Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 15:29:04 (3155)


[15:29]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Á fundi í landbn. sem haldinn var laugardaginn 18. des. sl. voru kallaðir til sérfræðingar til að túlka ákvæði frv. um forræðisrétt landbrh. yfir innflutningi erlendra búvara og álagningu verðjöfnunargjalda. Skýrt var tekið fram af Sigurði Líndal prófessor að landbrh. hafi full yfirráð þessara mála þrátt fyrir ákvæði laganna um eftirlitsnefnd kratanna og um að málið komi að síðustu fyrir ríkisstjórn ef ágreiningur er. Hann hafi úrslitavald um þær ákvarðanir sem teknar eru um verðjöfnunargjöld samkvæmt heimildum laganna og það sé hans að ákveða niðurstöður sé uppi ágreiningur. Hins vegar vekur prófessorinn athygli á því að í sjálfu sér sé ákvæðið óþarft og jafnvel óeðlilegt þó svo að það sé ekki í ósamræmi við stjórnarskrárákvæði eða stjórnskipunarvenjur.
    Sé þessari niðurstöðu ekki mótmælt er það ásættanlegt í sjálfu sér ef það þjónar einhverjum tilgangi að lögfesta þessi ákvæði þó svo að það sé ankannalegt að vera að setja í lög ónauðsynleg og jafnvel óeðlileg ákvæði samkvæmt skoðun lagaprófessorsins. Það má enn fremur benda á að með þessu ákvæði er ráðherrum í ríkisstjórn Íslands ekki lengur í sjálfsvald sett hvort þeir fjalla um verðjöfnunargjald í landbúnaði á ríkisstjórnarfundum heldur er þeim skylt að taka þá umræðu upp hversu merkilegt eða ómerkilegt málið kann að vera geri einhver eftirlitsmannanna ágreining. Ég lýsi yfir furðu minni yfir þessu ákvæði um eftirlitsnefnd og málið þurfi að síðustu að koma aftur fyrir ríkisstjórnina þar sem í upphafi 1. gr. er kveðið skýrt á um forræði landbrh. Það á að duga.
    Þá kemur að öðru atriði sem ekki er veigaminna í þessari lagasetningu sem er hversu víðtæk ákvæði 1. gr. eru sem varða heimild landbrh. til að setja á jöfnunargjöld. Í þeim umræðum sem um það hafa farið fram hefur það verið markmið vissra aðila. Ég veit ekki hvort við eigum að hafa við það spurningarmerki hverjir þeir eru. Það er verið að koma á allan hátt í veg fyrir að unnt sé að verja landbúnaðinn gegn innflutningi niðurgreiddra landbúnaðarafurða á heimsmarkaðsverði og koma honum þar með á kné.
    Vafalaust verður áfram leitað leiða að gera skuldbindandi samninga um tollfrjálsan innflutning landbúnaðarafurða til landsins svo sem verið hefur til þessa. Má þar nefna innflutning blóma og grænmetis í skuldbindandi samningi við Evrópubandalagið sem þegar er farinn að skaða íslenska grænmetisframleiðendur sem ætluðu að efla íslenska framleiðslu með raflýsingu yfir háskammdegið. Það er vissulega skammdegi yfir þeirri framleiðslu í dag vegna þessara samninga utanrrh. á meðan hrópað er stöðugt af sumum: Íslenskt, já takk. Það er ekki allt að fullu meint.
    Til að skýra heimild landbrh. til að leggja á verðjöfnunargjald samkvæmt 1. gr. lagafrv. fékk landbn. Svein Snorrason hrl. Hans niðurstaða er sú að verði lagafrv. þetta að lögum heimili það landbrh. að leggja jöfnunargjöld á allar landbúnaðarvörur sem innfluttar kunna að verða með heimild í ákvæðum fríverslunar- og milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að án undantekninga. Það á við unnar sem óunnar landbúnaðarvörur hvort sem um er að ræða í líkjaformi, svo sem smjörlíki, ostlíki eða aðrar sem falla í tollflokka í köflum 1--24 í tollskrá að undanteknum fiski og fiskafurðum. Ber að fagna þessu því að ekki hefur vantað á að reynt hefur verið að eyðileggja vinnu íslenskra iðnaðarmanna með því að vera stöðugt að reyna að flytja inn smjörlíki.
    Vegna þessa ágreinings sem búinn er að vera um þetta mál allt frá því að það var tekið á dagskrá á hv. Alþingi á sl. vori er það ákaflega þýðingarmikið að þessi lögfræðiálit skulu hafa verið fengin. Á það vil ég leggja áherslu. En þó svo að þessi niðurstaða færi forræði þessara mála innan lands til landbrh. á ótvíræðan hátt eftir þeim skilningi lögfróðra manna um efnisinnihald frv. sem á undan er rakið, má ekki gleyma því á hvern hátt hæstv. utanrrh. hefur unnið að þessu máli. Eigum við eftir að standa frammi fyrir því að hann sé búinn að semja um víðtækar opnanir á innflutningi landbúnaðarvara í fríðindasamningum við önnur ríki eins og hefur gerst íterkað í EES-samningunum. Má þar rifja upp samningslipurð hæstv. utanrrh. við EB þegar hann var búinn að opna fyrir innflutning á fimmta hluta af neyslu mjólkur og mjólkurvara í landinu sem hæstv. landbrh. þurfti að beita sér fyrir að draga til baka.
    Einnig má minna á þá ákvörðun utanrrh. að semja um tollfrjálsan innflutning blóma og garðávaxta og láta þá samninga taka gildi löngu fyrr en séð var hvort af EES-samningi yrði eða ekki. Þótt frv., ef að lögum verður, haldi vel á þessum málum á innlendum vettvangi tryggir það ekki að komið verði í veg fyrir innflutningsáráttu utanrrh. hvort sem er á kalkúnalöppum eða í samningsgerð við önnur ríki. Það má því segja að í þeim sigri sem felst í umræddu frv. gegn innflutningsáráttunni felist eins konar varnarsigur gegn ósigrinum, öllum ósigrunum í þessum málum þar á undan sem við verðum að horfast í augu við í dag sem gerðan hlut. En þrátt fyrir samþykkt frv. verður því miður ekki komist hjá því að hæstv. utanrrh. haldi áfram að vega í sama knérunn en gott væri að hann lærði af því sem þegar er orðið.
    Það er ógæfa íslenskrar þjóðar hversu vel honum hefur tekist að leika lausum hala í tveimur ríkisstjórnum og ekki er sjáanlegt að við losnum við hann í bráð.