Framleiðsla og sala á búvörum

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 22:44:21 (2966)


[22:44]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Hér er búið að fara allítarlega yfir þetta mál þannig að ég þarf ekki miklu við það að bæta. Þó vil ég koma hér að nokkrum atriðum.
    Það sem vekur athygli mína þegar ég lít á þetta frv. sem búið er iðulega í haust að spyrja eftir hvenær mundi koma fram, þá tek ég eftir því, hæstv. landbrh., að þetta frv. eitt fárra er dagsett og það er dagsett 8. sept. Og hvers vegna er það dagsett 8. sept.? Og hvers vegna er verið að draga þingið, þjóðþingið sem á að taka þessa ákvörðun á asnaeyrunum fram að jólum, eins og hér hefur komið fram, daginn áður en þingið átti að fara heim í jólaleyfi koma menn með írafári og málið liggur tilbúið. Þetta vildi ég minnast á.
    Við stöndum auðvitað frammi fyrir þessum kalda veruleika að sumarið hefur leitt það af sér að Íslendingar, íslenska ríkisstjórnin, hefur fallið frá öllum þeim fyrirvörum sem við bjuggumst við að mundu halda í þessu máli og ná fram. Allir magntollar í GATT-viðræðum voru felldir út og sérstaða Íslands í engu viðurkennd þannig að það horfir nú erfiðlega fyrir íslenskum landbúnaði því að staðreyndin er sú að þeir sem trúa á jöfnunartollana verða að skilja það lögmál sem ég vakti athygli á í umræðunni um daginn að tollarnir munu verða eins og þumalskrúfa sem á þessari 6 ára vegferð lækkar um 36% eða 400% tollur sem á að leggja á í upphafi fer niður 256% á þessari vegferð og síðan tekur við næsta tímabil og ný lota. Mér þætti nú vænt um ef hæstv. viðskrh. og væntanlegur formaður Alþfl. ( Gripið fram í: Ha?) eða starfandi hæstv. utanrrh. um þessar mundir gæti verið hér við þessa umræðu því að ég þarf að spyrja hann spurninga. (Gripið fram í.) Ég sé að jafnaðarmannaliðið í Alþfl. ókyrrðist allhastarlega undir þessari missögn minni um að hæstv. ráðherra Sighvatur Björgvinsson væri væntanlegur formaður Alþfl. ( Gripið fram í: Þetta kom sérstaklega illa við umhvrh.) Ég sá að það kom sérlega illa við hæstv. umhvrh. en bróðir hæstv. heilbrrh., hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, kipptist ónotalega við þannig að þarna er nú einhver glíma um formannssæti á milli kannski þriggja eða fjögurra manna. ( Gripið fram í: Það er víðar en í Framsfl.)
    Ég er hér að ræða um frv. og vil þá halda því áfram. Staðreyndin er sú, hæstv. landbrh., að við þurfum að skoða þetta frv. verulega vel. Ég í sjálfu sér efast ekkert um góðan vilja hæstv. landbrh. í þessu máli og enn síður um ágætan vilja formanns landbn., hv. þm. Egils Jónssonar, og ég minnist þess drengskapar sem hann sýndi á síðasta vetri þegar við endurskoðuðum málið eins og það lá þá fyrir og náðum sögulegu samkomulagi í landbn. með þá meira að segja alþýðuflokksmanninum, hæstv. núv. umhvrh., Össuri Skarphéðinssyni, sem hopaði hvergi þá. En nú hafa þau tíðindi gerst að þetta frv., hæstv. landbrh., er dálítið götótt. Ég sé t.d. hér að DV segir: ,,Halldór sigraði krata á pólitísku rothöggi.`` En ég er sannfærður um að þegar ég les frv. þá munu skrattar hans rísa jafnharðan upp og sækja að honum aftan frá því að þegar maður kemur neðarlega í frv., þar sem maður er kominn að því að allt sé í plati, þá er allt í einu ráðherranefnd eða nefnd sem ráðherrar tilnefna komin með ráðherravald. Þetta hefur verið minnst hér á þannig að það er auðvitað nýlundan í þessu máli að þriggja manna nefnd getur í hvert sinn stöðvað hæstv. landbrh. í málinu.
    Nú vil ég prufa lítils háttar orðalagsbreytingu við hæstv. ráðherra. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. sérstaklega hvort hann sætti sig við að síðasti málsl. 1. gr. væri svohljóðandi:
    Náist ekki samkomulag í nefndinni skal landbrh. bera málið undir ríkisstjórn áður en hann tekur ákvarðanir.
    Þá lægi það skýrt fyrir ef textinn væri með þessum hætti að það er hæstv. landbrh. sem tekur endanlega ákvörðun.
    Auðvitað uggir mig sú gleði sem ég sé í DV í dag að einkennir hæstv. viðskrh. en þar segir hann á þá leið að frv. sé frábrugðið tillögum landbn. í vor. Ekki væri nú talað um vörulíki og ef ekki væri samkomulag þriggja ráðuneyta um jöfnunargjöldið yrði málinu vísað til ríkisstjórnarinnar. Þarna finnst mér ríkja sú skoðun hæstv. viðskrh. að hann telji sig hafa sérstakt vald á málinu sem ráðherra í ríkisstjórninni.
    Þetta er það sem ég óttast mest í þessu máli, en ég segi, eins og ljóst varð í fyrravetur, að við þurfum kannski ekkert að óttast. Landbn. hefur fyrr sýnt að hún hefur kjark til að endurskoða frv., gera þau skýr og afdráttarlaus og ég vænti þess að við gefum okkur þann tíma sem þarf til þess að gera þetta mál afdráttarlaust. Það hlýtur að vera óþolandi fyrir íslenskan landbúnað sem stendur nú frammi fyrir þeim tímamótum að innflutningur verður heimill og tollaígildin munu lækka hratt og þolir ekki átök í svona máli. Það verða að vera skýrar reglur um hver fari með þetta vald og hvernig með það sé farið. Þá má ekki vera eilífur opinber slagur á milli manna í ríkisstjórn og einhverrar embættismannaskipaðrar nefndar af hálfu ráðherra. Ég veit að hæstv. landbrh. tekur undir með mér hvað þetta varðar.
    Það hefur komið glöggt fram hér að menn telja að þetta standi ekki stjórnskipunarlög og tek ég undir þá skoðun.
    Hér er auðvitað hægt að fara í langar umræður, en ég kýs það ekki við þessar aðstæður. Ég held að það sé miklu mikilvægara að koma málinu til nefndar og að landbn. geti farið yfir það og séð hvort megi þarna hagræða orðum, skjóta inn setningum og ná því að þetta mál verði afdráttarlaust. Mig langar ekki til þess að það fari svo að þetta mál fari opið út úr þinginu, löggjöfin verði opin og verði átakalöggjöf sem margir þurfa að komast að sem margt stenst stjórnskipunina. Það gæti orðið til þess að fyrir hv. þm. Agli Jónssyni, sem ég veit að ann íslenskum landbúnaði, færi eins og síðasta Oddaverjanum að hann mundi syngja í þeirri sorgargöngu:
          Mínar eru sorgirnar
          þungar sem blý.
    Þess vegna legg ég á það áherslu að við náum enn á ný pólitískri breidd og samstöðu um að gera þetta mál afdráttarlaust og til þess treysti ég landbn. eins og hún er skipuð um þessar mundir þrátt fyrir eitthvert samkomulag sem handsalað hefur verið milli ráðherra, Ég veit þeir átta sig á því, ekki síst landbrh., að þarna þurfi að eiga sér stað orðalagsbreyting.