Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 01:48:44 (2487)


[01:48]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði í fyrsta lagi að fara yfir brtt. sem ég flyt ýmist einn eða ásamt öðrum þingmönnum Alþb. Í öðru lagi ætlaði ég að fara aðeins yfir nál. þeirra nefnda sem ég á sæti í, þ.e. hv. menntmn. og hv. iðnn. og í þriðja lagi ætlaði ég lítillega að ræða um hina skattalegu undirstöðu fjárlagafrv. fyrir árið 1994. En fyrst ætla ég að víkja aðeins að brtt.
    Á þskj. 341 flyt ég tvær brtt. Í fyrsta lagi tillögu um lítils háttar framlag til framkvæmda við félagsaðstöðu Fjölbrautaskólans við Ármúla.
    Þannig háttar til að þessi skóli hefur búið við afar knappan og erfiðan húsakost um langt árabil. Þessi skóli hefur gegnt mjög mikilvægu hlutverki í framhaldsskólaflórunni á þéttbýlissvæðinu, m.a. vegna þess að hann hefur talið sér skylt og sýnt myndarskap í því að taka við verulegum fjölda nemenda utan af landi. Eins og allir vita sem þekkja eitthvað til í skólum þá liggur það í augum uppi að þegar nemendurnir eiga ekki heima í viðkomandi byggðarlagi þá er þeim mun meiri þörf fyrir önnur afdrep fyrir þá í skólahúsæðinu eða í tengslum við það heldur en ella væri. Af þeim ástæðum er mjög nauðsynlegt fyrir þennan skóla, Fjölbrautaskólann við Ármúla, að fá þetta viðbótarhúsnæði. Teikningar liggja fyrir, byggingarnefnd hefur verið að störfum, alla vega hefur verið farið yfir þessi mál í skólanefndinni, ef ég man rétt, og þess vegna flyt ég hér litla tillögu um 10 millj. kr. til þess að undirbúa framkvæmdir við félagsaðstöðu Fjölbrautaskólans við Ármúla.
    Í öðru lagi flyt ég tillögu um annan framhaldsskóla í Reykjavík sem er Stýrimannaskólinn, en eins og kunnugt er hefur húsnæði hans ekki verið nægilega vel við haldið á undanförnum árum og stýrimannaskólamenn skrifuðu okkur, þingmönnum Reykvíkinga, fyrr á þessu þingi þar sem óskað var eftir sérstökum framlögum í þennan skóla. Og af þeim ástæðum flyt ég litla tillögu um það efni á þskj. 341. Ég sé síðan að hv. meiri hluti fjárln. flytur tillögu um fjármuni í þessu skyni, bæði varðandi framkvæmdir og viðhald og er raunar heldur rausnarlegri en ég er í þeirri tillögu sem ég legg til þannig að það liggur í augum uppi að ég dreg mína tillögu til baka og ég vænti þess að meiri hluti fjárln. telji það til marks um það að menn vilji eiga gott samstarf en ekki það að menn vilji strekkja fram með sína hluti. Ég tel að það sé skynsamlegt af meiri hlutanum að taka svona á þessu máli þó að ég sjái út af fyrir sig ekki á öllum tillögum meiri hlutans að því er varðar menntmrn. að þar sé fylgt faglegri forgangsröð. Væri út af fyrir sig fróðlegt að ræða það í betra tómi heldur en á þessari nóttu.
    En ég tel ástæðu til að þakka meiri hlutanum fyrir það að flytja tillögu um Stýrimannaskólann og ég tel einnig ástæðu til að vekja athygli á því að í fjárlagafrv. er líka gert ráð fyrir nokkrum fjármunum til þess að gera við gamla Stýrimannaskólahúsið. Ég tel að það sé út af fyrir sig sérstaklega þakkarvert að það hús á að taka í gegn, gera upp og lagfæra vegna þess að það er engum til sóma eins og það hefur þróast eftir að því var skilað. Og það er Reykjavíkurborg til skammar hvernig hún skilaði því húsnæði eftir margra ára notkun án þess að leggja neina fjármuni í endurbætur og viðhald á því húsnæði.
    Úr því að ég er farinn að tala um einstakar tillögur á vegum menntmrn. þá vil ég nefna tvær aðrar sem ég tel að séu sérstaklega jákvæðar og tel ástæðu til að nefna hér. Önnur er tillaga sú sem hér liggur fyrir í upphaflegu fjárlagafrv. um framlög vegna nýbúa. Ég tel að þar sé myndarlega á hlutunum tekið þar sem gert er ráð fyrir 16 millj. kr. til þess að útbúa kennsluefni m.a. fyrir nýbúa. Ég tel að það sé mjög þarft mál og ég vek athygli á því að sú tillaga er í mjög góðu samræmi við þann málflutning sem hér hefur verið hafður uppi á Alþingi af hv. þm. Guðrúnu J. Halldórsdóttur sem eins og kunnugt er hefur stundum setið fyrir Kvennalistann á þessu þingi.
