Almannatryggingar

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 15:10:14 (2684)


[15:10]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þessi fsp. mín laut alls ekki að því að ég væri á móti þessari grein heldur var ég að fá skýringu á greininni til þess að ég vissi hvað ég var að greiða atkvæði um. Ég lít svo á að formaður nefndarinnar, hv. 5. þm. Austurl., hafi nú upplýst að lögheimili hér á landi þýðir lögheimili hér á Íslandi, þ.e. eingöngu á Íslandi. Og ég lít svo á að það sé þá upplýst. Það var það sem ég spurði að og ekkert annað. Mér fannst svar hv. þm. vera nokkuð óljóst í fyrstu og það var þess vegna sem ég spurði aftur. Nú er þetta upplýst. Mín efasemd var fyrst og fremst vegna þess að þær upplýsingar sem ég hafði fengið áður lutu að því að þetta væri óheimilt samkvæmt EES-samningnum. Það var fyrst og fremst þess vegna. Ef það hefði hins vegar verið athugað í nefndinni að þetta sé heimilt og að þetta sé í lagi eins og

það er hérna þá er það að sjálfsögðu í lagi fyrir mig. Ég ætla ekkert að greiða ákvæði gegn þessu ákvæði, fyrirvarar mínir áttu fyrst og fremst við aðrar greinar þessa frv., þ.e. 66. gr. og 67. gr. en ekki t.d. þessar sem ég held að séu ekki neinar breytingar að því er varðar núgildandi lög ef ég hef lesið rétt í þetta frv.
    Ég tel að hv. þm. hafi upplýst þetta og leiðrétt þá það sem kom fram hér áður þannig að þetta eigi við þá sem eiga lögheimili hér við fæðingu barns. Ég veit það að það geta verið allar aðstæður á undan, ég var ekki að spyrja að því. Ég geri mér grein fyrir því að það skapar rétt það sem hefur verið gert á undan hvar sem menn hafa verið á þessu svæði.