Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 16:09:23 (2414)

[16:09 ]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Fjárlagafrumvarp ársins 1994 hefur verið til meðferðar í fjárlaganefnd síðustu mánuði og er nú komið til 2. umr. hér í þinginu. Formaður fjárlaganefndar hefur gert grein fyrir áliti meiri

hluta nefndarinnar og þeim breytingartillögum sem hann leggur til. Mun ég því í minni ræðu hér fjalla um einstaka þætti breytingartillagna og almennt um ríkisfjármálin.
    Fjárlaganefnd hóf vinnu sína við fjárlög næsta árs í lok septembermánaðar með viðtölum við fulltrúa sveitarfélaga. Hefur nefndin unnið óslitið síðan. Vil ég þakka meðnefndarmönnum mínum samstarfið, svo og starfsfólki þingsins, fjármálaráðuneytis og Ríkisendurskoðun sem unnið hafa með nefndinni.
    Eftir því sem útgjöld ríkisins hafa vaxið síðustu árin hafa spurningar um sparnað og niðurskurð ríkisútgjalda orðið áleitnari. Sá tími er liðinn að talið sé eðlilegt að útgjöld ríkisins vaxi sjálfkrafa á hverju ári. Segja má að eitt helsta viðfangsefni ríkisstjórna og Alþingis við fjárlagagerð hvers árs sé að finna leiðir til að draga úr ríkisútgjöldum og minnka hallarekstur ríkissjóðs.
    Telja má fullvíst að enn megi ná talsverðum árangri með aukinni hagræðingu og minni sóun á verðmætum í rekstri ríkisstofnana án þess að draga úr þeirri þjónustu sem veitt er. Til þess að standa megi skynsamlega að ákvörðunum um skerðingu framlaga er nauðsynlegt að fyrir hendi séu aðferðir til að meta árangur af rekstri ríkisstofnana og fyrirtækja ríkisins. Slíkan mælikvarða þarf að leggja til grundvallar við forgangsröðun verkefna og ákvarðanir um nýja útgjaldaliði. Þetta er eitt af allra mikilvægustu viðfangsefnum og í fjárln. er að sjálfsögðu lögð mikil vinna í að leggja mat á slíka hluti en það er alveg ljóst að það þarf að gera enn betur. Og ég get tekið undir orð hv. 6. þm. Vestf. þegar þingmaðurinn kom inn á þetta atriði. Það er mikilvægt að stofnunum ríkisins verði sett markmið um þjónustu og að þróaðir verði mælikvarðar sem nota má til að meta árangur stofnana og starfsfólks þeirra.
    Fyrr á þessu ári hafa þingmenn og þá einkum stjórnarþingmenn orðið fyrir ómaklegri gagnrýni, m.a. í fjölmiðlum. Hefur því verið haldið fram að þingmenn snúist gegn tillögum um sparnað. Þessi gagnrýni hefur verið lítt ígrunduð og órökstudd að mínu mati. Það er hlutverk þingmanna í fjárlaganefnd að fara yfir fjárlagafrumvarpið og gera tillögur til breytinga. Sumar tillögur frá framkvæmdarvaldinu, úr ráðuneytum, eru þannig að þingmenn leggjast gegn þeim og verða að leggjast gegn þeim og færa fyrir því að sjálfsögðu fullgild rök þegar um það er fjallað.
    Sá meiri hluti fjárlaganefndar sem starfað hefur þetta kjörtímabil hefur sérstaklega gætt þess að halda aftur af hækkunum á frumvarpi til fjárlaga í meðförum þingsins. Þegar bornar eru saman tillögur fjárlaganefndar, áður fjárveitinganefndar, árin 1989--1994 við þær tillögur sem hér eru til umræðu kemur í ljós að hækkun frá frumvarpi til fjárlaga var árið 1990 1,3%, árið 1991 0,9%, þ.e. tvö síðustu ár fyrri ríkisstjórnar, en árið 1993 varð lækkun frá frv. til afgreiðslu fjárln. og á þessu ári, þegar búið er að taka tillit til þess að framlög til vegagerðar koma með auknum tekjum, er hækkunin frá frv. til þeirra tillagna sem fjárln. gerir núna 0,3%. Ég vil vekja sérstaka athygli á þessu vegna þess að þingmenn eru gagnrýndir fyrir að standa að hækkunum og fjárln. jafnan gagnrýnd fyrir það að gera tillögur um hækkanir á fjárlagafrv. Af þessum tölum má sjá að sú fjárlaganefnd sem starfað hefur á þessu kjörtímabili hefur lagt sig mjög fram um að halda ríkisútgjöldunum niðri og gera tillögur til sparnaðar. Það mun að sjálfsögðu verða til umfjöllunar frekar við 3. umr. fjárlagafrv.