    Ég vil einnig --- og ég tel að það sé í raun og veru skylt mál --- fagna því að í fjárlagafrv. sé gert ráð fyrir að á næsta hausti verði hafin kennsla í táknmálstúlkun við Háskóla Íslands. Ég tel að það sé mikið framfaraspor, þar sé verið að stíga stórt skref í þá átt að viðurkenna þennan málminnihlutahóp sem heyrnarlausir eru. Og að stíga skref í þá átt að táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra sem hlýtur að vera næsta skref sem við reynum að stíga að undangengnum eðlilegum rannsóknum þeirra mála.
    Ég vil þá víkja að brtt. sem ég flyt á þskj. 342 ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds, Kristni H. Gunnarssyni, Ragnari Elbergssyni og Hjörleifi Guttormssyni, en þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að veita 160 millj. kr., sem er stærsta brtt. Alþb. við þessa fjárlagaumræðu, til þess að hægt sé að framkvæma grunnskólalögin eins og þau liggja fyrir þannig að skerðingarákvæðin verði afnumin bæði að því er varðar fjölda í bekkjum og að því er varðar tímafjölda á nemendur. Ég hef fjallað nokkuð um þessa tillögu eða þetta efni, m.a. í umræðum um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, þannig að ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að ræða hana ítarlega á þessum fundi þar sem ég tel að hún sé fullrökstudd, bæði í mínum ræðum og fjölda margra annarra þingmanna stjórnarandstöðunnar, bæði nú á þessu þingi og á undanförnum árum.
    Í öðru lagi flytjum við á þessu þingskjali sérstaka tillögu um að fella niður svokallað áfengismeðferðargjald hjá stofnunum SÁÁ. Það er sem sagt gert ráð fyrir því að sértekjur sem samtök áhugamanna um áfengisvandamálið eiga að fá upp á 24,4 millj. í fjárlagafrv. verði 7,2 millj. kr. Mér er það ljóst að hér er aðeins um hluta þessa áfengismeðferðargjalds að ræða vegna þess að í fjárlagafrv. er einnig gert ráð fyrir því að það verði innheimt í Hlaðgerðarkoti og að það verði innheimt af Ríkisspítölunum á Vífilsstöðum. En ég tel auðvitað einboðið að ef þessi lækkun á sértekjum SÁÁ yrði samþykkt hér þá mundi það ganga yfir Ríkisspítalana og Hlaðgerðarkot við 3. umr. Ég tel að hér sé farið inn á alveg stórhættulega braut. Hér er í raun og veru farið inn á þá braut að láta fólk borga fyrir sjúkrahúsvist. Það þarf enginn og á enginn að gera tilraun til þess að rökstyðja þetta með því að langlegusjúklingar sem eru inni á spítölum greiði að nokkru fyrir það með lífeyrisgreiðslum sínum, það er algjörlega ósambærilegt mál. Ég tel hins vegar að ef þetta áfengismeðferðargjald verður samþykkt þá sé í raun og veru verið að samþykkja sjúklingaskatt til frambúðar og það gæti orðið á öðrum sviðum. Ég tel þess vegna að hér sé um stórkostlega mikið prinsipp-mál að ræða, miklu stærra heldur en nemur þeim tölum sem hér eru uppi.
    Ég hef orðið var við það að Alþfl. hefur á undanförnum árum, í þeim þrengingum sem hann hefur verið í í núverandi ríkisstjórn, reynt að verja sig með því að menn komist ókeypis inn á sjúkrahús. Og hann telur að hann hafi staðið gegn kröfum Sjálfstfl. um að tekið yrði gjald af fólki um leið og það leggst inn á sjúkrahús. Ég tel að með þessum tillögum um áfengismeðferðargjaldið sé Alþfl. að ganga á bak þeirra fyrirheita sem hann hefur gert í þessu efni. Þess vegna flytjum við þessa tillögu því við teljum að hér sé um að ræða alvarlegt mál, grundvallaratriði. Og ég vil segja það fyrir mitt leyti að ég er tilbúinn til að fara í þann leiðangur með stjórnarliðinu eða hverjum sem er að finna leiðir til að ná í aðra peninga en þessa til að stoppa upp í þann stóra halla sem nú er á ríkissjóði. Ég tel satt að segja að hér sé um að ræða pólitískt grundvallaratriði sem menn eigi ekki að afgreiða svona. Og ég skora á meiri hlutann að hafna þessari tillögu um þetta sérstaka áfengimeðferðargjald.
