Framleiðsla og sala á búvörum

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 23:08:50 (2968)


[23:08]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst víkja að því að það er alveg tvímælalaust að forræðið er hjá landbrh. samkvæmt þessu frv. Eins og ég gat um áðan er það nauðsynlegt og er raunar í samræmi við það sem ég hef alltaf sagt um þessi mál að það sé nauðsynlegt að fullur trúnaður sé á milli þeirra sem koma að innflutningsmálum og neytendamálum í sambandi við innflutning á landbúnaðarvörum. Með sama hætti og forræðið liggur hjá landbrh. er eðlilegt að tryggja nauðsynlegt samráð á milli þeirra ráðuneyta sem komu að málinu. Það er annars vegar viðskrn. og það er nú einu sinni svo að í framleiðsluráðslögunum er kveðið skýrt á um það í sambandi við innflutning á grænmeti að viðskrh. skuli skipa tvo menn án tilnefningar en landbrh. skipi oddamann. Ég veit ekki betur en það samstarf hafi farið mjög vel úr hendi.
    Það er líka nauðsynlegt að gott samráð sé við tollayfirvöld í sambandi við þessi innflutningsmál og útflutningsmál þegar að þeim kemur. Það má auðvitað lengi deila um hvort eðlilegt eða nauðsynlegt sé að kveðið sé svo skýrt á um slíkt samráð eins og gert er í þessu frv. Það varð niðurstaðan í ríkisstjórninni að gera það. Á hinn bóginn er fullur skilningur á því og þarf ekki að spyrja mig að því né aðra að ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald heldur er það ákvörðun landbrh. sem gildir í þessum efnum.
    Ég vil líka að það komi alveg skýrt fram að ákvörðun um t.d. hvernig haldið skuli á jöfnunargjöldum í tengslum við alþjóðasamninga hlýtur að vera mál sem er lagt fyrir ríkisstjórn hverju sinni. Við leggjum ótal mál sem hafa minni þýðingu fyrir ríkisstjórnir. Samkvæmt þessu frv. er ekki lagaskylda að gera það heldur er það ekki annað en vinnubrögð sem tíðkast yfirleitt í ríkisstjórnum. Mér finnst því að sú tortryggni sem reynt er að vekja í sambandi við þessi ákvæði séu af pólitískum toga en ekki efnislegum.
    Það kom fram sú fyrirspurn frá hv. 18. þm. Reykv., Kristínu Ástgeirsdóttur, hvar eðlilegt væri að forræði lægi í sambandi við jöfnunargjöld á landbúnaðarvörum. Það liggur hjá landúnaðarráðherra í Noregi og Svíþjóð og eftir þeim upplýsingum sem ég hef liggur nú frv. fyrir finnska þinginu um að það forræði verði fært til landbúnaðarráðuneytis. Þó flókið sé að gera sér grein fyrir því kannski hvernig mál liggja hjá Efnahagsbandalagi, þá hygg ég að það muni vera á sömu lund.
    Hv. 2. þm. Suðurl., Jón Helgason, rifjaði upp frá umræðu 1. nóv. sl. þau ummæli mín að Ísland hefði gert þá kröfu að við útreikning á verðjöfnun mjólkurafurða skuli miðað við niðurgreitt eða óniðurgeitt verð á mjólkurfitu og mjólkurpróteini eftir því sem við ætti hverju sinni. Samkvæmt upplýsingum Guðmundar Sigþórssonar, þá telur hann að við munum ná þessu fram, en þetta mál er ekki afgreitt. Það er í samræmi við þá verklagsreglu sem er í sambandi við Evrópska efnahagssvæðið en formlega hefur ekki verið frá því gengið.
    Það hefur verið mjög áberandi í þeim umræðum sem hér hafa farið fram að GATT hefur verið dregið inn í þær. Það kemur alveg skýrt fram í greinargerð með frv. og líka í framsöguræðu minni að þessu frv. er ekki ætlað að taka til þeirra samninga heldur verður unnið að samningu nýs lagafrv. með fyllri ákvæðum og heimildum jafnóðum og það skýrist hvernig GATT-samningarnir munu verða í einstökum atriðum. Auðvitað hlýtur slíkt frv. að verða afgreitt samtímis GATT-samningunum á Alþingi. Ég hygg því að það sé algerlega ótímabært að gera þá samninga að sérstöku umtalsefni og skal ég ekki gera það.
    Ég vil aðeins segja að ég hygg að það sé misskilningur að við höfum gefið eftir í sambandi við tollígildin meira en Norðmenn eins og hér kom fram. Við höfum fylgt Norðmönnum í sambandi við okkar kröfugerð og mér er ekki kunnugt um að þar halli á okkur Íslendinga.
    Ég held að það sé líka óhjákvæmilegt að víkja aftur að vinnunefndinni þegar talað er um atkvæðagreiðslu í þeirri embættismannanefnd. Það er enginn að tala um atkvæðagreiðslu embættismanna í mismunandi ráðuneytum þegar talað er um efnislega útfærslu á grundvallaratriðum eins og þeim hvernig við Íslendingar viljum standa að álagningu jöfnunargjalda sem raunar er skýrt kveðið á um í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði hvernig skuli vera. Þar er ákveðin aðferðin og hvernig að þeim skuli staðið. Það er því alger misskilningur að ætla að um það verði atkvæðagreiðsla. En það er ekki einungis nauðsynlegt að frá jöfnunargjöldum sé tryggilega gengið heldur verður framkvæmdin líka að vera í réttu horfi. Það er þess vegna líka nauðsynlegt að gott samkomulag sé milli landbrn. og tollyfirvalda um þá þætti.
    Eins og segir hér verða álitamál, ef ekki næst samkomulag, borin uppi í ríkisstjórn af landbrh. áður en hann tekur ákvörðun um hvernig verðjöfnunargjöldin verða lögð á. Hans er hin stjórnskipulega ábyrgð. Ákvörðunarvaldið er hans og það er ekki hægt að taka það af honum.
    Ég tel fullkomlega eðlilegt að landbn. fari rækilega í texta frv. og geri sér glögga grein fyrir þeirri merkingu sem hann ber. Ég tel raunar að formaður landbn. hafi gengið mjög vasklega fram í því sambandi við þau frumvörp sem fyrir landbn. hafa verið lögð að athuga rækilega efnisinnihald þeirra og orðalag. Það þarf ekki að taka það fram að hugur hans stendur til hins sama í þessu máli. Það er í samræmi

við þau vinnubrögð sem hér eiga að tíðkast og var raunar grunnhugsunin þegar samþykkt var að breyta Alþingi í eina málstofu. Þá var grunnhugsunin sú að með þeim hætti gæfist betri tími og betra svigrúm til þess að athuga þau mál sem yrðu lögð fyrir þingið. Það er alveg laukrétt sem þingmenn hafa sagt að þetta frv. kemur seint fram. Ég hefði auðvitað kosið að það hefði verið hægt að leggja frv. fyrr fram, en efnisatriði þess eru þingmönnum þaulkunn. Af þeirri ástæðu eru þeir því vel færir um að dæma um þau efnisatriði sem við erum hér að fjalla um og hafa mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig þeir vilja standa að málinu.
    Ég sé ekki ástæðu, hæstv. forseti, til að hafa um þetta fleiri orð, en ítreka þakkir mínar til landbn. fyrir að hafa komið saman og gert sér grein fyrir því hvernig hún vilji standa að vinnubrögðum og málsmeðferð í nefndinni sem er auðvitað fyrsta skrefið til þess að vel sé unnið að athugun frv.