Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 14:20:00 (3142)

[14:20]
     Frsm. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta landbn. en auk mín skrifa undir það Ragnar Arnalds, Kristín Ástgeirsdóttir og Guðni Ágústsson. Í nefndarálitinu segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um málið á þremur fundum. Á fund nefndarinnar komu frá landbrn. Sigurgeir Þorgeirsson, aðstoðarmaður landbrh., og Guðmundur Sigþórsson skrifstofustjóri, frá Stéttarsambandi bænda Hákon Sigurgrímsson framkvæmdastjóri, frá Framleiðsluráði landbúnaðarins Gísli Karlsson framkvæmdastjóri, frá Búnaðarfélagi Íslands Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri, Sigurður Líndal prófessor og Sveinn Snorrason hrl.
    Fram kom hjá fulltrúum bændasamtakanna að ekkert samráð hefði verið haft við þá áður en málið var lagt fram á þessu stigi þannig að samtök þeirra hafa ekki haft tækifæri til að fjalla um málið. Þeir bentu á að í frv., eins og það liggur fyrir nú, væru engin ákvæði um samráð við bændasamtökin eins og gert var ráð fyrir í breytingartillögu meiri hluta landbn. við búvörulögin í vor, en það frv. strandaði á ósamkomulagi í stjórnarflokkunum.
    Í máli Sveins Snorrasonar og Guðmundar Sigþórssonar kom fram að heimildir landbrh. til töku verðjöfnunargjalda, hvað varðar innflutning samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland hefur gert, nái til þeirra vöruflokka sem getið er í tollnúmeraskrá þessara samninga. Hvað varðar bókanir við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sem varða landbúnaðarmál, er um að ræða tollkafla 1--24, að undanskildum fiski og fiskafurðum. Í þessu sambandi vill minni hlutinn ítreka að við framsögu ráðherra og í starfi nefndarinnar kom skýrt fram að þær breytingar, sem hér er verið að framkvæma, snúa einvörðungu að skuldbindingum sem leiða af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, en ekki GATT-samkomulaginu.
    Í frv. er gert ráð fyrir því að gjöldin verði lögð á samkvæmt tillögu þriggja manna nefndar, skipaðri fulltrúum landbúnaðar-, viðskipta- og fjármálaráðuneytisins. Nái nefndin ekki samkomulagi skal ráðherra bera málið undir ríkisstjórnina áður en ákvörðun er tekin um upphæð verðjöfnunargjalda.
    Í máli Sigurðar Líndals kom fram að ákvæði í sérlögum um meðferð máls í ríkisstjórn, á þann hátt sem hér er lagt til, væri afar sérstakt og ætti sér vart hliðstæðu í íslenskri löggjöf.
    Minni hlutinn mun styðja þann hluta 1. gr. frv. sem lýtur að forræði landbrh. varðandi innflutning og töku verðjöfnunargjalda en lýsir andstöðu sinni við þann þátt greinarinnar sem snýr að málsmeðferð ef ekki næst samkomulag í þriggja manna nefndinni.``
    Virðulegi forseti. Þetta mál ber að með nokkuð sérstökum hætti. Þetta mál var svo heitt á vordögum að við lá stjórnarslitum og það varð að slíta Alþingi í flýti til þess að koma í veg fyrir það að sá meiri hluti sem þá hafði myndast að baki tillögum meiri hluta landbn. kæmi hér fram og málið var sjóðheitt áfram fram eftir öllu sumri. Ég vek athygli á því að í þeim brtt. sem lágu fyrir þinginu í vor var sérstaklega tekið fram að hafa skyldi samráð við samtök bænda um meðferð málsins. Þegar málið er lagt fyrir núna að tilhlutan ríkisstjórnarinnar og eftir samkomulag þar á milli þá er ekkert lengur inni í frv. um samráð við Framleiðsluráð eða bændasamtök. Það þótti hins vegar ástæða til þess í frumvarpi ríkisstjórnarinnar að lögfesta, setja inn í lagatextann hvernig ætti að fara með málið í stjórnkerfinu að öðru leyti. Það er lögfest sú nefnd sem á að fjalla um það og það er sett inn í lagatextann sem er afar sérstakt að málinu eigi að vísa til ríkisstjórnar ef þriggja manna nefndin nær ekki saman.
