Tekjustofnar sveitarfélaga

68. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 14:00:07 (3056)

[14:00]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til afgreiðslu hefur ekki fengið þá umfjöllun sem nauðsynleg er um jafnviðkvæmt og flókið mál og skattamálin óneitanlega eru. Það er ekki góð stjórnsýsla að ganga frá jafnviðamiklu máli án þess að heildstæð skoðun fari fram á því hvernig bæta megi sveitarfélögum tekjumissi vegna afnáms aðstöðugjalds. Reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga liggur til að mynda ekki fyrir.
    Furðulegar breytingartillögur hafa komið fram við frv. frá nokkrum hæstv. ráðherrum alveg á síðustu dögum. Frv. felur í sér hærri skattheimtu á einstaklinga og fyrirtæki og ríkissjóður er að næla sér í 400 millj. með millifærslum þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.
    Virðulegi forseti. Minni hlutinn í félmn. greiðir þessu máli ekki atkvæði sitt.