    Loks flyt ég einn, virðulegi forseti, tillögu sem er brtt. við brtt. hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur. En hún gerir ráð fyrir því að bætt verði við 6. gr. fjárlagafrv. nýrri grein sem miðist við að Staðarfell í Dölum verði afhent SÁÁ til frambúðar. Ég kannast við að þessi tillaga kom hér á dagskrá á síðasta þingi og þá greiddi ég atkvæði gegn henni. Ég tel að það sé algjörlega óeðlilegt að afhenda félagasamtökum af

hvaða tagi sem er þennan stað. Algjörlega óeðlilegt. Hér er um að ræða menningarstað í héraði sem er á fallanda fæti og á sér ekki marga staði sem héraðið hefur ástæðu til að halda verulega á lofti og því taldi ég þessa tillögu fráleita og greiddi atkvæði gegn henni á síðasta þingi. Hún var felld með mínu atkvæði og stjórnarþingmanna.
    Að þessu sinni hef ég ákveðið, vegna þess að það hefur heyrst að það standi til að loka á Staðarfelli, að flytja hér brtt. við tillögu hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur þar sem segir að á eftir orðunum ,,Staðarfelli í Dölum`` komi: enda verði þar starfrækt áfram meðferðarheimili. Ég tel sem sagt með öðrum orðum að það verði hugsanlegt að fallast á það að afhenda SÁÁ þennan stað enda sé tryggt að þar verði starfrækt áfram meðferðarheimili.
    Ég vil í tilefni af þessu, virðulegi forseti, spyrja hv. formann fjárln., sem heiðrar okkur hér með nærveru sinni, hvort það sé ætlunin að tryggja rekstur meðferðarheimilisins á Staðarfelli á næsta ári eða hvort áform séu uppi um að loka meðferðarheimilinu á Staðarfelli á miðju næsta ári eða á einhverjum öðrum tíma á árinu 1994. Það er alveg nauðsynlegt að upplýsingar liggi fyrir um þetta mál áður en 2. umr. lýkur um fjárlögin fyrir árið 1994.
    Ég hef þá vikið að brtt. þeim sem ég flyt, virðulegur forseti, og hef þessu næst hugsað mér að fara aðeins yfir þau nál. sem koma frá þeim nefndum sem ég á sæti í, þ.e. frá hv. menntmn. og hv. iðnn. Það er þá fyrst frá hv. menntmn. en þar stend ég að áliti ásamt hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur og Kristínu Ástgeirsdóttur um fjárlagafrv. fyrir árið 1994.
    Það verður að segja það eins og er að nefndin fór ekkert sérlega ítarlega í þessi mál að mínu mati. Ég held að það sé reyndar þannig með fleiri þingnefndir vegna þess að þær hanga dálítið í lausu lofti í sambandi við meðferð fjárlagafrv. Engu að síður var farið yfir vissa þætti og það sem við nefnum í okkar nál., minni hlutinn, eru þrjú atriði.
    Það er í fyrsta lagi Lánasjóður íslenskra námsmanna. Þar setjum við fram sjónarmið sem við höfum áður sett fram og eru gamalkunn og ég ætla ekki að endurtaka að öðru leyti en því að ég ætla að segja: Það er alveg furðulegt að Lánasjóður íslenskra námsmanna skuli ekki geta gengið þannig frá sínum reglum um úthlutun lána að þær samræmist nokkurn veginn þeim kröfum sem gerðar eru um námsframvindu í Háskóla Íslands eða venjulegum skólum. Ég undrast það satt að segja að það skuli vera þannig að kröfur LÍN um 100% námsframvindu séu með þeim hætti að þær eru mjög oft í ósamræmi við kröfur skóla. Það er ástæða til að skora á ríkisstjórnina að fara í að breyta þessu atriði því ég er sannfærður um það, hæstv. forseti, að hér er ekki um stórfellt útgjaldaatriði að ræða. Hér er um að ræða almennt fyrirkomulagsatriði. Og ég tel að það sé hreinn þvergirðingsháttur og ekkert annað að standa að málum með þeim hætti sem gert er núna í úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Þess vegna tek ég þetta atriði hér upp að ég tel að það liggi beint við að lagfæra atriði af þessum toga.
