Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

61. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 01:02:46 (2764)


[01:02]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það vill svo til að ég hef lesið þessa skýrslu þannig að ég þarf út af fyrir sig ekki tíma til þess. En því miður hef ég þurft að lesa ýmsar skýrslur undanfarna daga og undanfarnar nætur um ýmis önnur mál sem eru afskaplega lítið viskulegar. Sumar þessar skýrslur hafa ekki verið aðgengilegar og það hefur þurft að toga þær út með töngum og leita að þeim úti í bæ því að þær hafa ekki fengist í ráðuneytum sem er nú nokkuð merkileg lífsreynsla. En það finnst mér vera fráleitt svar af hálfu hæstv. ráðherra að það sé nóg að nefndarmenn fái ráðrúm til þess að lesa skýrslur. Það þarf að sjálfsögðu að ræða við aðila og spyrja þá út úr hvað þeir eru að hugsa og hvernig þeir undirbyggja sinn rökstuðning. Það er eðlileg krafa löggjafarvaldsins að kalla aðila fyrir því að það er Alþingi sem setur lög, a.m.k. að nafninu til enn þá, þótt því miður virðist í vaxandi mæli mikið af þeim lögum vera samið einhver staðar úti í bæ og síðan komið hingað inn með þau og það eigi nánast að stimpla þau að forminu til.