Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 22:00:50 (2467)


[22:00]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Í allan dag hefur farið fram 2. umr. um fjárlagafrv. og er óhætt að segja að margt í málflutningi hv. stjórnarþingmanna hefur komið á óvart og þó er nú fátt sem manni er farið að koma á óvart. Mér hefur fundist satt að segja eins og þeir hafi verið í alla vega tveggja ára einangrun. Þeir telja að hæstv. ríkisstjórn hafi náð verulegum árangri í efnahagsmálum. Það er engu líkara en raunveruleikaskyn hafi brenglast alvarlega hjá þessum hv. þm. Hér t.d. byrjaði hv. formaður fjárln. á því að segja að mikilvægt sé að þröngir sérhagsmunir fái ekki ráðið, sérhagsmunir í von um ávinning. Þetta sagði hv. þm. Alþfl. Sigbjörn Gunnarsson. Ef einhver hæstv. ríkisstjórn hefur séð um sig og sína þá er það þessi ríkisstjórn sem nú situr. Nægir að nefna stöðuveitingar Alþfl. en hér í kvöld er ekki tími til að telja það allt upp. Það nægir líka að nefna einkavinavæðingu Sjálfstfl. og þetta er talið að þröngir sérhagsmunir hafi ekki fengið að ráða.
    Hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson sagði einnig að smærri hagsmunir verði að víkja fyrir stærri hagsmunum. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. og það hefur hæstv. ríkisstjórn svo sannarlega staðið við. Hagsmunir hinna lakast settu hafa þurft að víkja fyrir hagsmunum hinna hærra settu, hagsmunir sjúklinga, öryrkja og námsmanna svo að eitthvað sé nefnt. Aftur á móti hefur verið lækkað tekjuskattur á þeim örfáu fyrirtækjum á Íslandi sem enn skila hagnaði. Þau eru því miður allt of fá, þau fyrirtæki. En það er þó ekki ástæða til að lækka tekjuskatt á þeim þannig að það er hárrétt sem þingmaðurinn sagði varðandi þetta mál þó að ég snúi kannski út úr merkingu hans orða, ég viðurkenni það. En samt sem áður er þetta raunveruleikinn sem við blasir.
    Hann talaði um óhagstæð ytri skilyrði og það er alveg hárrétt hjá hv. þm., þau hafa oft verið betri. En þau eru samt þó nokkuð betri en Þjóðhagsstofnun spáði, bæði hvað varðar loðnu- og úthafsveiðar. Og vegna þess að hv. þm. sem síðast talaði, hv. 3. þm. Suðurl., Árni Johnsen, talaði mikið um úthafsveiðar og mikilvægi úthafsveiða m.a. í sinni ræðu og kom víða við í sambandi við sjávarútvegsmál, þá ætla ég að minna á það að þessi hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert gert fyrir þá sem eru að reyna að veiða í úthafinu, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það kom fram í umræðum ekki alls fyrir löngu. Hvert er t.d. öryggi sjómanna á úthöfunum? Það er því miður harla lítið og lítið gert í að bæta það þannig að það hefur verið fremur lítil hjálp í hæstv. ríkisstjórn þó að hún tali sífellt um að það þurfi að auka veiðar í úthafi, þá gerir hún harla lítið til að aðstoða við það nema síður væri.
    Það hefur verið rætt um að náðst hafi stórkostlegur árangur í ríkisfjármálum og hv. 1. þm. Vesturl., varaformaður fjárln., talaði um að það hefði verið stöðvað sjálfvirkt flæði fjármagns til hinna einstöku stofnana. En það er hægt að benda á að það eru verulegar hækkanir víða, t.d. til ráðuneyta, milli ára, milli áranna 1992 og 1993. Ef við skoðum skýrslu um framkvæmd fjárlaga frá Ríkisendurskoðun í janúar til september 1993 þá langar mig, með leyfi hæstv. forseta, að benda á nokkur dæmi þar sem gjöld hafa verulega hækkað.