    Í öðru lagi förum við sérstaklega yfir niðurskurðinn í grunnskólanum í okkar nál. Og í þriðja lagi, og það hef ég reyndar rætt áður, ræðum við aðeins um verðlagsforsendur frv. og um það mál ætla ég að ræða nokkuð. Í nál. okkar segir:
    ,,Við meðferð málsins í menntmn. var spurt um verðlagsforsendur frumvarpsins. Giskað var á að í frumvarpinu óbreyttu væri verulegur niðurskurður umfram það sem í raun sæist þar sem verðlagsforsendur frumvarpsins væru ekki réttar. Menntmrn. var beðið um að gera grein fyrir þessu máli á minnisblaði. Minnisblaðið kom aldrei og ástæða þess hve seint þetta álit minni hlutans kemur er að beðið hefur verið eftir minnisblaði menntmrn. um verðlagsforsendur og launaskrið. Minni hlutinn hvetur fjárln. sérstaklega til þess að fara yfir verðlagsforsendur og launaskrið og bendir á að erfiðara er að leysa slíkan vanda í skólum en annars staðar vegna þess ramma sem skólunum er nú ætlaður. Séu þessar forsendur rangar getur verið að það vanti hundruð milljóna króna í menntmrn. eitt. Samtals hafa framlög til menntamála lækkað um 1,6 milljarða kr. í tíð núverandi ríkisstjórnar.``
    Ég sé að hv. fjárln. hefur af einhverjum ástæðum tekið eftir þessum ábendingum eða fengið þær annars staðar að því að í ræðu hv. formanns fjárln. segir svo, með leyfi forseta, samkvæmt handriti sem ég fékk frá formanninum hér í dag: ,,Lagt er til að óskiptur liður framhaldsskóla hækki um 50 millj. kr. Í fjárlagafrv. eru engar fjárhæðir til að mæta launaskriði og aldursflokkahækkunum sem kunna að eiga sér stað milli áranna 1993 og 1994 né heldur hafa verið bættar hækkanir vegna launasamninga sem gerðir hafa verið án þátttöku samninganefndar ríkisins eða fjmrn.``
    Það er spurning, hæstv. forseti, hvort það væri hægt að fá hingað hæstv. fjmrh. Ég vildi aðeins tala um þetta við hann.
    Í ræðu hv. formanns fjárln. segir: ,,Menntmrn. telur útilokað að skólakerfið geti mætt öllum þessum þáttum óbættum þar sem svigrúm til túlkunar á kjarasamningum kennara er mjög þröngt. Að auki hafa verið útfærðar bókanir í kjarasamningum við kennara með þátttöku samninganefndar ríkisins. Hækkunin er færð á óskiptan lið en verður dreift á einstaka skóla við gerð greiðsluáætlunar í upphafi næsta árs.``
    Ég átta mig satt að segja ekki alveg á þessu máli --- og ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að koma í salinn. --- Ástæðan fyrir að ég bað hæstv. ráðherra um að koma hér er sú að í ræðu formanns fjárln. í dag segir svo, með leyfi forseta: ,,Lagt er til að óskiptur liður framhaldsskóla hækki um 50 millj. kr. Í fjárlagafrv. eru engar fjárhæðir til að mæta launaskriði og aldursflokkahækkunum sem kunna að eiga sér stað milli áranna 1993 og 1994 né heldur hafa verið bættar hækkanir vegna launasamninga sem gerðir hafa verið án þátttöku samninganefndar ríkisins eða fjmrn.``
    Og síðan eru settar í þetta 50 millj. kr. Út af fyrir sig held ég að ég átti mig alveg á því hvert er tilefnið. Það er sem sagt það að í fjárlagafrv. eru engar fjárhæðir til að mæta launaskriði og aldursflokkahækkunum sem kunna að eiga sér stað milli áranna 1993 og 1994. Það eru væntanlega inni í fjárlagafrv. upphæðir til að mæta aldursflokkahækkunum sem um hefur verið samið, ég reikna alveg fastlega með því, en ekki þær sem eru óvissar. En maður veit að í þeim efnum vill oft verða nokkur hreyfing þannig að mér sýnist að þarna sé verið að tala um að dekka eftirtaldar upphæðir:
    1. Mæta launaskriði.
    2. Mæta aldursflokkahækkunum.
    3. Mæta hækkunum sem verða vegna samninga sem aðrir aðilar gera en samninganefnd ríkisins, eins og stendur hér í ræðunni.
    4. Hækkanir sem verða vegna útfærslu á bókunum í kjarasamningum við kennara sem gerðir hafa verið með þátttöku samninganefndar ríkisins.
    Þannig að þetta eru hugsanlega fjórir þættir.
    Þá verð ég að segja: Hvernig stendur á því að þetta er bara á framhaldsskólum en ekki annars staðar, ekki á grunnskólum vegna þess að þar eru hlutirnir alveg jafnstífir og annars staðar? (Gripið fram í.) Já. Það er fínt. Og auk þess hlýtur þetta launaskrið og allt þetta sem ég var að rekja að vera líka inni á spítölum o.s.frv. þannig að mér þætti vænt um ef hæstv. fjmrh. vildi skýra þetta því að satt að segja sýndist mér án þess að það þurfi nú að vera mikil vísindi að það gæti verið að þarna vantaði ansi háar upphæðir þegar allt kemur saman. Þess vegna hefði ég viljað bera þetta undir hæstv. ráðherra og þykir gott að hann skuli hafa kvatt sér hljóðs til þess að svara því.