    Hér er verið að setja inn í lög eitthvert samkomulag stjórnarflokkanna án þess að við vitum nokkuð hvað stendur á bak við það samkomulag að öðru leyti og ég hlýt að vekja athygli á því að hv. frsm. meiri hluta nefndarinnar og formaður nefndi engu orði í sinni framsögu um samráð við samtök bænda. Og það hlýtur að vera eftir því tekið ef ekkert kemur hér frekar frá meiri hlutanum um það og ef meiri hlutinn tekur ekki af skarið um það hér í umræðunum að það skuli haft um þetta mál samráð við samtök bænda þá mun minni hluti nefndarinnar flytja brtt. í þá veru fyrir 3. umr.
    Til viðbótar varðandi þetta hefur það verið sagt að í 52. og 53. gr. frv. sé tekið á þessum þætti, þ.e. samráðinu. En að mati minni hlutans eru þessar greinar sem hér er verið að samþykkja algerlega sjálfstæðar og taka enga hliðsjón af 52. og 53. gr. þannig að það sem þar er rætt um samráð á eingöngu við um þær greinar en þær greinar fjalla eins og kunnugt er um innflutning á búvörum ef innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn og þær greinar standa sjálfstæðar eftir þrátt fyrir þessa breytingu. Ef meiri hlutinn hefur annan skilning á þessu þá tel ég það afar brýnt að það komi fram hér við umræðuna.
    Þá vil ég koma að því að í máli Sveins Snorrasonar hrl. og Guðmundar Sigþórssonar skrifstofustjóra kom það skýrt fram að þær heimildir sem landbrh. hefði til að beita jöfnunargjöldum samkvæmt þeim milliríkjasamningum hlytu að felast innan þess ramma sem samningarnir gefa. Þetta þýðir gagnvart EES að það eru tollflokkar 1--24 að fiski og vörum unnum úr fiski undanskildum. Það er túlkun Sveins Snorrasonar að þetta þýði það að landbrh. hafi heimild til þess að beita verðjöfnunargjöldum á vörulíki, svo sem smjörlíki, og í þeirri álitsgerð sem Sveinn hefur sent okkur og af orðum hans í nefndinni er enginn vafi á þessu. En ég hlýt að vekja athygli á því einnig að frsm. meiri hlutans nefndi þetta ekki í sinni framsögu.
    Þá hljótum við í minni hlutanum að benda á það sem kom fram í framsögu ráðherra og kom einnig fram í nefndarstarfinu að þessi lagabreyting snýr eingöngu að viðaukum eða bókunum við EES-samninginn sem varða landbúnað. Þessi breyting snýr ekki að GATT. Og ef menn lesa lagatextann þá sjá menn að þessi breyting er ekki nægjanleg til þess að taka á því hvernig við getum beitt tollígildum við GATT-samninginn, einfaldlega vegna þess að hér segir að ekki sé hægt að beita hærri jöfnunargjöldum en sem sem nemur mismuni á innlendu og erlendu hráefnisverði. Tollígildi GATT-samkomulagsins eru ekki bundin slíkum skilyrðum. Þar er um að ræða ákveðna prósentutölu og ef ætti að fara að vinna eftir þessum texta með GATT-samninginn þá væri ekki heimilt að leggja á hærri jöfnunargjöld heldur en sem nemur þessum mismun á innlenda og erlenda þætti hráefnisverðsins. Það liggur því alveg ljóst fyrir að gagnvart GATT verður að fara í frekari lagavinnu. Þetta segi ég m.a. vegna þess að sá misskilningur hefur verið nokkuð útbreiddur og m.a. komið fram í fjölmiðlum að þessi lagabreyting snúi að GATT-samningnum einnig. Í þessu sambandi vil ég taka það skýrt fram að með þessari breytingu sem slíkri er ekki verið að heimila innflutning búvara. Þessi lagabreyting lýtur eingöngu að því hvað snertir heimildir landbrh. til þess að leggja jöfnunargjöld á.