    Allnokkur umræða hefur farið fram um sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Einkum tengist það fjárlagagerð og því hvernig fjárlaganefnd og Alþingi taka á fjárlagagerðinni og framkvæmd fjárlaga. Í því sambandi vil ég lýsa þeirri skoðun minni að auka þarf sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Treysta þarf sjálfstæða skoðun þingnefnda á einstökum málum. Það varðar ekki aðeins ákvarðanir um skiptingu einstakra fjárlagaliða heldur miklu fremur undirbúning og stefnumörkun við setningu löggjafar á hinum ýmsu sviðum.
    Það er afar mikilvægt að á milli þingsins og Ríkisendurskoðunar ríki fullkomið traust. Ég tel að starf Ríkisendurskoðunar verði stöðugt mikilvægara. Á það bæði við um skoðun einstakra mála, stofnana og eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Staða Ríkisendurskoðunar er sterk og tel ég að þingmönnum beri að standa vörð um það álit sem hún hefur skapað sér en þinginu ber ávallt að gera miklar kröfur um fagleg og vönduð vinnubrögð Ríkisendurskoðunar.
    Þegar rætt er um sjálfstæði þingsins, hvað er þá átt við? Í mínum huga snýst það einkum um að þingið fjalli á sjálfstæðan hátt um mál og rannsaki með gagnrýnum hætti þau frumvörp sem þingmenn og ráðherrar leggja fram. Á það jafnt við um almenna löggjöf, skattalagafrumvörp sem og fjárlagafrumvarpið. Það verður að telja óeðlilegt að ráðherrar eða ráðuneytismenn beiti sér gagnvart þinginu í einstökum málum eftir að þingið hefur fengið þau til umfjöllunar. Ráðherrar eiga auðvitað og geta beitt áhrifum sínum í þingflokkum og í þinginu vegna þeirra mála sem þeir leggja fram eða varða þeirra svið. En það á að vera meginregla að gagnrýnin umræða geti farið fram um hvert mál og þau taki breytingum í þinginu, en komi ekki til afgreiðslu með þeim skilaboðum frá ríkisstjórn eða aðilum utan þings að engu megi breyta.
    Þegar ég ber saman vinnu hér í þinginu og þá málefnavinnu sem fer fram á vettvangi sveitarstjórna hlýt ég að viðurkenna að þar sem verið er að marka stefnu er varðar sveitarfélögin miklu fer oft fram mun vandaðri og efnismeiri umfjöllun í sveitarstjórnum og á vettvangi samtaka sveitarfélaganna en gerist með stór mál hér í þinginu þegar þeim er hraðað í gegnum nefndir með miklum eftirrekstri. Þetta vil ég nefna vegna þess að það er gagnrýnt að mál tefjist hér í þinginu, mál sem þurfa vissulega vandaða skoðun og afgreiðslu eftir að umsagnir hafa borist um þau frv.

    Á þessu kjörtímabili sem nú er hálfnað hefur verið með myndarlegum hætti reynt að takast á við að hagræða í ríkisrekstrinum. Fjármálaráðherra hefur þar markað mjög ákveðna stefnu og gert ráðuneyti og stofnanir ábyrgar fyrir þeim ramma sem settur er í fjárlögum. Árangur þessa hefur nú þegar komið í ljós en áfram þarf að halda og ná enn frekari árangri við það að draga úr kostnaði ríkisstofnana.
    Við Íslendingar höfum staðið frammi fyrir miklum samdrætti í efnahagslífi okkar. Það er því eðlilegt og ekki annarra kosta völ en að reynt sé að hagræða og draga úr kostnaði og færa þjónustu einstakra stofnana að breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. En það er ekki auðvelt í öllum tilvikum. Engu að síður þarf að halda því verkefni áfram og ná þeim áfanga að færa sem mest af stofnunum sem það hentar til sveitarfélaga og einkavæða þar sem því verður við komið. Þá er nauðsynlegt að breyta stjórnkerfinu m.a. með stærri sveitarfélögum en það þarf allt sinn aðdraganda og eðlilegan undirbúning.