    En ég ætla þá að bera annað undir hæstv. ráðherra og það er að mér hefur borist bréf, reyndar afrit. Það er of mikið sagt að mér hafi borist bréf. Mér liggur við að segja að það sé hrokafullt að segja að mér hafi borist bréf. Ég fékk afrit. Það er frá borgarstjóranum í Reykjavík. Hann heitir Markús Örn Antonsson. Hann er í Sjálfstfl. Hann er í miklum vanda staddur, pilturinn sá, vegna þess að það á að fara að breyta hér stórkostlega skattkerfinu. Hann segir í bréfi til félmn. Alþingis:
    ,,Þær breytingar sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að verði lögfestar munu staðfesta og auka yfirfærslu á skattbyrði félaga og fyrirtækja og einstaklinga. Lög nr. 113/1992 kváðu á um að innheimta aðstöðugjalds skyldi til bráðabirgða felld niður árið 1993 og sveitarfélögum bættur tekjumissirinn með greiðslum úr ríkissjóði. Til að mæta þeim greiðslum að hluta var jafnframt ákveðið að hækka tekjuskatt til ríkisins um 1,5%. Með setningu þeirra laga og ákvæðum frv. nú er slitið að mestu leyti á skattaleg tengsl sveitarfélaga við atvinnurekstur og þar með á nauðsynlegan og eðlilegan hvata fyrir sveitarfélögin að búa atvinnurekstri aðstöðu og laða hann til sín. Fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga og sjálfsforræði er stórlega skert. Felldur er niður sjálfstæður tekjustofn þeirra.``
    Síðan er rakið í hvaða vanda Reykjavík er stödd að þessu leytinu til. Hér segir að skattbyrði íbúa Reykjavíkur mundi að óbreyttu með þessum kerfisbreytingum aukast um 0,65--0,85% á næsta ári og auk þess um 0,25--0,3% til að mæta þeim tekjumissi sem yrði eftir að skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði væri fallinn niður eftir árslok 1994. Þannig að hér er sem sagt verið að tala um skattahækkanir í Reykjavík að mati borgarstjórans og að frumkvæði ríkisstjórnarinnar um 0,9--1,15% á næsta ári.
    Borgarstjórn Reykjavíkur hefur svör við þessum vanda. Hún vill halda áfram því kerfi sem hefur verið í gangi, bráðabirgðakerfi að vísu, því að hér segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Það er ekki góð stjórnsýsla að breyta í sífellu jafnviðkvæmum og flóknum málum sem skattamál eru. Eðlilegt hefði verið að fá lengri reynslu af tekjustofnalögunum áður en farið var að umbylta þeim. Þetta var að vissu leyti viðurkennt með þeim breytingum sem gerðar voru á tekjustofnalögunum með lögum nr. 113/1992. Þar var kveðið á um að sveitarfélögin fengju á árinu 1993 greiðslur úr ríkissjóði vegna tekjumissisins sem þau urðu fyrir á því ári þegar fallið var frá innheimtu aðstöðugjalds.
    Nú eru uppi ráðagerðir um stórfelldan verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga og tímasett að grunnskólinn verði alfarið verkefni sveitarfélaganna frá 1. ágúst 1995.`` --- Sem að vísu hefur auðvitað ekki verið ákveðið. En borgarstjórinn heldur áfram: ,,Þetta hlýtur að kalla á mikla uppstokkun á tekjustofnum sveitarfélaga og tilfærslu skatta til þeirra frá ríkinu. Því er skynsamlegt að láta aðgerðir í skattamálum bíða en halda a.m.k. á næsta ári óbreyttu fyrirkomulagi frá því sem í gildi hefur verið í ár.``
    Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Er hann staðráðinn í að fara með þessar skattaforsendur fjárlagafrv. í gegnum þingið? Er hann staðráðinn í því eða hyggst hann hlusta á borgarstjórn Reykjavíkur? Venjan hefur verið sú að borgarstjórn Reykjavíkur hefur haft mikil áhrif hér í þessari stofnun þegar um hefur verið að ræða þingmenn Sjálfstfl., sérstaklega úr Reykjavík. Nú er hæstv. fjmrh. einn þeirra og hæstv. forsrh. og þess vegna hlýt ég að spyrja hvort það sé virkilega þannig að þeir ætli að standa þannig að málum að borgarstjórn Reykjavíkur telji sig nauðbeygða til þess að hækka skatta núna við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir 1994 með þeim hætti sem hér hefur verið rakið. Eða er fjmrh. tilbúinn til þess að framlengja það kerfi sem tekið var upp til bráðabirgða óbreytt út næsta ár og þar með í raun og veru út kjörtímabilið?
