Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 15:59:19 (3163)


[15:59]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að lýsa mikilli ánægju minni með það samkomulag milli stjórnarflokkanna sem býr að baki þessu litla frv. og jafnframt er að gefnu tilefni sjálfsagt að verða við því að skýra örlítið nánar meginatriðin í þessu samkomulagi. Þau lúta að þrennu:
    1. Taka af tvímæli um heimildir stjórnvalda til þess að efna milliríkjasamninga sem Ísland hefur skuldbundið sig að.
    2. Að setja á laggirnar starfshóp skipaðan fulltrúum fimm ráðuneyta til þess að ljúka endurskoðun á innflutningslöggjöfinni með það að markmiði að hún samræmist GATT-skuldbindingum okkar.
    3. Að afla ótvíræðrar heimildar til álagningar verðjöfnunargjalda þegar það á við og kveða á um fyrirkomulag og vistun þeirra.

    Þetta eru þau þrjú meginatriði sem hið pólitíska samkomulag snerist um.
    Fyrsta atriðið, að taka af tvímæli um að íslensk stjórnvöld geti efnt skuldbindingar milliríkjasamninga, snýst um eftirtalda samninga: Í fyrsta lagi tvíhliða samning við Evrópubandalagið um sérstakt fyrirkomulag í landbúnaði. Sá samningur kveður á um tímabundinn tollfrjálsan innflutning á fáeinum tegundum af blómum og grænmeti. Í annan stað er hér um að ræða bókun 3 svokallaða við EES-samninginn. EES-samningurinn fjallar ekki um landbúnaðarmál sem kunnugt er. Bókun 3 fjallar um takmarkað vörusvið fáeinna, unninna landbúnaðarafurða og um þann innflutning þegar bókun 3 hefur tekið gildi síðar á þessu ári gildir það að þá gilda reglur samningsins um álagningu verðjöfnunargjalda sem er einfalt reikningsdæmi. Það er heimild til þess að vega upp mun á innflutningsverði, þ.e. skilgreindu heimsmarkaðsverði og innlendu heildsöluverði, þannig að verðjöfnunargjaldaákvörðunin er einfalt reikningsdæmi, bæði að því er varðar vörusvið og upphæð gjaldanna og skiptir því ekki miklu máli hvað er vistað. Í þriðja lagi höfum við gert tvíhliða samninga við allmörg önnur ríki, Mið- og Austur-Evrópuríki og fleiri ríki, þar sem kveðið er á um heimildir til innflutnings á landbúnaðarvörum en þær eru í öllum tilvikum vörur sem ekki eru framleiddar hér á landi og gefa því ekki tilefni til verðjöfnunar. Það er fagnaðarefni að þessi deilumál eru leyst og sú hætta er úr sögunni að við getum ekki efnt þessa samninga.
    Mál nr. tvö varðar endurskoðun á innflutningslöggjöfinni. Ríkisstjórnin hafði fyrr á þessu hausti skipað nefnd fjögurra ráðuneyta sem fór yfir innflutningslöggjöfina og hefur skilað áfangaskýrslu. Þar eru taldir upp þeir lagabálkar og bent á þau lagaákvæði sem þarfnast endurskoðunar til þess að staðið verði við GATT-skuldbindingar. Þetta er auðvitað stærsta málið vegna þess að það er þetta sem skiptir sköpum og veldur tímamótum og er í beinu framhaldi af því samkomulagi sem tekist hefur um GATT-aðild Íslands. Aðalatriðið er það að framvegis mun landbúnaðarstefnan ekki byggjast á banni heldur heimild til frjálsra viðskipta samkvæmt nánari samkeppnisreglum sem gilda á vegum GATT.
    Samkomulagið felst í því að þessi nefnd mun ljúka störfum og hún verður undir forsæti fulltrúa forsrh. Æskilegt væri að þessu verki væri lokið þegar við þurfum að gera grein fyrir því innan GATT með hvaða hætti við stöndum við þær skuldingar þótt GATT-samningurinn sjálfur taki ekki gildi fyrr en um áramótin 1994/1995.
    Þriðja atriðið varðar verðjöfnunargjöld. Þar þurfti að taka ákvarðanir um að það væru ótvíræðar lagaheimildir um það að leggja á verðjöfnunargjöld og einnig fyrirkomulag og vistun. Það segir sig sjálft að verðjöfnunargjöld eru lögð á vörur í innflutningi ef um er að ræða innlenda framleiðslu sömu vara. Ef um er að ræða innflutning á vörum sem ekki eru framleiddar innan lands, er ekkert upp að jafna.