    Á síðasta áratug hafa náðst fram ýmsar mjög merkar breytingar. Með breytingum á sveitarstjórnarlögum 1986 voru sýslunefndir lagðar af og samstarf sveitarfélaga aukið með stofnun héraðsnefnda. Ekki voru allir á eitt sáttir með þá breytingu sem ég tel að hafi skilað miklum árangri í markvissara samstarfi sveitarfélaga. Með þeirri breytingu lauk hlutverki sýslumanna á vettvangi héraðsstjórna og beinna afskipta fulltrúa ríkisvaldsins á sveitarstjórnarsviðinu.
    Með breytingu á lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem tóku gildi 1990 var annað stórt skref stigið sem hefur án nokkurs vafa orðið til góðs, gert skil milli ríkis og sveitarfélaga skýrari og dregið úr afskiptum ríkisvaldsins af málefnum er varða verkefni sem best eru komin í höndum sveitarstjórna, svo sem rekstur grunnskóla og uppbygging hans. Og enn eru uppi hugmyndir um breytingar til þess að gera stjórnkerfi ríkisvaldsins skilvirkara og að ég tel ódýrara. Sameining sveitarfélaga gegnir þar að mínu mati lykilhlutverki en sameiningunni á og verður að fylgja tilflutningur verkefna eins og ég kom að hér fyrr í máli mínu, virðulegur forseti.
    Í fjárlögum er gert ráð fyrir breytingum á sýslumannsembættum. Ekki liggja fyrir endanlegar niðurstöður í því máli en við 3. umr. mun liggja fyrir tillaga um meðferð þessa máls. Vegna umræðna og óljósra frétta af undirbúningi þessa máls vil ég lýsa þeirri afstöðu minni að ég tel nauðsynlegt og eðlilegt að endurskoða skipulag og umdæmi sýslumannsembættanna, ekki síst ef það gæti orðið til þess að spara árlega stórar fjárhæðir, en eftir sem áður væri hægt að veita fullnægjandi þjónustu og halda reisn héraðanna. En sparnaður gæti m.a. verið fólginn í því að færa tiltekin verkefni til skrifstofa sýslumannsembættanna eða útibúa þeirra. Ég mun ekki við þessa umræðu nefna þá þætti sem ég tel að þarna eigi að skoða en þegar að því kemur verður að sjálfsögðu að fara rækilega yfir það en ég er sannfærður um að tilflutningur verkefna frá stofnunum ríkisvaldsins til sýslumannsembættanna út í héruðin gæti eflt þau, gæti bætt þjónustuna og gert hana ódýrari.
    Í umræðum um sýslumannsembættin virðist um of hafa gleymst að þau embætti hafa breyst mjög mikið með eflingu sveitarstjórnarstigsins með því að viðfangsefni og verkefni sýslumanna eru ekki lengur á vettvangi sveitarstjórnarmála. Með því að færa verulega mikil verkefni til embættanna er ég sannfærður um að með eðlilegri breytingu á þeim embættum mun verða hægt að efla þau verulega til hagsbóta fyrir íbúa svæðanna, bæði á höfuðborgarsvæðinu og ekki síður um landið allt. En í mínum huga er það óhjákvæmilegt að taka til endurskoðunar fleira en embætti sem eru úti um landsbyggðina. Ég tel að við alþingismenn eigum og verðum að skoða og endurskipuleggja það sem snýr að yfirstjórn þjóðfélagsins, ekkert síður en hinn almenna rekstur og hinar einstöku stofnanir.
    Þær breytingar sem fjárln. hefur gert tillögur um fela í sér hækkun á ríkisútgjöldum um 744 millj. og lækkun um 199,7 millj. kr. Samtals er þarna um hækkun að ræða upp á 544 millj. og 300 þús. en þar inni er hækkun vegna aukinna framlaga til vegagerðar samfara hækkun á bensíngjaldi og hertri innheimtu á þungaskatti þannig að nettóhækkunartillögur fjárln. eru 199 millj. kr.
    Þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir fjárln. og nefndin gerir tillögu um eru 385 millj. kr. til hækkunar á frv., 247,9 millj. til lækkunar og því þar um að ræða 137,1 millj. til hækkunar. Gert er ráð fyrir því að meiri hluti fjárln. muni leggja fram við 3. umr. tillögur um niðurskurð og verður það til umfjöllunar í nefndinni milli umræðna. Vissulega er það áhyggjuefni hversu mikill halli á ríkissjóði er á þessu ári og fyrirsjáanlegur á því næsta. En við þær aðstæður sem enn er búið við í þjóðfélaginu og vegna hættu á auknu atvinnuleysi er að mati meiri hluta fjárln. ekki talið fært að draga meira úr útgjöldum ríkisins en hér er gerð tillaga um nema skoðað verði sérstaklega. Samt sem áður mun fjárln. fyrir 3. umr. eins og fyrr er sagt fara nánar yfir frv. með tilliti þess hvort minnka megi hallann og meta að nýju tekjuhlið í ljósi þeirra upplýsinga um afkomu og stöðu þjóðarbúsins sem nú liggur fyrir.
    Þær breytingar sem meiri hluti fjárln. gerir og ég vil nefna sérstaklega eru þessar: Gerð er tillaga um hækkun á framlagi til Byggðastofnunar en þar er um að ræða framlag vegna atvinnuráðgjafar í landshlutum. Sá þáttur í starfsemi Byggðastofnunar var yfirtekinn en á vegum iðnrn. var áður veittur stuðningur vegna iðnráðgjafar í landshlutum. Þegar Byggðastofnun var fengið þetta verkefni komu ekki jafnframt fjármunir til þess og er með þessari hækkun komið til móts við Byggðastofnun og stofnuninni auðveldað að leggja fjármagn til atvinnuráðgjafar í landshlutum sem er að mati meiri hluta fjárln. afar mikilvægt og brýnt viðfangsefni.

    Meiri hluti fjárln. gerir tillögu um framlag til samstarfsverkefnis í Vestmannaeyjum milli Háskóla Íslands og Vestmannaeyjabæjar. Þarna er um að ræða starfsemi háskólans sem er ástæða að vekja athygli á en Vestmanneyingar hafa gengið til samstarfs við háskólann og er þess að vænta að sú aðstaða, sem með þessari fjárveitingu er ætlað að koma upp í Vestmannaeyjum til þess að þar verði hægt að stunda rannsóknir, ætti að geta orðið mikilvægur þáttur í uppbyggingu rannsókna á sviði sjávarútvegs og fiskvinnslu í þessari langstærstu verstöð landsins.
    Rétt er að taka fram svo að ekki valdi nokkrum misskilningi að með þessu er á engan hátt höggvið að rótum Háskólans á Akureyri á sviði sjávarútvegsmála enda hefur meiri hluti fjárln. lagt alveg sérstaka áherslu á það að efla Háskólann á Akureyri, m.a. þegar unnið var að undirbúningi þess að koma upp kennaradeildinni við háskólann.
    Meiri hluti fjárln. gerir tillögu um hækkun á framlagi til Kennaraháskóla Íslands. Þar er um að ræða hækkun vegna kaupa á tækjum og búnaði og einnig vegna endurmenntunardeildar sem Kennaraháskólinn hefur undirbúið og er gert ráð fyrir að verði starfrækt á Varmalandi. Telja verður mikilvægt fyrir Kennaraháskóla Íslands að efla þessa starfsemi og reyndar efla rekstur skólans sem er að sjálfsögðu nauðsynlegt að styrkja svo mikilvægur þáttur í okkar samfélagi sem kennaraháskóli hlýtur að vera. Þess vegna gerir meiri hluti fjárln. þessa tillögu og vill með því undirstrika og leggja áherslu á þýðingu Kennaraháskólans.
