Framleiðsla og sala á búvörum

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 22:22:39 (2964)


[22:22]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Það er með nokkrum ólíkindum að þetta mikilvæga mál skuli vera að koma til 1. umr. daginn áður eða kvöldið áður en þing á að fara í jólaleyfi og þingstörfum að ljúka á þessu ári og að menn skuli ætla sér að afgreiða þetta mál í gegnum þrjár umræður á einum sólarhring eftir að hafa glímt við málið á sl. vori í mjög hörðum sviptingum sem næstum höfðu kostað ríkisstjórnina lífið. Það hefur verið sagt að í þeim miklu sviptingum sem átt hafa sér stað milli hæstv. landbrh. og hæstv. utanrrh. um þetta mál þá hafi landbrh. unnið merkan sigur gagnvart hæstv. utanrrh. Ekki ætla ég að dæma um það á þessu

stigi máls en því miður segi ég nú þá er það ekki eins ljóst og af er látið í fjölmiðlum.
    Samkvæmt kerfi og samkvæmt XI. kafla núverandi búvörulaga er það hæstv. landbrh. sem veitir leyfi til innflutnings. Hann fer með innflutningsmálin og það er auðvitað sjálfsagður hlutur að landbrh. fari með þau mál áfram og auðvitað er það hálfu mikilvægara að svo verði eftir að búið er að gera svonefnt GATT-samkomulag og EES-samning og þar með stórauka líkurnar á verulegum innflutningi landbúnaðarvara. Skárra væri það nú að landbrh. fengi ekki úrslitavald á þessu sviði og að það væri farið að afhenda það vald þeim sem ekki fara með þennan málaflokk, það væri auðvitað alveg fráleitt.
    Við verðum líka að hafa það í huga að í þeim GATT-samningum sem gerðir hafa verið slökuðu Íslendingar verulega miklu meira út en t.d. Norðmenn eða Finnar. Jöfnunarígildin gagnvart innfluttu kindakjöti eru miklu lægri hjá okkur en hjá þessum þjóðum og það er enginn vafi á því að landbúnaðurinn mun eiga mjög undir högg að sækja á komandi árum vegna þessara samninga. Ég tel þess vegna sjálfsagðan hlut að landbrh. fari með þessi mál en ég er hins vegar ekki mjög sáttur við að það sé eitthvað mjög óljóst hvað gerist ef ágreiningur verði um þessi mál, því að eins og hér hefur verið rifjað upp, þá segir í niðurlagsorðum 1. gr. frv., með leyfi forseta:
    ,,Náist ekki samkomulag í nefndinni skal ráðherra bera málið undir ríkisstjórn áður en ákvörðun er tekin um upphæð verðjöfnunargjalda.``
    Það er auðvitað harla óljóst hvað í þessum orðum felst. Ég er ekki viss um að í íslenskri löggjöf finnist nein sambærileg ákvæði af þessu tagi um það að ráðherra sem fer með vald á ákveðnum málaflokki skuli bera mál sitt undir ríkisstjórnina áður en ákvörðun er tekin. Hvað felur þetta í sér? Það að bera málið undir ríkisstjórnina? Er það bara einfaldlega að hann eigi að kynna málið í ríkisstjórninni áður en hann tekur ákvörðun eða er það háð samþykki meiri hluta ráðherranna? Og hvað gerist ef ágreiningur er uppi? Auðvitað má hugsanlega skilja þetta orðalag þannig að ráðherrann eigi eingöngu að gera þetta, hann eigi eingöngu að kynna málið í ríkisstjórninni, gefa ráðherrum kost á að segja álit sitt á því. Eftir að hafa hlustað á hvað þeir hafi til málanna að leggja taki hann ákvörðun og hans skyldum sé þá fullnægt þegar hann hefur gert grein fyrir málinu innan ríkisstjórnarinnar. Þetta er alveg hugsanlegur skilningur á málavöxtum og þá út frá því sjónarmiði að ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald og það eru einstakir ráðherrar sem taka ákvörðun en ekki ríkisstjórnin í heild þótt auðvitað kunni mörg mál að vera þannig vaxin að ef ráðherra tekur ranga ákvörðun sem aðrir ráðherrar eru ekki sammála um þá neyðist ríkisstjórnin til að segja af sér vegna þess að það sé ekki meiri hluti fyrir henni á Alþingi eða innan stjórnarflokkanna. En það er önnur saga.
    Spurningin um það hver tekur hina endanlegu ákvörðun er afgerandi spurning og þessi túlkunarmáti, þ.e. að segja að landbrh. hafi úrslitavaldið eftir að hafa borið málið undir ríkisstjórnina er út af fyrir sig ekkert fráleitur skilningur. Ég mundi helst hallast að því að málið væri þannig vaxið. En þá væri betra að orða þetta á annað veg á skýran hátt. Og ég vek á því athygli að það má skilja þetta á hinn veginn, að ríkisstjórnin eigi að ákveða þetta í sameiningu. Það væri að vísu mjög óvenjulegt en þess eru dæmi.
    Ég minnist þess einu sinni þegar ég sat í ríkisstjórn að viðkomandi forsrh. lagði ákveðið deiluefni undir ráðherrana alla og hafði þar atkvæðagreiðslu og lét meiri hlutann ráða. Meiri hluti var fyrir að byggja þá ákveðnu byggingu sem þá var deilt um. Ég get upplýst hvaða mál þetta var. Það var spurningin um það hvort ætti að reisa hús yfir Framkvæmdastofnun ríkisins --- eða líklega var það Byggðastofnun. Það er nú orðið nokkuð langt síðan og maður er farinn að ryðga í þessu, það eru líklega ein 15 ár síðan. Það fór fram atkvæðagreiðsla og meiri hlutinn var á því að það ætti að byggja þetta hús. Minni hlutinn, og það munaði nú bara einu atkvæði, var á móti því og forsrh. úrskurðaði að það væri þá samþykkt. Þetta er auðvitað hugsanlegur afgreiðslumáti. Það er auðvitað hugsanlegur möguleiki að ríkisstjórnin hafi hugsað sér að afgreiða málið svona. En ef það er á þennan veg væri gott að fá það upplýst, þá eigum við hér á Alþingi kröfu til þess að fá það á hreint hvort ríkisstjórnin hefur hugsað sér að afgreiða málið á þennan veg. (EgJ: Það eru nú fleiri en ein ríkisstjórn í landinu.) ( Gripið fram í: Ekki núna.) Ja, það er bara ein ríkisstjórn í landinu sem stendur og þykir mörgum að það sé alveg nóg og sú ríkisstjórn ber fram þetta frv. og það verður að fást á hreint hvernig núv. ríkisstjórn hugsar málið.
    Þriðji túlkunarmöguleikinn er auðvitað sá að þegar ágreiningur verður milli ráðherra þá sé það forsrh. sem skeri úr. Ég hygg að það sé einhvers staðar í lögum ákvæði um að þannig skuli farið að ef ágreiningur verður milli ráðherra. Og það er aðeins möguleiki að þegar ríkisstjórnin gekk frá þessu frv. hafi hún hugsað málið á þennan veg. Ég er ekki að segja þetta vegna þess að ég sé að flækja málið eða gera mönnum upp eitthvað það sem þeir ætluðu sér ekki, heldur er ég ósköp einfaldlega að fara fram á það að hæstv. landbrh. geri fullkomlega grein fyrir því hér hver ætlunin er, hver hugsunin er, það verðum við að fá að vita.
    Eins vil ég gjarnan fá að vita hvort það kerfi sem er í núverandi búvörulögum, þ.e. 52. gr. og 53. gr., muni gilda áfram en í þeim greinum segir að áður en leyfi til innflutnings sé veitt skuli ráðherra leita álits nefndar sem sé skipuð tveimur fulltrúum framleiðenda tilnefndum af samtökum þeirra og tveimur fulltrúum innflytjenda sem viðskrh. tilnefnir og oddamanni tilnefndum af landbrh. Þetta er kerfi sem hefur lengi verið í gildi og það er ekki hægt að sjá það af frv. að þetta kerfi sé fellt niður.
    Auðvitað hefði verið eðlilegast að þegar nýtt kerfi er tekið upp þá sé þessum greinum breytt og það sé komið upp einu samræmdu kerfi. Ég tek eftir því að þegar frv. var lagt fram í fyrra þá var það

