Meðferð EES-mála á Alþingi og framtíð þingmannanefndar EFTA

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 10:43:56 (2515)


[10:43]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þau svör sem hér hafa komið fram. Það er vissulega rétt eins og kom fram í máli formanns utanrmn. að það er ekki lengra síðan en 22. nóv. að síðasta þjóðþingið í EB gekk frá málinu. Þá fyrst lá fyrir hvort samningurinn yrði að veruleika eða ekki eða a.m.k. hvort í það stefndi. Engu að síður var búið að samþykkja það hér á þingi að gerast aðili að Evrópsku efnahagssvæði yrði það að veruleika. Það þarf því að vinna í samræmi við það á þinginu og hefði auðvitað verið löngu tímabært að þessi umræða færi fram og menn settust nú niður og veltu því fyrir sér hvernig önnur þjóðþing hafa hugsað sér að haga þessu samstarfi milli þings og ríkisvalds.
    Ég hjó eftir því í svari forseta að hún taldi að það væri æskilegt að reyna að ná samkomlagi um þetta mál fyrir jólahlé, eða þannig skildi ég hennar orð. Ég hef ekki trú á því að það takist vegna þess að ég held að það þurfi mun meiri umræðu og umfjöllun heldur en svo að hægt sé að ganga frá því fyrir jólahlé, þ.e. hvað líður þessu samstarfi milli ríkisvaldsins og þingsins.
    Um þingmannanefnd EFTA fyndist mér að það ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði að ganga frá því fyrir jólahlé vegna þess að það liggur fyrir tillaga frá þingmannanefnd EFTA um það hvernig æskilegt sé að haga þessu og það er auðvitað ekki bara persónuleg skoðun okkar, heldur er þetta fyrirkomulag sem þingmannanefnd EFTA almennt hefur komið sér saman um að sé hið besta og ég vil einmitt benda á það varðandi þingmannanefnd Evrópsks efnahagssvæðis að skv. 95. gr. samningsins er gert ráð fyrir að hún starfi. Stofnsamþykkt hennar er í bókun 36 með samningnum þannig að mönnum mátti vera alveg ljóst að hverju stefndi með þá nefnd og hefði auðvitað þurft að ræða þetta og ganga frá þessu miklu fyrr.