    Satt best að segja held ég að það sé ýmislegt til í þeim sjónarmiðum sem fram koma í bréfi borgarstjórans í Reykjavík. Það er auðvitað óskaplegt að sulla í skattamálum með þeim hætti sem menn hafa verið að gera hér á undanförnum árum. Við sem höfum verið hér um nokkurt skeið höfum horft á þvílíkar kollsteypur núna á síðustu 5--6 árum í skattamálum á Íslandi að það er alveg með ólíkindum. Það er nú staðgreiðslukerfi skatta, þótti fínt. Svo kom virðisaukaskatturinn. Hann átti algjörlega að afnema skattsvik eins og kunnugt er og það var í fjármálaráðherratíð Jóns Baldvins Hannibalssonar sem hann var tekinn upp. Síðan er ákveðið að fella niður aðstöðugjaldið. Og svo er verið að grauta í þessum skattamálum út og suður einlægt eins og t.d. vaxtaafslætti vegna íbúðarhúsnæðis o.s.frv. þannig að eftir stendur það að þjóðin veit ekki sitt rjúkandi ráð í þessum efnum. Þeir flokkar sem lofuðu skattalækkunum fyrir kosningar, bæði síðustu og næstsíðustu, eru núna búnir að vinna það afrek að hækka skattprósentu einstaklinga í tekjuskatti upp í 41--42% á sama tíma og skattar af fyrirtækjum eru lækkaðir stórkostlega.
    Ég held satt að segja, virðulegi forseti, að þetta hringl með skattana sé eitt það allra versta sem hægt er að hugsa sér, ef það á að halda uppi eðlilegu og virku skattkerfi í landinu. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hyggst hann verða við óskum borgarstjórnar Reykjavíkur í þessu máli eða er hann staðráðinn í að hafa bænarskrá Markúsar Arnar Antonssonar, borgarstjórans í Reykjavík, að engu?
    Virðulegi forseti. Það er væntanlega komið að lokum þessarar umræðu um fjárlög fyrir árið 1994, þ.e. lokum 2. umr. þó að hér séu nokkrar ræður eftir og getur vel verið að renni nýr dagur áður en umræðunni lýkur. Það er alveg rétt sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði hér fyrr í kvöld í þessari umræðu að í raun og veru benti allt til þess að stjórnarflokkarnir hefðu gefist upp. Hallatölurnar í ríkissjóði eru alveg ofboðslegar. Meiri hluti fjárln. virðist vera þannig staddur að hann telji óhjákvæmilegt að bæta þar talsverðu við og það er nokkuð sérkennilegt miðað við það að formaður fjárln. er úr Alþfl. en formaður Alþfl. hefur aftur á móti sagt að stefna Alþfl. sé að róta þessum halla niður um nokkra milljarða kr. Það er í raun og veru þannig að þegar maður horfir á þessa hluti, á þessa ríkisstjórn eins og hún er núna að leggja þetta frv. hér fyrir, þá er það bersýnilegt að ríkisstjórnin og ráðherrarnir eru búnir að missa móðinn, missa kraftinn sem menn þurfa auðvitað til þess að geta tekist á við erfiða hluti. Og svo mikilvægt sem það er að ráðherrarnir hafi móð og kraft til þess að takast á við erfiða hluti, þá þurfa auðvitað þingmenn stjórnarflokkanna að gera það líka. Vonleysið, svartsýnin, deyfðin og móralleysið í stjórnarliðinu er orðið slíkt að við höfum aldrei séð annað eins hér jafnvel þó að við höfum sum hér setið hér um nokkurt skeið. Þegar það er orðið þannig að einstakir ráðherrar þurfa að halda sellufundi í flokkunum sínum, svo að segja við hliðina á Alþingishúsinu, á Kornhlöðuloftinu, til þess að hæla hver öðrum eins og viðskrh. og utanrrh. gerðu hér á Kornhlöðuloftinu fyrr í þessari viku, þegar svo er komið að menn þurfa að sækja huggun í hólið hver hjá öðrum með skipulegum hætti og það er spilað í útvarpinu lon og don, þá er illa komið.
    Hæstv. viðskrh. sagði t.d. á þessum undarlega kornhlöðufundi --- það er margt sem þetta kornhlöðuloft hefur reyndar orðið að þola, hæstv. forseti, í seinni tíð, það er alveg ótrúlegt hvað súðin þar hefur mikil þol gagnvart ýmsum yfirlýsingum. En svakalegast held ég að það hafi verið fyrr í vikunni þegar þeir voru að bera lof hver á annan, ráðherrar Alþfl., þannig að það var eiginlega feimnismál satt að segja. ( Gripið fram í: Varstu þar?) Ég hlustaði, hv. þm. Varst þú þar, hv. þm.? ( Gripið fram í: Nei.) Nei, hv. þm. var þar ekki. Ég bið forseta að afsaka en ég var spurður.
