Framleiðsla og sala á búvörum

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 23:25:28 (2976)


[23:25]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir í þessari umræðu leggja áherslu á það að við getum ekki farið svo héðan og landbn. gengið til starfa sinna öðruvísi en allri óvissu í þessu máli sé eytt um það sem skiptir meginmáli, þ.e. hvar forræði þessara mála liggur. Hv. þm. Guðni Ágústsson bar fram þá ósk að hæstv. viðskrh. kæmi hér upp og gæfi skýlausa yfirlýsingu um hvort það væri ekki rétt skilið og menn mættu treysta orðum hæstv. landbrh. um það að forræði þessa máls væri án nokkurs vafa í höndum landbrh. Svo geta nefndarmenn landbn. mín vegna hælt sjálfum sér og nefndinni allri fyrir vel unnin störf og landbrh. en landbúnaður og bændur sjálfir eru örugglega á annarri skoðun. Þeir geta ekki hælt þessum störfum.