af því að ég er nú yfirleitt hreinskilinn við hæstv. forsrh., að hann yrði líka að átta sig á því að sú staðreynd að náinn fyrrv. samstarfsmaður hans sem situr í Kjaradómi, borgarlögmaður, skapar auðvitað þá stöðu að ýmsir velta því fyrir sér hvort hæstv. forsrh. standist algerlega þá freistingu að ræða kjaradómsmál við þennan ágæta vin sinn og fyrrv. samstarfsmann, það vænti ég að sé staðreyndin. En sumir hafa dregið þá ályktun hér úti í þjóðfélaginu af þessum ummælum sem þeir heyrðu eins og ég að forsrh. sé með eitthvert sérstakt samband við Kjaradóm og hafi verið upplýstur eitthvað um það hvað Kjaradómur ætlist fyrir. Og ég tel það vera mikilvægt fyrir hæstv. forsrh. sjálfan að fá tækifæri til þess hér á Alþingi að afneita því, tel að það þurfi að vera alveg á hreinu að hæstv. forsrh. hafi ekki verið og muni ekki vera með puttana í Kjaradómi eins og ég orðaði það hér fyrr í dag.
    Virðulegi forseti. Þetta eru nokkur af þeim atriðum sem ég ræddi fyrr í dag og hæstv. forsrh. hefur ekki svarað enn. Og ég vona að ég hafi þar með rökstutt nægilega fyrir hæstv. ráðherra að þau stuttu andsvör sem hann veitti hér í dag voru á engan hátt á þann veg að þessum spurningum sem ég hef nú hér lýst væri svarað. Ég tel hins vegar, virðulegi forseti, að það sé illa farið með minn tíma og illa farið með tíma þingsins að ég skuli þurfa að endurtaka þessar spurningar rétt fyrir miðnætti. Ég ætlaði ekkert að lengja umræður en framganga hæstv. forsrh. að svara ekki er auðvitað á þann veg að maður neyðist til þess að endurtaka spurningarnar og endurtaka þær á þann veg að ég hef ekki rétt til þess að taka til máls á eftir andsvörum ef hæstv. forsrh. kýs að svara þannig að framganga hans í umræðunni er á þann veg ef hann nú fer loksins að svara að vonlaust er fyrir mig að eiga við hann fleiri orð um þetta mál nema undir hinum stuttu andsvörum. Við erum að taka þessi mál hér á dagskrá líkt og gert var með heilbrigðismálin til þess að reyna að átta okkur á því hvernig hæstv. ráðherrar líta á málin. Ég tel að það hafi tekist vel varðandi hæstv. heilbrrh. í þessum umræðum og mér finnst miður að það skuli ekki hafa gert það varðandi hæstv. forsrh.