breyting við 55. gr. en nú kemur nýtt frv. og þá er það á töluvert annan veg. Nú heitir það 72. gr. laganna orðist svo. Það vill nú svo illa til að það er engin 72. gr. til í þessu frv. svo að einhvern veginn verður að lesa í málið og virðist hafa verið nokkur fljótaskrift á samningu frv. því það er hér sagt að 72. gr. skuli hljóða svo og 73. gr. skuli hljóða svo en hvorug þessara greina eru til í núverandi lögum. Væntanlega á að skilja þetta svo að það verði til tvær nýjar greinar og þær virðast ekki snerta neitt við 52. og 53. gr. nema hvað þær segja: Þrátt fyrir ákvæði laganna skal þetta vera svona. Og ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst að lagasetningin sjálf ekki mjög til fyrirmyndar að ekki skuli reynt að koma þessum innflutningsmálum öllum í heild sinni inn í ákveðnar lagagreinar og búa til heildstæðan kafla um innflutningsmálin á einu bretti.
    Ég tek líka eftir því að í tillögu landbn. sem var borin fram hér á sl. vori var gert ráð fyrir því að innflutningur vörulíkis yrði háður samþykki landbrh. en það er ekki samkvæmt þessu frv.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að fjalla frekar um þetta mál að sinni. Mér sýnist á öllu að það hafi orðið til í nokkrum flýti og má það furðulegt teljast miðað við það hvað langur tími er liðinn frá því að þessi mál voru seinast til umræðu í þinginu. Það er meira en hálft ár liðið síðan. Og maður skyldi halda að menn hefðu haft góðan tíma til að semja vandað frv. um þetta mál en eitthvað hefur tíminn farið forgörðum og minna orðið úr því. Í öllu falli er það svo að áreiðanlega fleiri en ég eiga mjög erfitt með að skilja hvað raunverulega felst í þessu frv., hvar ákvörðunarvaldið liggur. Það má vel vera að það verði upplýst hér í þessari umræðu að það sé landbrh. sem hafi þetta vald raunverulega og endanlega og þá er eins gott að fá það alveg skýrt og ákveðið og á hreint en það má líka vel vera að málið verði túlkað á einhvern allt annan veg og þá er ekki verra að fá það á hreint.