Viðhorf ríkisstjórnarinnar til veiða Íslendinga í Smugunni og við Svalbarða

49. fundur
Mánudaginn 06. desember 1993, kl. 15:31:24 (2233)


[15:31]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegur forseti. Umræður um veiðar íslenskra skipa við Svalbarða eru að mínu mati ótímabærar nú um stundir og eftir umfjöllun á sameiginlegum fundi utanrmn. og sjútvn. þá sýnist mér að það þjóni hagsmunum Íslands best að reyna til þrautar að ná saman til að tryggja sem best hagsmuni Íslendinga. Þegar hafa verið gefnar of margar ótímabærar yfirlýsingar í þessu máli. Vonandi munu ráðherrar sem aðrir spara frekari yfirlýsingar á meðan verið er að vinna að því að reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu.
    Eftir þá fundi sem haldnir hafa verið í utanrmn. og sjútvn. þá held ég að enginn velkist í vafa um hver hugur alls þorra nefndarmanna er og ég treysti því að unnið verði að málinu í samræmi við það, hvaða farvegur sem fundinn verður fyrir það.
    Af þessum sökum tel ég ekki heppilegt að fara í efnislega umræðu um þetta mál nú þótt mörg atriði væri gagnlegt að fara yfir á þessu stigi. Ógætileg orð ættu ekki að falla fleiri en sögð hafa verið.
    Varðandi veiðarnar í Smugunni þá vil ég ekki fara sérstaklega út í það mál að svo stöddu, ég held að það sé brýnna að takast á við þetta Svalbarðamál en ég bendi þó á að reynslan í sumar er búin að kenna okkur þá lexíu að þarna eru í rauninni ekki nein tök eða burðir til þess að gera annað en viðurkenna þetta sem aðþjóðlegt hafsvæði fyrr en þjóðréttarleg staða málsins hefur verið könnuð og við verðum að vinna á öðrum vettvangi að þeim málum sem við teljum eðlilegt varðandi samninga við aðrar þjóðir og fiskverndunarmál.