    Í frv. er einnig gert ráð fyrir því að sett sé á fót þriggja manna nefnd, einn fulltrúi án tilnefningar sem við hljótum að líta þannig á að sé fulltrúi landbrn. og einn fulltrúi frá viðskrn. og einn frá fjmrn. Þessi nefnd á í raun að yfirfara allar reglur um töku jöfnunargjaldanna og það er ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo að hún eigi að ákveða upphæð gjaldanna því að síðan segir að nái nefndin ekki samkomulagi þá eigi að vísa málinu til ríkisstjórnar. Við þessa málsmeðferð gerum við miklar athugasemdir. Við gerum engar athugasemdir við að það sé starfandi samráðsnefnd ráðuneyta til þess að fjalla um málið. En við hljótum að lýsa furðu okkar á því ákvæði að síðan eigi að setja inn í lagatextann hvernig eigi að fara með málið í ríkisstjórn og við getum engan veginn sætt okkur við þá meðferð.
    Virðulegur forseti. Ég held að ég sé nánast búinn að fara yfir þau efnisatriði sem er mikilvægt að

komi fram með framsögu minni hluta nefndarinnar. Ég hlýt hins vegar að ítreka það sem ég sagði áðan að í þessari breytingu felast í sjálfu sér ekki heimildir til innflutnings. Þessi breyting lýtur eingöngu að því að það verði landbrh. sem hafi forræði varðandi innflutninginn og það kom skýrt fram hjá Sigurði Líndal lagaprófessor að lagasetning sem þessi, sem meiri hlutinn er að leggja til, gæti í engum tilfellum tekið þá heimild af ráðherra og þess vegna er þessi lögfesting á meðferð ríkisstjórnar algerlega óþörf því að samkvæmt bæði stjórnarskrá og stjórnarráðslögum ber ríkisstjórn að hafa samráð um meiri háttar mál og það á ekki að þurfa að setja slíkt inn í lög. Það er hætt við því að löggjöfin yrði allskrautleg og það þyrfti víða að skjóta inn slíkum breytingum ef ætti að lögfesta það í öllum málaflokkum að ráðherrarnir töluðu saman á ríkisstjórnarfundum. Það er náttúrlega alveg út í hött að það skuli vera á þennan hátt lögfest eitthvert samkomulag sem stjórnarflokkarnir hafa gert sín á milli og það er ekki hægt að taka þátt í slíkri lagagerð.
    En ég vil einnig, virðulegi forseti, ítreka það sem hefur komið hér áður fram í mínu máli um þá milliríkjasamninga sem við erum að gera núna og gera það að verkum að allt starfsumhverfi landbúnaðarins breytist. Að mínu mati er fyrst og fremst um að ræða innanríkismál en ekki utanríkismál því að það hvernig þetta kemur við okkar atvinnulíf ræðst innan lands en ekki í útlöndum. Það ræðst af því hvernig menn vilja og á hvern hátt menn eru tilbúnir að beita þeim heimildum sem við höfum til þess. Og ég vil taka það fram í þessu sambandi varðandi þá lagabreytingu, sem við erum að gera hér og þær lagabreytingar sem þarf að gera vegna GATT á þessu ári, að þar er í raun og veru um að ræða aðalstýritæki landbúnaðarframleiðslunnar hér á landi á næstu árum og þess vegna mikilvægt að það sé fagráðuneytið sem hafi þar umsjón. Það er einnig mikilvægt, og ég ítreka það enn, það er einnig mikilvægt að um alla þá umfjöllun sé náið samráð við hagsmunasamtökin og bændasamtökin í landinu. Þetta er þeim mun mikilvægara þar sem það liggur alveg ljóst fyrir að bændasamtökin hafa á síðustu árum farið í mikla vinnu til þess að aðlaga sig breyttum aðstæðum og eru í sjálfu sér tilbúin til þess að takast á við þá vinnu í framtíðinni en þau hljóta, eins og þau hafa gert fyllilega ljóst, að fara fram á það að stjórnvöld vinni með þeim í þeirri vinnu.