Iðnaðarmálagjald

60. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 16:59:11 (2660)

[16:59]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Frú forseti. Mál þetta kemur nú seint og um síðir fyrir auglit alþingismanna af sömu ástæðu og ég tilgreindi hér áðan. Til stendur að gera tiltekna breytingu á lögum um iðnaðarmálagjald og lögum um Iðnlánasjóð og raunar fleira. Þær breytingar hafa ekki unnist nógu hratt til þess að hægt væri að leggja þær fyrir Alþingi í heild sinni. Þess vegna er okkur sá nauðugur kostur einn þar sem aðstöðugjaldið er fallið niður sem gjaldstofn iðnaðarmálagjalds að óska eftir heimild til áframhaldandi innheimtu og þá miðað við nýjan gjaldstofn.
    Ég skal þó taka fram að hér er um að ræða nokkrar breytingar aðrar umfram þær sem ég hef þegar nefnt á gildandi lögum. Lögin um iðnaðarmálagjald eru frá árinu 1975. Frá gildistöku þeirra hafa orðið ýmsar breytingar sem leiða til þess að nauðsynlegt er að fram fari heildarendurskoðun laganna.
    Þær breytingar sem hér eru gerðar eru tvíþættar. Í fyrsta lagi hefur aðstöðugjald verið fellt niður en aðstöðugjald hefur verið notað sem gjaldstofn iðnaðarmálagjalds og því er í 1. gr. gerð tillaga um hvernig með skuli fara, þ.e. gert er ráð fyrir því að gjaldstofninn verði gjaldstofn virðisaukaskatts að meðtalinni veltu sem undanþegin er virðisaukaskatti samkvæmt 12. gr. þeirra laga. Tekjurnar eiga að vera sambærilegar eða svipaðar og núgildandi tekjur iðnaðarmálagjaldsins eru. Það er þó nýmæli, og ég vil taka það fram til að fyrirbyggja misskilning að það nýmæli er líka í því frv. sem ég mælti fyrir hér áðan, að það er gert ráð fyrir því að í ríkissjóð geti runnið 0,5% af innheimtu iðnaðarmálagjaldsins vegna kostnaðar ríkissjóðs við innheimtu þess og sama máli gegnir um iðnaðarmálasjóðsgjaldið en ríkissjóður innheimtir þessi gjöld og kemur þeim síðan til skila, annars vegar til Iðnlánasjóðs og hins vegar til þeirra aðila sem eiga að njóta iðnaðarmálagjalds. Það er nýmæli að gert er ráð fyrir 0,5% greiðslu vegna kostnaðar ríkissjóðs sem af innheimtunni leiðir.
    Í öðru lagi hafa verulegar breytingar átt sér stað á starfsemi fyrirtækja og samtaka sem lögin taka til. Iðnaðarmálagjaldið sem þannig er álagt er gert ráð fyrir að renni óskipt til samtaka iðnaðarins og ég vek athygli á því að hér er um breytingu að ræða frá gildandi lögum því að samkvæmt 2. gr. þeirra eiga tekjurnar nú annars vegar að renna til starfsemi í þágu iðnaðar og samvinnufélaganna eftir nánari ákvörun stjórnar Sambands ísl. samvinnufélaga og hins vegar til Sölustofnunar lagmetis, en með hliðsjón af breyttum aðstæðum við rekstur iðnaðar hér á landi og stofnun heildarsamtaka fyrirtækja í iðnaði þykir eðlilegt að tekjur af iðnaðarmálagjaldi renni til þeirra heildarsamtaka en þau taki síðan ákvörðun um það hvert gjaldið rennur áfram frá þeim. Ég skal taka það fram að þetta mál hefur verið rætt við samvinnuhreyfinguna og það eru fullar sættir um það hvernig gjaldinu verði skipt.
    Í frv. er gert ráð fyrir því að þeir sem greiða gjaldið verði þeir sömu og hingað til auk þess sem lagt er til að hugbúnaðarþjónusta eða hugbúnaðariðnaður falli undir iðnað í skilningi laganna en sú atvinnustarfsemi hefur hvergi átt heima í fjárfestingarlánasjóðakerfinu og gert er ráð fyrir því að hún greiði eftirleiðis iðnaðarmálagjald og njóti góðs af því.
    Til að taka af allan vafa um hverjir eru greiðendur gjaldsins er tekin upp tilvísun í atvinnuveganúmer samkvæmt atvinnugreinaflokkun Hagstofunnar.
    Ég ítreka það, virðulegi forseti, að þetta frv. er mjög seint fram komið. Hins vegar er mjög ákjósanlegt að frv. geti orðið að lögum fyrir áramótin til þess að innheimta iðnaðarmálagjalds falli ekki niður. Ég geri mér það hins vegar ljóst að sú beiðni er nokkru stífari til hv. iðnn. sem væntanlega fær frv. heldur en sú beiðni sem ég lagði fram um afgreiðslu frv. til laga um breytingu á lögum um Iðnlánasjóð sem ég mælti fyrir hér áðan en engu að síður leyfi ég mér að fara þess á leit að iðnn. skoði vandlega hvort hún geti greitt fyrir afgreiðslu frv. fyrir jólaleyfi þingmanna.
    Að svo mæltu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.