Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 23:23:13 (2750)

[23:23]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vildi áður en ég sný mér að efni þess frv. aðeins minnast á það frv. sem áður var til umræðu um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Ég fagna því að ríkisstjórnin hefur loksins náð samkomulagi um það að leggja þetta mál fram og þurfti í reynd að vera búið að fella það á Alþingi áður en kom til þess en venjulega hefur það tekið núv. hæstv. ríkisstjórn marga mánuði og jafnvel upp undir ár að leggja fram sjálfsagt mál eins og það sem hér var áður til umræðu.
    Um þetta mál gegnir vissulega öðru máli. Um er að ræða langa sögu sem hér er rakin um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins sem hefur verið starfandi um langan tíma og oft verið gerðar breytingar á lögum um hann en alltaf hefur starfsemi sjóðsins verið nokkuð umdeild, en ég held samt að á því sé enginn vafi að það er þörf fyrir sveiflujöfnun í okkar samfélagi og það mun verða þörf fyrir slíka sveiflujöfnun á komandi árum og jafnvel áratugum. Við erum háð lífríki sjávar og við erum háð verðlagi á mörkuðum.
    Fyrrv. ríkisstjórn hefur oft og tíðum verið harkalega gagnrýnd af hæstv. ráðherrum í núv. ríkisstjórn, sérstaklega fyrir að það hafi verið stofnað til margvíslegra sjóða sem hafi eytt peningum með einhverri óráðsíu. Þar hefur sérstaklega verið nefndur til Atvinnutryggingarsjóður sem var stofnaður til að koma í veg fyrir atvinnuleysi og hjálpa ýmsum sjávarútvegsfyrirtækjum til að lengja sín lán. Þar hefur vissulega margt á annan veg farið, en hins vegar hefur aldrei verið rætt um það hvað hefði gerst 1988 ef ekki hefði verið gripið til þeirra ráðstafana. Ætli það geti ekki verið að Atvinnuleysistryggingasjóður hefði þurft að borga nokkuð mikið meira í atvinnuleysisbætur, en það þykir ekki tiltökumál nú til dags þó að þar þurfi að greiða marga milljarða á ári. Ætli það geti ekki verið betri stefna að koma í veg fyrir að til slíks atvinnuleysis komi þótt auðvitað sé erfitt að ástunda jafnvægisstefnu í þeim málum.
    Ég hef ávallt verið fylgjandi því að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins starfaði og ég er því fylgjandi að hann starfi áfram. Og ég lýsi því yfir að ég er ekki sammála því að það beri að afnema þennan sjóð jafnvel þótt hagsmunaaðilar leggi það til. Ég vil minna á það að þegar lögin um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins voru síðast sett var það í andstöðu við þessa sömu hagsmunaaðila. Og það var í andstöðu við þá að þar var safnað upp miklu fé á árunum sem þar fóru á eftir. Það er enginn vafi á því að ef það fé hefði allt verið greitt út til fyrirtækjanna, þá hefði það skapað meiri þenslu í okkar þjóðarbúskap því það var vissulega gott árferði, sérstaklega 1990.
    Nú tala menn mikið um að það sé rétt að leggja á auðlindaskatt. Þar er í forustu Morgunblaðið, ákveðnir stjórnmálaflokkar og alls konar hagfræðingar í landinu. ( Gripið fram í: Lýður?) Ég ætla ekki að nefna orðið lýður, hv. þm., en ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst margt af þessu fólki lítið vita hvað er verið að tala um.
    Það er nýbúið að samþykkja það hér á Alþingi að leggja niður aðstöðugjald og um það voru allir sammála. Aðstöðugjald sem er lagt á fyrirtæki án þess að taka nokkurt tillit til þess hvort um hagnað er að ræða eða ekki. Hvað er þetta nýja gjald sem er verið að tala um sem gengur undir þessu fína nafni auðlindaskattur eða auðlindagjald og margir eru farnir að éta hver upp eftir öðrum? Mér heyrðist áðan að jafnvel Alþb. væri farið að álykta um þetta. ( Gripið fram í: Það er misskilningur.) Nú, það er misskilningur. Það er gott að heyra. En eitthvert nafn í þessa átt var komið þar inn í stefnuskrárnar og vona ég að þeir geti einhvern tíma skipt um skoðun í þeim málum af því að þeir hafa verið að gera heldur lítið úr því að menn skiptu einstaka sinnum um skoðun. ( Sjútvrh.: Það er bara til að fá það fyrst í Mogganum.) Ég hef alltaf talið það til bóta að skipta um skoðun ef menn fá ný gögn í máli og sjá fram á að það sé skynsamlegt. En svo getur nú farið að menn. (Gripið fram í). Ég hef aldrei skipt um skoðun nema ég hafi talið það vera skynsamlegt og mun ekki gera það. Og ég mun ekki skipta um skoðun að því er varðar sjávarútvegsstefnuna nema ég sjái aðra skynsamlega stefnu koma upp á yfirborðið. Ég skal lofa hv. þm. því að ég geri mér grein fyrir að það verður að vera ákveðin festa í þeim erfiða málaflokki og ég hef ekki séð neina aðra stefnu en núverandi kvótakerfi sem getur staðist þær kröfur sem eru gerðar til sjávarútvegsins. Og þessi fína sóknarstýring sem menn hafa verið að tala hér um er náttúrlega líka stýring sem mun reyna á þá aðila sem gera út. En auðvitað þarf alltaf ýmsu að breyta og það þarf líka að gera að því er varðar þau lög sem nú gilda ef nýjar aðstæður koma upp.