    Rekstur framhaldsskólanna í landinu er stöðugt vaxandi útgjaldaþáttur. Þar er bæði um að ræða kostnað vegna byggingarframkvæmda en mjög margir framhaldsskólar eru í uppbyggingu og á vegum þeirra standa yfir miklar byggingarframkvæmdir. Í fjórum framhaldsskólum eru gerðar tillögur um hækkun á rekstrarframlögum vegna þeirrar aukningar sem hefur orðið á starfsemi í skólunum en þar er um að ræða Flensborgarskóla, Fjölbrautaskóla Vesturlands, Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellsýslu og Reykholtsskóla en í Reykholti hefur nemendum fjölgað og þar er býsna öflugt skólastarf á þessum vetri. Því er gerð tillaga um að miða rekstrarframlag skólans við þann nemendafjölda sem þar er nú í haust og ber að fagna því að þetta merka skólasetur skuli hafa eflst á ný. Er það mikilvægt bæði fyrir héraðið og Reykholtsstað sem þjónustumiðstöð og merkan sögustað sem tekur við fjölmörgum ferðamönnum á hverju einasta ári. Rekstur skólans og rekstur þjónustumiðstöðvarinnar styrkir því hvort annað.
    Það vakti nokkra undrun mína þegar hv. 1. þm. Norðurl. e. gerði þessa tillögu að sérstöðu umtalsefni hér á fundinum, virðulegur forseti. Það vakti athygli mína vegna þess að fyrrv. ríkisstjórn tók um það ákvörðun að þarna skyldi hætt skólastarfi. Í Reykholti skyldi ekki vera skólastarf heldur skyldi staðurinn afhentur öðrum. Það var undirbúið með þeim hætti að það var enginn grundvöllur fyrir þeim fyrirætlunum og þess vegna er þetta hrein og klár stefnumörkun, og er ágætt að komi þá fram hverjir eru andstæðingar við þá stefnumörkun núv. hæstv. menntmrh. að efla Reykholt. Fjárln. fylgir því fram og gerir þessar tillögur og ég fagna því svo sannarlega að það skuli hafa tekist.
    Þjóðskjalasafnið býr við mikinn en hálfkláraðan húsakost. Meiri hluti fjárln. gerir tillögu um nokkra hækkun á framlagi til Þjóðskjalasafnsins. Er sú fjárveiting ætluð til þess að koma á endurbótum en það er ekki vansalaust að búa með þeim hætti að Þjóðskjalasafni okkar Íslendinga sem raun ber vitni um. Meiri hluti fjárln. væntir þess að það megi takast að gera þær endurbætur á húsakynnum Þjóðskjalasafnsins sem eru nauðsynlegar og að sjálfsögðu mjög mikilvægar.
    Til yfirdýralæknisembættisins er gerð tillaga um að nokkur hækkun komi en þar er um að ræða samninga sem gerðir voru við dýralækna en ekki hefur verið staðið við. Þeir samningar voru gerðir 1989 og hefur ekki tekist að standa við þá samninga og verður að teljast afar óeðlilegt að standa þannig að málum. Þess vegna tók fjárln. þetta mál upp og fylgir því hér fram með þeirri tillögu sem fyrir liggur.
    Lítils háttar breytingar eru gerðar á framlögum til Búnaðarfélags Íslands en það kom fram hjá meiri hluta fjárln. sá vilji að það bæri að efla héraðsbúnaðarsamböndin og þess vegna er sú tillaga gerð sem hér liggur fyrir.
    Meiri hluti fjárln. gerir tillögu um hækkun frá frv. á framlagi til rekstrar meðferðarstofnunar að Hlaðgerðarkoti. Á síðasta ári var nokkur hækkun til þessarar starfsemi auk þess sem veitt var fé til byggingarframkvæmda í Hlaðgerðarkoti. Fjárln. leggur áherslu á að Samhjálp geti haldið áfram rekstri í Hlaðgerðarkoti svo sú ágæta þjónusta sem þar fer fram geti orðið eins og verið hefur
    Virðulegi forseti. Ég vitnaði hér áður í gagnrýni hv. 1. þm. Norðurl. e. varðandi Reykholtsskóla. Ég má til með að vekja athygli á því að hv. þm. reyndi að gera tortryggilegar tillögur um hækkanir á framlögum til framhaldsskólanna. Fjárln. hefur haft það mál undanfarandi ár til sérstakrar meðferðar en komið hefur fram gagnrýni frá einstökum skólum um að svokallaðar gildistölur, sem leggja mat á kostnað einstakra skóla, þyrfti að endurskoða. Fjárln. hafði á síðasta ári sett fram óskir um að mennmrn. gerði skoðun á þessu máli. Það náði ekki fram að ganga, það urðu engar breytingar og gagnrýni skólamanna stóð eftir sem áður. Þess vegna vildi meiri hluti fjárln. taka þetta mál upp núna og undirstrika vilja sinn til þess að í þetta mál verði farið með því að gera þær tillögur sem hér eru en þær varða þá skóla sem fjárln. hafði upplýsingar um að þyrfti sérstaklega að skoða.