    Hvað sagði hæstv. viðskrh., með leyfi forseta, á þessum fundi á Kornhlöðuloftinu? Það er ekki ný deild hér í Alþingi, það er bara sérstök deild fyrir krata. Þegar þeir fara og gráta, þá fara þeir á Kornhlöðuloftið að hæla hver öðrum, spýta kjarki hver í annan, strákakvalirnar, með leyfi forseta.
    ,,Ég er alveg sannfærður um það,`` sagði hæstv. viðskrh., ,,að eftir 20--30 ár`` --- það er að vísu dálítið langt þangað til, verð ég að segja, ,,eftir að 20--30 ár eru liðin frá þeirri kerfisbreytingu, þá verður formanns Alþfl. minnst eins og formanns Alþfl. er minnst frá viðreisnarárunum sem andlit þeirra kerfisbreytinga sem gerðar voru á því herrans ári 1993 og 1994.``
    Það er að vísu dálítið langt þangað til, finnst mér, 20--30 ár, 30 ár, það er árið 2023 er það ekki? Það er dálítið langt þangað til. Við verðum sum komin á ellilaun þá, við verðum komin á ellilaun fyrir löngu. En þá verður það samt þannig að menn verða farnir að minnast formanns Alþfl. fyrir það að hann hafi verið faðir hinna miklu kerfisbreytinga sem við núna stöndum frammi fyrir.
    Þær eru nú ekki mikið til að hrósa sér af, verð ég að segja, þessar kerfisbreytingar. Ríkissjóður hefur bætt við sig 20--30 milljörðum kr. í skuldir á þeim tíma sem liðinn er frá því að kerfisbreytingin mikla tók gildi sem lýst var á Kornhlöðuloftinu. Atvinnuleysi hefur aldrei verið meira á Íslandi nú um áratuga skeið eftir að kerfisbreytingin mikla tók gildi sem lýst var á Kornhlöðulotinu hér á dögunum. Siðspillingin í embættaveitingum hefur náð hámarki og hefur aldrei verið eins mikil og í seinni tíð eftir að kerfisbreytingin mikla tók gildi sem lýst var þarna á Kornhlöðuloftinu, þannig að auðvitað er þetta hól sem þeir eru þarna að bera hver á annan, þessir menn, til marks um það að Alþfl. á orðið afar bágt í þessari stjórn þegar menn þurfa að skjóta á aukafundum við hliðina á þinghúsinu til þess að hæla hver öðrum með þeim hætti sem hér hefur verið lýst.

    En það var ekki nóg með að hæstv. viðskrh. hældi hæstv. utanrrh. heldur var það líka auðvitað ,,omvendt``, það voru gagnkvæmar ástarjátningar, omvendt eins og það heitir í norrænu samstarfi. Hann sagði um hæstv. viðskrh.: ,,Honum tókst af því að saman fór annars vegar pólitískur kjarkur og hins vegar úrræði að stöðva sjálfvirkan vöxt svona nokkurn veginn.``
    Við höfum núna síðustu dagana einmitt í tengslum við fjárlögin séð hvernig hæstv. fyrrv. heilbrrh. hefur tekist þetta, með því að snúa á fjmrh. með mjög eftirminnilegum hætti. Þannig að þessi sérkennilegu fundarhöld ásamt mörgu öðru að undanförnu, m.a. tillögur fjárlaganefndarmeirihlutans, benda til þess að krafturinn sem þarf að vera í hverri ríkisstjórn ef hún á að ráða við vandann sé úr sögunni í þessari stjórn hafi hann einhvern tímann verið til.
    Ég hef, virðulegi forseti, lagt nokkrar spurningar fyrir formann fjárln. og hæstv. fjmrh. sem ég vænti að þeir geti svarað.
    Ég ætla að lokum að nefna eitt atriði sem mér er sagt að hafi verið rætt allmikið og mér hefur heyrst vera rætt allmikið í dag og í kvöld og snertir tiltekið mál í Vestmannaeyjum. Þar hef ég tekið eftir því að hv. þm. Árni Johnsen hefur verið gagnrýndur fyrir það að hann hafi gengið þar fram með nokkuð miklum krafti svo ekki sé nú meira sagt og ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þessi garnrýni að mörgu leyti ósanngjörn. Mér finnst að það eigi ekki að gagnrýna hv. 3. þm. Suðurl. í þessu máli heldur Háskóla Íslands. Ég satt að segja tel að Háskóli Íslands þurfi að gæta sín mjög í málum af þessu tagi og vanda sig. Ég hef á undanförnum árum talað fyrir því að Háskóli Íslands hefði faglegt sjálfstæði og ég hef reyndar talað fyrir algjöru faglegu sjálfstæði Háskóla Íslands.
