Starfsleyfi fyrir THORP-endurvinnslustöðina

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 22:58:03 (2887)


[22:58]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir skelegg viðbrögð og ágætar undirtektir varðandi þessa tillögu. Ég vænti þess að hann með framgöngu sinni og góðum stuðning frá Alþingi og væntanlega frá ríkisstjórninni í heild í þessu máli verði þess megnugur að hnekkja þeim áformum sem tilkynnt hafa verið af Breta hálfu í þessu máli.
    Ég skal ekki gerast dómari í því hvaða hald er í ákvæðum 32. gr. Parísarsamningsins um gerðardóm, en bendi á í því sambandi að það er að finna bæði í þeim samningi frá 1986 sem hefur verið staðfestur og í þeim samningi frá haustinu 1992 sem ekki hefur verið staðfestur af neinum enn sem komið er, en þó er um það samkomulag, að ég best veit, hjá þátttökuríkjum að vinna í anda þessa nýja samnings. En hinn gamli er í gildi að ég best veit.
    Ég tel að Bretar séu í rauninni í mjög slæmri stöðu, að ekki sé sagt í mjög slæmu ljósi í þessu máli. Allar aðgerðir og tilraunir af okkar hálfu og þeirra ríkja sem andsnúin eru þessari ákvörðun til þess að hnekkja henni muni veikja stöðu Breta. Við þurfum að taka stórt á í þessu máli. Það er um slíka hagsmuni að ræða að það hlýtur að vera leyfilegt að grípa til allra tiltækra ráða og í raun neyðarréttar til þess að hnekkja þessari ákvörðun. Út frá því sjónarmiði hvet ég hæstv. umhvrh. til þess að ganga fram og efa það ekki að hann muni ekki spara sig í þeirri viðureign.