    Hv. 1. þm. Norðurl. e. fór einnig nokkrum orðum um tillögur meiri hluta fjárln. sem varðar samning Vestmannaeyjabæjar og háskólans. Ég verð að segja alveg eins og er að ég undrast nokkuð viðkvæmni hv. þingmanna, einkum og sérstaklega þingmanna úr Norðurl. e. gagnvart þessu verkefni. Þarna er um það að ræða að Háskóli Íslands hefur komið á mjög merkilegu samstarfi við Vestmannaeyjabæ og þarna er meiningin að efla samstarf háskólans við bæjarfélagið og sjávarútvegsfyrirtækin í stærstu verstöð landsins. Ég tel það af hinu góða en það kann vel að vera að einhverjum finnist of mikið í lagt að háskólinn taki upp samstarf við sjávarútvegsfyrirtæki. Ég fagna því hins vegar og ég vil vekja á því sérstaka athygli að í erindi sem kom frá háskólanum og varðar þennan samstarfssamning við Vestmannaeyjabæ þá kemur það fram að prófessorstaðan í fiskifræði við háskólann verður tengd þessum rannsóknum í Vestmannaeyjum. Þeir hyggjast nýta sér þá frábæru aðstöðu sem er í náttúrugripasafninu, fiskasafninu. Síðast en ekki síst vegna þeirra umræðna að þetta væri mikið í lagt þá er ástæða til þess að nefna það að bæði Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnun er ætlað að vera í þessu húsnæði og nýta þá aðstöðu sem þarna er um að ræða.
    Virðulegi forseti. Þetta vildi ég að kæmi fram og er alveg nauðsynlegt að liggi fyrir vegna þeirrar gagnrýni sem fram kom varðandi samning háskólans og Vestmannaeyjabæjar.
    Rekstur sjúkrastofnana er áfram til skoðunar í fjárln. og verður til endanlegrar afgreiðslu við 3. umr. Það er alveg ljóst að skoða verður enn frekar fjárframlög bæði til Ríkisspítalanna, Borgarspítalans og Landakots auk nokkurra annarra minni sjúkrahúsa og er þess að vænta að niðurstaða geti orðið viðunandi svo halda megi úti þessum sjúkrastofnunum með eðlilegum hætti. Það er alveg ljóst að vegna minni tekna en áður verður að takmarka þau rekstrarútgjöld sem eru í heilbrigðiskerfinu. Sú mikla endurskipulagning sem hefur átt sér stað á sjúkrahúsum hér á höfuðborgarsvæðinu skilar verulegum sparnaði þegar til lengri tíma er litið tel ég. Fara þarf mjög vandlega og rækilega yfir þá skýrslu um skipan sjúkrahúsamála sem starfshópur hefur nýverið skilað hæstv. heilbrrh. Meta þarf hvað af því sem þar er lagt til er hægt að framkvæma og með hvaða hætti beri til framtíðar að byggja upp þjónustu sjúkrahúsanna. Það þarf út af fyrir sig ekki að vera sjálfgefið að í öllum tilvikum sé hagkvæmasta leiðin að reka sjúkrastofnanir í mjög stórum einingum. Það þarf heldur ekki að vera sjálfgefið að af landsbyggðinni skuli fólk sækja þjónustu til stóru sjúkrahúsanna en það sé á hinn bóginn talið útilokað að sjúklingar af höfuðborgarsvæðinu geti þurft að sækja sjúkrahúsaþjónustu til nærliggjandi byggða. Allt þetta þarf að skoða fordómalaust og reyna að ná sem mestri skilvirkni í rekstri sjúkrahúsa landsins. Á það jafnt við hér á höfuðborgarsvæðinu sem um landið allt.
    Fjárln. hefur farið mjög ítarlega yfir alla þætti frv. Vegna stöðu atvinnumála hefur verið reynt að tryggja fjármál til framkvæmda í vegagerð, hafnargerð og í þeim opinberu framkvæmdum sem nauðsynlegar eru og auka ekki verulega útgjöld vegna rekstrar. Með þeirri stefnu er innri uppbygging samfélagsins styrkt og gerð hagkvæmari.