    T.d. hækkuðu gjöld æðstu stjórnar ríkisins um 45 millj. á fyrstu 10 mánuðum ársins 1993 miðað við 1992. Þar hækkaði mest um 18 millj. vegna framkvæmda á Bessastöðum en þó allra mest 43,8% vegna yfirvinnu hæstaréttardómara. Ef ég tek áfram forsrn. þá hækkuðu þar gjöld um 18,9 millj. eða um 8,1%. Stærsta breytingin þar er framlag til embættis húsameistara ríkisins sem var 13,2 millj. kr. á fyrstu 9 mánuðum ársins 1993 en embættið skilaði 14,3 millj. kr. tekjum í ríkissjóð á sama tímabili í fyrra. Það er að sjálfsögðu vegna þess að verkefnin hafa minnkað hjá húsameistara ríkisins.
    Ef við tökum sjútvrn. þá hækkuðu útgjöldin í heild um 69 millj. kr. eða 9,3% aðallega vegna breytinga í sambandi við stofnun Fiskistofu síðari hluta ársins 1992. Síðan kemur dómsmrn. Það hækkar líka verulega. Það hækkar um 270 millj. kr. eða um 7,5% og það er vegna hinna nýju dómstóla sem var verið að setja upp og á nú að fara að fækka aftur skilst mér. Ef maður tekur fjmrn. þá hækkuðu útgjöld þar um 771 millj. eða 7,6% og það eru nú aðallega vaxtagreiðslur sem hækkuðu þar milli ára. Gjöld í umhvrn. hækkuðu um 32 millj. eða 7,8% og þetta er talið að það hafi náðst verulegur árangur í því að spara í ríkisútgjöldum. Þetta eru bara nokkur dæmi, mjög lítil dæmi. Það hefði þurft að taka miklu fleiri dæmi en ég læt það vera í bili.
    Hér standa menn upp hver á eftir öðrum, hv. fulltrúar ríkisstjórnarinnar, og segja að það hafi náðst mikill árangur í sparnaði almennt og mikill árangur í málefnum þjóðarinnar. Hvar telur hæstv. ríkisstjórn að hafi náðst árangur? Hvar hefur náðst árangur? Eini árangurinn sem hefur náðst er sá að ríkisstjórnin hefur náð miklum árangri að hætta við hina ýmsu hluti og þegar við minnumst ríkisstjórnarinnar þegar árin líða, þá verður hún örugglega kölluð ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem hætti við. En frumskilyrði til að ná jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar er að ná niður fjárlagahallanum sem aldrei hefur verið meiri en nú, búist við 10 milljarða halla og hann á eflaust eftir að aukast. Hið góða sem hæstv. ríkisstjórn lagði upp með að minnka fjárlagahallann gerir hún ekki. Það mun aldrei takast meðan hún hefur engan skilning og enga stefnu í atvinnumálum.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki lagt fram frumvörp um stjórn fiskveiða. Það átti að vera forgangsverkefni frá í fyrra, forgangsverkefni. Við höfum ekki séð þessi frumvörp enn og þó er komið fram í miðjan desember. Á meðan stefnan er ekki skýr og vel afmörkuð í sjávaútvegsmálum, þá næst engin hagræðing í þessari grein, vegna þess að menn vita ekki við hverju þeir mega búast. Ég tel að það sé ljóst að það ósætti sem nú er uppi meðal sjómanna varðandi kjör þeirra sé fyrst og fremst vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki komið sér saman um stefnu í sjávarútvegsmálum. Og sú deila sem nú er í uppsiglingu mun kosta þjóðfélagið mikið því hún kemur ekki aðeins niður á sjómönnunum sjálfum, heldur kemur hún niður á landverkafólki í þúsunda tali. Þarna ber ríkisstjórnin mikla ábyrgð. Og að ríkisstjórnin skuli hafa hætt við hvað eftir annað að útdeila afla Hagræðingarsjóðs, 13 þús. tonnum þorskígilda, til þeirra vertíðarstaða sem verst hafa orðið úti vegna þorskbrestsins er ófyrirgefanlegt. Þjóðin getur ekki liðið það að ríkisstjórnin hafi ekki fasta stefnu í þessum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.
