Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 15:01:58 (3147)


[15:01]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég ætlaði ekki að fjalla um þetta mál efnislega en mig langaði að bera fram eina spurningu til virðulegrar nefndar. Hún snýr að því hvernig málsmeðferð er hagað. Þ.e. mér finnst vanta í þetta einhvers konar tímamörk. Í svona málum er oft um afar viðkvæma vöru að ræða sem þolir ekki langa bið og getur því skemmst en eins og frv. er sett fram er þetta nánast galopið og menn geta því gefið sér þann tíma sem þeim sýnist í að fjalla um málið. Þetta finnst mér óeðlilegt í ljósi þess um hvers lags vöru er verið að ræða hér. Ég vil því spyrjast fyrir um hvort nefndin fjallaði um þær hugmyndir að hafa í frv. að innan einhverra tímamarka bæri að ná niðurstöðu í málinu eða ekki.