    Ef litið er á horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar eins og nú blasir við er ástæða til að ætla að á næsta ári takist að snúa vörn þjóðarinnar í sókn. Þrátt fyrir minnkandi eða minni sjávarafla á þessu yfirstandandi fiskveiðiári bendir flest til þess að auka megi tekjur í sjávarútvegi ef tekst að bæta nýtingu auk þess sem meiri loðnuveiði gefur auknar tekjur fyrir þjóðarbúið.
    Í stóriðnaði eru horfur þær að allt bendir til þess að rekstur járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga verði mjög góður á næsta ári og álverð fer hækkandi á mörkuðum. Verð á olíu hefur verið lækkandi og ætti það að geta haft verulega mikil áhrif á afkomu útgerðar og það ásamt öðru dregið úr viðskiptahalla.
    Virðulegi forseti. Afgreiðsla fjárlaga hefur mikilsverð áhrif á framvindu efnahagsmála. Halli á ríkissjóði getur veikt stöðuna ef eftirspurn ríkisins eftir lánsfjármagni fer úr böndum. Með lækkun vaxta ætti að draga úr halla ríkissjóðs auk þess sem tekjur geta aukist umfram það sem fjárlög gera ráð fyrir þegar afkoma fyrirtækja batnar samfara lækkandi vöxtum. Það er því ástæða til þess að ætla að þegar líður á næsta ár geti hagur okkar vænkast, en til þess að svo geti orðið verður að hafa hemil á ríkisútgjöldum og leggja allt kapp á að efla atvinnulífið. Lækkun vaxta sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir skiptir miklu máli en ég tel að afgreiðsla fjárlaga eins og stefnt er að núna ætti ekki að þurfa að raska þeim markmiðum sem sett hafa verið m.a. með því samkomulagi sem aðilar vinnumarkaðarins hafa gert. Sú sátt sem nú ríkir á vinnumarkaði er forsendan fyrir stöðugleika. Því ber að fagna.
    Fjárlög næsta árs eru mikilvægur þáttur í því að viðhalda stöðugleikanum og auk þess mikilvægur þáttur í því að reyna að tryggja atvinnu eftir því sem nokkur kostur er. Við afgreiðslu fjárlaga erum við þingmenn oft minntir á þá ábyrgð sem hvílir á okkur og reyndar þjóðinni allri um að varðveita efnahagslegt sjálfstæði okkar. Fyrrv. formaður fjárln., Karl Steinar Guðnason, var óþreytandi í því að minna okkur á þær staðreyndir þegar hann flutti ræður sínar um ríkisfjármálin. Hann var hertur í eldi verkalýðsbaráttunnar og var öðrum raunsærri í mati sínu á aðstæðum og eindreginn talsmaður stöðugleika á vinnumarkaði og ábyrgrar fjármálastjórnar ríkisins. Allar kollsteypur við núverandi aðstæður í efnahagsmálum okkar eru hættulegar. Okkur ber að halda í heiðri sjónarmiðum festu og stöðugleika. Þau tryggja best hag þeirra sem velferðarkerfið þarf að verja, hag þeirra sem minnst bera úr býtum í þjóðfélaginu.
    Með afgreiðslu fjárlaga ársins 1994 er stefnt að stöðugleika og að búið sé í haginn til framtíðar

í okkar ágæta landi. Fjárln. Alþingis, bæði stjórn og stjórnarandstaða, hefur unnið af fullum heilindum við meðferð fjárlagafrv. þótt ætla mætti annað þegar hlýtt er á ræður hv. stjórnarandstæðinga í dag.
    Ég vænti þess að eftir 2. umr. geti fjárln. tekið upp þráðinn að nýju og farið rækilega yfir frv. fyrir 3. umr. og komist helst að sameiginlegri niðurstöðu um lokaafgreiðslu nefndarinnar og tillögugerð til þingsins, þó að efast megi um að svo verði reyndar, eins og ég nefndi að málflutningurinn hefur verið hér. En ég vænti þess samt og vona að þingmenn taki höndum saman um það meginverkefni okkar að setja fjárlög sem framkvæmdarvaldinu ber að fara eftir.
    Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.