    Ríkisstjórnin hefur hætt við ýmislegt fleira heldur en að koma með stefnu í sjávarútvegsmálum. Hún hefur líka hætt við að koma með nokkra stefnu í landbúnaðarmálum. Hún er ýmist að flytja inn landbúnaðarvörur eða stöðva sölu innfluttra landbúnaðarvara og það veit enginn hver framtíðin er varðandi landbúnaðinn. Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki staðið við búvörusamninginn. Hún hefur ekki staðið við það að bæta þeim fjölmörgu sauðfjárbændum skerðinguna sem verst hafa orðið úti. Og núna fyrir tveim dögum síðan var hæstv. landbrh. spurður að því hvað liði endurskoðun búvörulaga sem átti líka vera eitt af fyrstu verkefnum þessa þings. Það varð ekkert um svör, engin svör.
    Og hvað með skipasmíðaiðnaðinn, hæstv. forseti? Honum blæðir út og það er ekkert gert, ekki nokkur skapaður hlutur. Norðmenn niðurgreiða sinn skipasmíðaiðnað um 13,5% og við erum í samkeppni við þá. Hér hefur verið talað um að leggja jöfnunargjöld á innflutt skip, en það er ekkert gert í því. Og á sama tíma og þessari iðnaðargrein er að blæða út þá horfa menn í gaupnir sér og segja að þeir hafi náð töluverðum árangri, ekki bara töluverðum þeir hafi náð geyslegum árangri í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hvað varðar atvinnu- og efnahagsmál. Það er talið að það þurfi rúman milljarð til að strika út skuldir skipasmíðaiðnaðarins til að hægt sé að halda áfram. Hæstv. ríkisstjórn gerir ekkert í þessu máli.
    Hin milda hönd ríkisstjórnarinnar hvað varðar atvinnulífið kemur víða við. Atvinnuhúsnæði á landsbyggðinni er einskis virði. Það er einskis virði í dag, það er því miður ekki söluvara. Samt er verið að hækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði.
    Já, hæstv. ríkisstjórn er sífellt að leggja fram mál og hætta við að afgreiða mál. Það halda kannski ýmsir að hæstv. heilbrrh., fyrst hann er hérna, eigi heimsmet í þessu eða landsmet réttara sagt. Þegar allt er saman tekið þá á hann trúlega ekki metið, en hann á metið hvað tíma varðar. Hann befur gert þetta á svo skömmum tíma. Á aðeins tveim mánuðum tókst honum að ná verulegum árangri í að hætta við, enda er þetta ríkisstjórnin sem hætti við, eins og ég sagði áðan.
    Tökum lyfjakortin. Það var eitthvað sem átti að gefa ríkissjóði 400 millj. og var náttúrlega aldrei útfært. Menn höfðu mismunandi skoðanir á því. En það er búið að kyngja þessum lyfjakortum og ég sakna þeirra ekki nokkurn skapaðan hlut. Það var hætt við þau.
    Gunnarsholt á Rangárvöllum, eitt af mörgum meðferðarheimilum sem átti að loka, það var hætt við það og það er út af fyrir sig ágætt. Það átti að selja Þvottahús Ríkisspítalanna fyrir 60 millj. og það var að sjálfsögðu hætt við það, vegna þess að enginn grundvöllur var fyrir að selja það. Það gátu allir heilvita menn sýnt og sannað.