    En ég tel að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins geti verið mjög mikilvægur til þess að koma í veg fyrir að þau öfl sem vilja setja á þetta nýja aðstöðugjald, sem á að vísu á að vera miklu hærra og á að leggja á fyrirtæki sem eru í taprekstri, komist nokkurn tíma upp með það. Mér finnst að þessir sömu hagsmunaaðilar gleymi alveg að tala um það. Hvernig á að bregaðst við þegar kemur góðæri í sjávarútveginum aftur því það mun koma? Það er mikið viðfangsefni sem blasir við í sjávarútveginum að byggja upp fiskstofna og greiða upp skuldir. Og ætti það viðfangsefni að vera nóg þó menn væru ekki að tala um þetta auðlindagjald. En það getur verið nauðsynlegt vegna hagsveiflunnar að sjávarútvegurinn leggi til hliðar hluta

af hagnaði sínum til þess að ekki raskist jafnvægi við aðrar atvinnugreinar. Og sá tími mun koma.
    Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt fyrir sjávarútveginn þegar sá tími kemur að geta lagt fé til hliðar til að mæta verri tíma síðar. Og það verður best gert með því að til sé verðjöfnunarsjóður þar sem hvert og eitt fyrirtæki á bundið fé. En ég býst við því að ef þetta verður gert, þá verði uppi krafa um að það sem er nauðsynlegt að leggja til hliðar renni í ríkissjóðs. Af þessum ástæðum er ég andvígur því að afnema þessi lög og ég sé í sjálfu sér ekki hvað liggur á í þeim efnum. Það er ekkert tilefni til að borga út úr sjóðnum, enda eru engir peningar til þar. Það gæti hins vegar komið tilefni til að borga ætti inn í sjóðinn samkvæmt lögunum. Er ekki allt í lagi að bíða eftir því tilefni og sjá hvernig aðstæður verða?
    Ég man ekki betur en því væri tekið fegins hendi af hagsmunaaðilum í sjávarútvegi þegar greitt var út úr þessum sjóði hátt í 3 milljarðar fyrir stuttu síðan. Ég man ekki eftir neinum mótmælum í því sambandi. Ég man hins vegar vel eftir mótmælunum þegar var verið að leggja peningana til hliðar. Þá voru menn ekki mjög glaðir.
    Ég býst við að það verði mikil mótmæli þegar á að fara taka peninga af sjávarútveginum í góðæri inn í ríkissjóð og nota þá e.t.v. til ýmissa góðra hluta eða jafnvel einhverra verri. Mér finnst ekkert liggja á í þessu sambandi og skil í sjálfu sér ekki af hverju þarf að vera að taka þetta mál fyrir hér seint á kvöldfundi rétt fyrir jólin. Mér finnst að þetta mál megi vel bíða og ef liggur eitthvað á að koma því til nefndar, þá geti nefndin gefið sér mjög góðan tíma til þess að athuga málið. Hér eru ýmsar skýrslur og þetta er löng saga og ég tel að það þurfi að fara vel ofan í þetta mál og spyrja þá dálítið út úr um það sem virðast vera svo sammála um að leggja sjóðinn niður.
    Hér stendur í 2. gr., með leyfi hæstv. forseta, að aðrar eignir sjóðsins skuli renna til reksturs Hafrannsóknastofnunarinnar. Ég er ekki sáttur við þetta orðalag. Rekstur Hafrannsóknastofnunar hefur verið fjármagnaður af fjárlögum og það er málefni allra landsmanna að reka hafrannsóknir. Það er ekki bara málefni sjávarútvegsins. Það er af og frá að mínu mati að þessar eignir renni inn í almennan rekstur Hafrannsóknastofnunarinnar. Ég vil einfaldlega geyma þessa peninga og sé enga ástæðu til að vera að ráðstafa þeim nú.
    Það er undarlegt að hæstv. ríkisstjórn skuli leggja slíka áherslu á að eyða sjóðum sem til eru. Hefur þetta veri borið undir hæstv. forsrh.? Veit hann af þessum sjóði og vissi hann af því að það voru næstum því 3 milljarðar til í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins þegar núv. ríkisstjórn tók við? Ég man aldrei eftir því að hafa heyrt hæstv. forsrh. minnast á það. Hann hefur hins vegar talað mikið um skuldir og er allur á kafi í því að tala um skuldir frá fyrri tíð. Svo er að dúkka upp einn og einn sjóður sem einhverjir hafa verið svo forsjálir að leggja í hér áður fyrr og ég held að það sé gott að halda þeirri starfsemi áfram og vera ekki að taka upp þá hætti að eyða hverri krónu sem menn finna einhvers staðar. Það er ekki slíkt hallæri í landinu að það sé ástæða til þess.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, hæstv. forseti, að hafa um þetta mikið fleiri orð. Ég vildi koma þeirri skoðun minni á framfæri að ég er ekki stuðningsmaður þessa frv. Ég tel að hv. nefnd eigi að gefa sér góðan tíma í að fara ofan í þetta mál því að þrátt fyrir allt er Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins og hefur verið mikilvægt hagstjórnartæki. Ég vil í því sambandi m.a. vitna til ágætrar greinargerðar frá Vinnuveitendasambandi Íslands, ef ég man rétt og ég hygg að sé vitnað hér í og kom vorið 1991, í sambandi við þetta mál þar sem er bent á hversu mikilvægt tæki Verðjöfnunarsjóðurinn var tímann þar á undan. Og það er hollt að rifja það upp sérstaklega í ljósi þess að þeir sem eru að leggja til að sjóðurinn verði nú lagður niður, mér skilst næstum því einum rómi, þó ekki alveg, voru líka á móti því að peningar voru lagðir til hliðar á þeim árum. Mér finnst það umhugsunarefni og rétt að taka það til rækilegrar athugunar.