Meðferð EES-mála á Alþingi og framtíð þingmannanefndar EFTA

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 10:42:13 (2514)


[10:42]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Hv. málshefjandi beindi að hluta til máli sínu til mín varðandi þá fyrirspurn sem hún færði hér fram.
    Það hefur komið fram í máli formanns utanrmn. á hvaða vegi málið er statt að því er lýtur að þeirri nefnd og ég sé ekki ástæðu til þess að bæta neinu við það. Hins vegar að því er varðar þingmannasamskiptin og störf þingmannanefndar EES sem hefjast munu þá um áramótin, þá hefur eins og kunnugt er legið fyrir í forsætisnefnd ákveðin tillaga um að þingmannanefnd EFTA taki að sér það verkefni og það mun vera sú skipan sem tíðkast í öðrum þjóðþingum.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að gera neina athugasemd við það að sá háttur verði einnig á hafður hér. Ég tel hins vegar að það þurfi að taka um það formlega ákvörðun á réttum vettvangi og ræða það og ég vænti þess að forsætisnefndin muni á næstunni ganga frá því máli að höfðu samráði við formenn þingflokka. Þá er það auðvitað sérstakt ákvörðunarefni fyrir hvern og einn þingflokk með hvaða hætti hann skipar sína fulltrúa í þá nefnd og ekki um það að tala af hálfu annarra en þeirra sem fara með það tilnefningarvald.
    Þetta vildi ég láta fram koma af minni hálfu. Ég tel að það hafi verið ágætlega og eðlilega að þessu staðið af hálfu EFTA-nefndar Alþingis og ég vænti þess að það sé hægt að ljúka þessu máli, vonandi fljótlega, af hálfu þeirra sem á því bera hina formlegu ábyrgð.