    Það er komin ein heljarmikil skýrsla sem hér hefur verið mikið til umræðu, um sjúkrahúsin í landinu. Það er skýrsla sem segir að það eigi nánast að leggja niður fjölda sjúkrahúsa í landinu og efla önnur. Út af fyrir sig vantar heildarstefnu í heilbrigðismálum og það er ágætt að hafa þessa skýrslu, ekki til að nota hana eins og hún stendur heldur til að nýta hana þannig að hægt sé að sérhæfa þessi sjúkrahús til

að minnka álagið á sjúkrahúsunum á Reykjavíkursvæðunum. Þetta veit ég að hæstv. ráðherra er sammála mér um og ég væri tilbúin að hjálpa honum að vinna að þessu því þetta er möguleiki sem mundi spara þjóðarbúinu mikið. Þarna eru mikil verðmæti úti um land, bæði hvað varðar húsnæði, tól og menntað fólk. Ég sé t.d. fyrir mér að það væri hægt að sérhæfa Sjúkrahús Suðurlands á Selfossi. Það væri hægt að gera eingöngu æðahnútaaðgerðir þar svo að ég nefni dæmi um sérhæfingu. Það væri hægt að sérhæfa Sjúkrahúsið í Stykkishólmi t.d. með því að hafa þar endurhæfingu og þeir eru komnir langt með endurhæfingu. Það á að skoða þessa skýrslu á þennan hátt vegna þess að hér hefur áður verið gert að umræðuefni að hagræðingin á sjúkrahúsunum á Reykjavíkursvæðinu sé komin á algert hættustig. Landlæknir segir að það séu 45% starfsmanna á þessum sjúkrahúsum sem kvarta undan óbærilegri streitu og hægt sé að leiða að því rök að það hafi orðið slys vegna þess. Það er of mikið álag á þetta fólk. Þessi sama skýrsla, sem ég vitna hér til frá landlækni, sýnir líka að biðlistar hafa aukist verulega, sérstaklega í aðgerðir eins og beinaaðgerðir sem hægt er beina út á land á fleiri en eitt sjúkrahús. Ég vona því að þessi skýrsla verði notuð á jákvæðan hátt þannig að það fjármagn sem þegar hefur verið lagt í þessar stofnanir nýtist.
    En það er ýmislegt sem hæstv. ríkisstjórn hefur ekki hætt við, það er rétt að minnast á það líka. Hún hefur t.d. ekki hætt við að eltast við meðlagsgreiðendur. Þrátt fyrir að hún nái ekki inn þessum 260 millj. sem hún ætlaði að ná inn á þessu ári, náði aðeins inn 250 millj., þá er hún ekki af baki dottin. Hún ætlar að finna upp nýja innheimtuaðgerð, nýja og fullkomnari innheimtuaðgerð. En það er nú alveg sama hvaða innheimtuaðgerð menn finna upp á ef ekki eru peningar í vasa þess sem á að rukka, jafnvel þó að það komi handrukkarar sem eru víst í tísku í dag. Ég trúi ekki að hæstv. ríkisstjórn noti þá aðferð.
    Það er ýmislegt annað sem hæstv. ríkisstjórn ætlar ekki að hætta við. Hún ætlar t.d. ekki að hætta við að tekjutengja ekkjulífeyri. Og hæstv. forsrh. sagði hér í gær í ræðu að þetta væri jafnréttismál. Ég teldi það jafnréttismál að ekkjur og ekklar fengju þessar bætur.
    Mig langar að spyrja hæstv. heilbrrh. hvernig hann ætli að tekjutengja þetta, við hvaða upphæð hann ætli að miða tekjutenginguna? (Gripið fram í.) 70 þús. kr. kallar hæstv. heilbrrh. hérna fram í, 70 þús. kr. Hann skýrir þetta betur út á eftir, en það er kannski betra að hann komi hér í ræðupúlt til þess. En hæstv. ríkisstjórn er ekki hætt við þetta.