    Að því er varðar EES-samninginn, þá er það svo samkvæmt bókun 3, að þarna er um að ræða takmarkað vörusvið unninna afurða og þá ber í því tilviki að leggja á verðjöfnunargjöld. Í þessu frv. er kveðið upp úr um það að forræðið yfir því skuli vera vistað hjá landbrn. Jafnframt skal hann hafa sér til ráðuneytis nefnd þriggja ráðuneyta sem koma að málinu, fjmrn. fyrir hönd ríkissjóðs og viðskrn. vegna almennra neytendasjónarmiða. Þetta ákvæði sem spurt er um, náist ekki samkomulag í nefndinni skal ráðherra bera málið undir ríkisstjórn áður en ákvörðun er tekin um upphæð verðjöfnunargjalda, er einungis til staðfestingar þeim sameiginlega pólitíska ásetningi stjórnarflokkanna að mál skuli leyst, ef þess er kostur, með samkomulagi. Ég tek það fram að ég tel litlar líkur á því að það sé nokkurt tilefni til deilu um álagningu verðjöfnunargjalda að því er varðar EES-samninginn vegna þess að vörusviðið er skilgreint og reikningsdæmið liggur fyrir. ( Gripið fram í: Liggur það fyrir?) Reikningsdæmið liggur fyrir að því er það varðar að það eru almennar skýrar reglur í EES-samningnum sjálfum hvernig skuli leggja á verðjöfnunargjöld. Það á að brúa bilið milli skilgreinds heimsmarkaðsverðs og innlends heildsöluverðs, það eru verðjöfnunargjöldin, einungis í þeim tilvikum þegar um er að ræða innflutning á unninni vöru sem er í samkeppni við innlenda framleiðslu.
    Þar með höfum við leyst þau útistandandi deilumál sem oft hafa orðið að ágreiningsefni í íslenskum stjórnmálum á undanförnum árum og ég lýsi því yfir fyrir mína hönd og míns flokks að það er okkur mikið ánægjuefni. Menn mega ekki rugla þessu saman við GATT-tilboðið um tollígildi. Það var einfaldlega reikningsdæmi líka sem fólst í því að þegar í upphafi skal innlendur landbúnaður hafa óbreytta samkeppnisstöðu þannig að tollígildin voru reiknuð sem munurinn milli heimsmarkaðsverðs og innlends heildsöluverðs. Þess skal hins vegar getið að tollígildi eru heimildarákvæði, þannig að það er hverju landi í sjálfsvald sett hvort þeim er beitt að fullu eða ekki og fer það að sjálfsögðu eftir því hvaða stefnu stjórnvöld móta að því er varðar verðmyndun.
    Mér er tjáð að hér hafi orðið allmiklar umræður undanförnum dögum um verðlagsáhrif lækkunar virðisaukaskatts á matvæli. Sú tillaga er væntanlega fram komin af þeirri ósk að menn vilja hafa áhrif á verðlag landbúnaðarvara eða matvæla til lækkunar og það geta stjórnvöld samkvæmt þessu haft. Oft hefur verið um það talað og menn verið sammála um það að nauðsynlegt væri að reyna að færa verðlag lífsnauðsynja og matvæla hér á landi niður á við til samræmis við það sem tíðkast með öðrum löndum.
    Loks er þess að geta að um það er pólitískt samkomulag í ríkisstjórninni að því er varðar GATT-málið og markaðsaðgang og þá vöruflokka sem fluttir hafa verið inn hingað til á viðmiðunarárunum, tollfrjáls og hindrunarlaust, þá verður tollígildum ekki beitt á þann innflutning.
    Virðulegi forseti. Ég tel að þetta séu aðalatriði þessa máls. Ég tek undir bæði með hv. formanni landbn. og hæstv. landbrh. að að baki þessum hugmyndum er pólitískt samkomulag. Ég endurtek að mér

er það mikið ánægjuefni og ég lít svo á að með því sé að baki í reynd ágreiningsmál sem oft hefur dregið menn mjög í dilka. Með öðrum orðum, við höfum stigið skref fram á við til að aðlaga innflutningslöggjöfina og þar með talið landbúnaðarlöggjöfina að nútímaviðskiptaháttum og ætti það að vera öllum hv. þingmönnum fagnaðarefni.