Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

57. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 18:21:39 (2587)


[18:21]
     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir góðar undirtektir við þeirri hugmynd minni að hv. menntmn. fái að fjalla um nýja stefnu í menntamálum, því að sannleikurinn er sá að nefndin hefur ósköp lítið að gera. Það er nú kannski ekki vaninn að kvartað sé yfir því hér á hv. Alþingi svona rétt fyrir jólin að það sé lítið að gera en það hefur ekki verið mikið um það að hæstv. menntmrh. hafi lagt fram þingmál á haustþingi til þess að fjalla um í menntmn. og þess vegna hefði nefndin haft góðan tíma til að velta þessum málum fyrir sér.
    En mig langar að spyrja hæstv. menntmrh. hvort það sé byggt á þeim grunni hvað varðar kostnað við grunnskólann að hann sé eitthvað svipaður og gert er ráð fyrir í þeim grunnskólalögum sem samþykkt voru 1991 eða hvort hann er frekar nær því að vera kostnaður við grunnskólann eins og hann er samkvæmt því frv. sem hér er til umræðu. Verða þessar 160 millj. með í nýja frv. eða ekki?