    Hæstv. ríkisstjórn er ekki heldur hætt við að reyna að rukka inn 25 millj. hjá áfengis- og vímuefnaneytendum, hún telur að það sé auðvelt. Það er auðvitað alveg útilokað mál vegna þess að að eru akkúrat þeir þjóðfélagsþegnar sem ekki munu geta greitt þetta, alveg sama hvaða nýtískulegar rukkunaraðferðir verða fundnar upp. Þeir geta ekki greitt þetta. Það verður alveg eins og með meðlögin. En þetta ætlar hæstv. ríkisstjórn ekki að hætta við.
    En hæstv. ríkisstjórn ætlaði að einkavæða. Hún er nú að mestu hætt við að einkavæða. En ég spyr: Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki áhuga á að einkavæða Húsatryggingar Reykjavíkur? Er það nú fyrirtæki sem er samkeppnisfyrirtæki. Hún hefur ekki áhuga fyrir því. Hún fær sérstaklega undanþágu til nokkurra ára, að vísu í EES-samningnum, til að þurfa ekki að einkavæða Húsatryggingar Reykjavíkur. Og hæstv. ríkisstjórn er ekki tilbúin að einkavæða t.d. embætti húsameistara ríkisins sem er í almennum skilningi teiknistofa. Hæstv. ríkisstjórn er tilbúin til að leggja verulega fjármuni til að halda þar uppi starfsemi. Það á ekki að einkavæða það. Svo á aftur á móti að reyna að einkavæða hið ómögulega sem engin samkeppni er í. Það á að einkavæða t.d. ÁTVR, skilst manni, og það á að einkavæða Landssíma Íslands.
    Hæstv. forsrh. sagði í gær við umræður um ráðstafanir í ríkisfjármálum að það hefði verið reynt að gera allt til að milda áhrif efnahagsþrenginganna, bæði í atvinnulífinu og hvað varðar heimilin. Og hvernig er sú milda hönd? Hvað hafa skuldir heimilanna aukist á undanförnum árum? Frá 1981 til 1992 hafa skuldir heimilanna aukist sem hér segir: Úr 60 milljörðum í 226 milljarða. Og bara á síðustu 6 árum, svo að ég taki nú bara þann tíma sem hæstv. félmrh. hefur ráðið ríkjum í félmrn., þá hafa skuldir heimilanna vaxið um 100 milljarða. Það er eins og öll fjárlög íslenska ríkisins. Það er ýmislegt sem veldur þessu. Það er auðvitað atvinnuleysið og það er vaxtastigið í landinu. Og skuldir fyrirtækjanna, þær hafa margfaldast. Tvær síðustu gengisfellingar hafa ekki bætt þar um, sem ríkisstjórnin var þó búin að lofa að yrðu ekki. Meira að segja nokkrum dögum fyrir síðustu gengisfellingu sögðu þeir að það yrði eitthvað sem aldrei skeði, en þeir hættu náttúrlega við það eins og allt annað sem þeir hafa hætt við. En vextir hafa lækkað. Ég vona að það sé ekki bara sýnd veiði. Þeir hafa lækkað, en allt of seint. Heimilin og fyrirtækin hafa ekki þolað það vaxtastig sem við höfum búið við og þó svo að það megi þakka fyrir þessa vaxtalækkun, þá kemur það bara eins og bóluefni of seint ef maðurinn er orðinn dauðsjúkur.
    En það hefur orðið alvarlegur trúnaðarbrestur milli þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar. Fólkið í landinu trúir ekki á þessa hæstv. ríkisstjórn. Það trúir ekki á hana. Í hvert skipti sem nýtt stjfrv. er lagt fram hér á þingi þá segir fólk: Er nokkuð að marka þetta? Það verður ekkert úr þessu. Og allar þær tillögur sem koma frá hæstv. ríkisstjórn eru afgreiddar eins af fólkinu, það verður ekkert úr þessu. En númer eitt, tvö og þrjú, það verður að skapa betri grundvöll fyrir atvinnulífið í landinu ef fjárlagahallinn á að vera í einhverju jafnvægi. Það er númer eitt, en það eru engin teikn á lofti að menn séu að vinna í því, því miður. Samkomulagið í ríkisstjórninni er ekki á því stigi að þeir nái þeim árangri. Og nú segir fólk: Fara þessir ágætu hæstv. ráðherrar ekki bráðum að ákveða það að þeir séu hættir við að vinna saman? Það er það

eina sem þeir eiga eftir að hætta við og nú bíður þjóðin spennt eftir því.