    Ég óttast það að vinnubrögð af því tagi sem sýnast vera uppi núna í kringum þessar tillögur, og þá er ég ekki að gagnrýna hv. þm. Árna Johnsen, ég óttast að vinnubrögð af þessu tagi geti orðið til þess að valda háskólanum erfiðleikum í framtíðinni. Ég held að það geti orðið til þess ekki einasta að skapa ákveðna erfiðleika í samskiptum Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri þar sem þyrfti auðvitað að halda vel á hlutunum eins og kostur er, heldur óttast ég að áherslur af því tagi sem þarna koma fram geti valdið Háskóla Íslands erfiðleikum. Það sem ég á við er að ég tel að það sé nauðsynlegt við nýsköpunarverkefni sem ákveðin eru í Háskóla Íslands eða í tengslum við hann, sé stuðlað að víðtækri, faglegri samstöðu um þau verkefni. Þá er ég að tala um háskólann og ég er að tala líka um menntmrn. Og ég tók mjög glöggt eftir því sem hæstv. menntmrh. sagði hér í dag að þessi tiltekna tillaga væri ekki komin frá menntmrn. Það er nokkuð merkilegt satt að segja, hæstv. forseti. Ég endurtek það af því að ég sagði það áður en hv. 3 þm. Suðurl. gekk hér í salinn: Ég hef ekki uppi gagnrýni á hann í þessu máli. Ég tel að hann hafi vaðið fram af þjóðkunnum dugnaði fyrir sitt byggðarlag og það er engin ástæða til að gagnrýna hann fyrir það. En ég tel hins vegar engu að síður að Háskóli Íslands hefði átt að halda aðeins öðruvísi á þessu máli, ég segi það alveg eins og er. Og það þýðir ekkert fyrir hv. 3. þm. Suðurl. eða yfirleitt neinn að fara að halda því fram að þessi orð séu mælt vegna þess að ég sjái ofsjónum yfir þeim samstarfstengslum sem eru að myndast á milli háskólans og Vestmannaeyja, mér finnst þau sniðug. Mér fyndist reyndar og finnst að háskólinn hefði fyrir löngu átt að taka upp miklu víðtækara samstarf við sjávarútveginn og atvinnulífið í landinu en ég bendi á að það eru ekki mjög mörg ár síðan Alþingi Íslendinga ákvað að grunnurinn í sjávarútvegsfræðum á háskólastigi á Íslandi væri ekki aðeins í Háskóla Íslands heldur líka í Háskólanum á Akureyri. Ég hefði talið að þessir tveir skólar, bæði Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri hefðu átt að sameinast um faglega forgangsröð verkefna varðandi samstarf við atvinnulífið og sjávarútveginn sjálfan alveg sérstaklega. Mér finnst það líka afar skemmtileg hugmynd sem tengist þessu þar sem er safnið í Vestmannaeyjum og sú starfsemi sem þar hefur verið byggð upp af mjög miklum myndarskap á undanförnum árum og áratugum og ég læt satt að segja þá ósk í ljós að ég vona að þó að mér finnist vera undarlega staðið að þessu máli af hálfu Háskóla Íslands, mér sýnist það vera þannig, þá vona ég að það verði ekki til þess að spilla fyrir Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri né heldur þessu verkefni, samstarfi Háskóla Íslands við atvinnulífið í framtíðinni. Ég vona að það verði þvert á móti og rætist þannig góðar óskir þess þingmanns sem bersýnilega hefur aðallega borið þetta mál fyrir brjósti.
    Ég tel með öðrum orðum að þarna þurfi háskólinn að skoða sína stöðu. Út af fyrir sig má segja að það sé heldur ekki sérstakt fjárlagaumræðumál hvernig Háskóli Íslands hefur staðið að fjármálum sínum ýmsum öðrum eins og t.d. þessu svokallaða spilakassamáli. Ég segi það alveg eins og er að Háskóli Íslands er hroðalega aðþrengdur með peninga og það er ofboðslega farið með Háskóla Íslands. Það hafa verið skorin niður framlög til Háskóla Íslands á undanförnum árum þannig að það er að verða til vansa. Það er að verða þannig að það er talinn vafi á því að háskólinn geti veitt þá menntun sem hann þarf, ef fólk úr Háskóla Íslands á að vera samkeppnisfært við fólk sem kemur úr öðrum háskólum. Það hefur mjög verið þrengt að háskólanum með skólagjöldum og niðurskurði, það er enginn vafi á því. Þá er það samt þannig að mínu mati að menn þurfa ekki aðeins að gæta að faglegum heldur líka að siðlegum forsendum áður en þeir taka ákvörðun um það hvernig þeir afla fjár til þeirrar starfsemi sem þeir eru með. Ég tel að þetta spilakassamál, eins og það þróaðist, sé ekki Háskóla Íslands til sóma að öllu leyti, svo að ég segi ekki meira.
    Þessu vildi ég koma hér á framfæri, virðulegi forseti, um leið og ég legg hér fáeinar spurningar

fyrir hv. 7. þm. Norðurl. e. og hæstv. fjmrh.