Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 15:06:28 (2810)


[15:06]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það mál sem hér er rætt er einn af þeim kynlegu kvistum sem tengjast samningi um Evrópskt efnahagssvæði, sem svo er kallaður, og hv. 5. þm. Austurl. var að ræða um, þar á meðal eðli þessa samnings með réttindi og skyldum. Þessi samningur er alveg einstakur í sinni röð og ég held að hv. þm. gefi því kannski ekki nægan gaum því hann gefur í rauninni einhliða réttindi öðrum samningsaðilanum til þess að knýja upp á hinn aðilann ákvæði sem hann einn tekur ákvarðanir um. Þessi samningur er ekkert sem stendur í því fari sem hann er nú með öllu því sem honum tengist. Það er alltaf verið að breyta honum einhliða af Evrópubandalaginu sem eitt hefur rétt til lagasetningar á sviðum sem snerta samninginn en Ísland hefur þar engan rétt nema til þess að segja nei og fær þá á sig gagnaðgerðir á því samningssviði þar sem menn kynnu að beita neitunarvaldi.
    Þetta eru þeir afarkostir sem tengjast þessu máli og gera þennan samning alveg einstakan í sinni röð miðað við alþjóðasamninga enda er það svo að þau ríki sem álpast hafa inn í þetta kerfi mörg hver önnur en Ísland eru komin með talsverðan hroll þegar þau sjá að þau muni verða um lengri tíma líklega aðili að þessu nauðungarkerfi sem fylgir Evrópsku efnahagssvæði, ríkin sem ætluðu sér að fara alla leið, eins og stundum er sagt, þ.e. að borðinu í Brussel og fá þar örlítil áhrif í gegnum atkvæðisrétt við ákvarðanatöku. Við Íslendingar förum vonandi aldrei að því borði en þetta ættu menn að hafa í huga þegar rætt er um eðli þessa einstaka nauðungarsamnings.