    Virðulegi forseti. Mig langar að mæla fyrir tveim brtt. við þetta fjárlagafrv. Ég ætla að mæla fyrst fyrir brtt. sem ég mælti einnig fyrir í fyrra, en hún náði ekki fram að ganga, fékk ekki hljómgrunn, en hún kostar ríkissjóð ekki eina einustu krónu og er svohljóðandi, með leyfi forseta. Hún er á þskj. 338:
    ,,Við 6. gr. Nýr liður:
     3.60 Að afhenda Samtökum áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ) til eignar eftirtaldar eignir sem þau hafa nú til afnota að Staðarfelli í Dölum:
    gamla skólahúsið,
    kennaraíbúðir (tvö hús),
    kyndi- og rafstöðvarhús.``
    Það er mikil samstaða milli heimamanna um að áframhaldandi rekstur verði á þessu heimili að Staðarfelli í Dölum, en það hefur ríkt mikil óvissa frá ári til árs hvort þessu meðferðarheimili verði lokað. Það er mjög mikilvægt að SÁÁ eignist þetta húsnæði. Þetta er gamalt húsnæði og þarf mikilla endurbóta við. Og það er nú þannig að ef mönnum finnst að það sé eitthvað laust og bundið hvort þarna verði áframhaldandi starfsemi, þá eru menn ekki tilbúnir til að setja mikla peninga. En það eru margir velunnarar þessa heimilis sem eru tilbúnir að leggja til mikla vinnu, sjálfboðavinnu, til þess að endurbæta þetta húsnæði, þannig að ég tel mjög mikilvægt að það verði hafður sá háttur á að SÁÁ eignist húsin að Staðarfelli í Dölum. Þetta er algerlega útgjaldalaust af hálfu ríkissjóðs og væri eflaust bara mjög gott fyrir ríkisstjórn að losna við þessa eign. Þetta er gamli húsmæðraskólinn sem ekki kemur að neinum notum ef þessi starfsemi hættir þarna að Staðarfelli.
    Svo er önnur brtt. á þskj. 345 sem ég vil mæla fyrir, með leyfi forseta. Hún er frá Finni Ingólfssyni, Stefáni Guðmundssyni og Ingibjörgu Pálmadóttur. Hún er lögð fram til þess að koma til móts við íþróttamenn vegna virðisaukaskatts af flugfargjöldum. Nú á að setja virðisaukaskatt á allt flug í landinu, eins og menn hafa heyrt frá hinu háa Alþingi. Iðkendur íþrótta ferðast mjög mikið og það er mjög dýrt og ef virðisaukaskatturinn bætist þar við þá mun það verða til þess að fjöldi félaga mun ekki treysta sér til að fara í þau ferðalög sem eru nauðsynleg varðandi ýmsar keppnisgreinar. Við leggjum því fram svohljóðandi brtt.:
  ,,1. Við brtt. 326,21 a-lið, Ungmennafélag Íslands. Fyrir ,,10.000`` kemur: 14.000.
    2. Við 4. gr. 02-989 110, Íþróttasamband Íslands. Fyrir ,,24.000`` kemur: 32.000.``
    Þetta er sem sé lagt fram til að koma til móts við unga íþróttaiðkendur úti á landi þannig að þeir þurfi ekki að hætta að taka þátt í keppnum vegna þessa skatts sem á nú að fara að leggja á flugfargjöld.