Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 16:11:06 (3166)


[16:11]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. sem hér talaði áðan er annálaður friðsemdarmaður og þess vegna er mér það nokkurt undrunarefni ef honum er það óánægjuefni að samkomulag og sátt ríki í málinu. Það er ekki aðalatriði varðandi verðjöfnunargjöld hvar þau eru vistuð og það er ekki forræðisdeila við mig sem utanrrh. eða við utanrrn. um það. Hafi menn deilt um það hvar ber að vista þau þá er sú deila milli fjmrn. og landbrn. Rökin í málinu eru þau að verðjöfnunargjöld eru hluti af tollamálum og þess vegna má færa fyrir því veigamikil rök að þau eigi að vista í fjmrn. Fyrir því eru hins vegar sérstök rök þegar um er að ræða innflutning á vörum sem eru í samkeppni við framleiðslustýrðar vörur innan lands, þá hafi þær áhrif á framkvæmd landbúnaðarstefnunnar og megi því vista í landbrn. og líka með þeirri hliðstæðu að svo er gert, t.d. í Evrópubandalaginu, sem sumir taka sér mjög til fyrirmyndar, og í einum þremur ríkjum Norðurlanda. Þetta er algert aukaatriði málsins, sér í lagi þegar um er að ræða verðjöfnunargjöld sem taka til tiltekins afmarkaðs vörusviðs og þar sem ekki er ágreiningur um það hver verðjöfnunargjöldin eiga að vera vegna þess að þau eru einfalt reikningsdæmi. Þetta þarf því ekki að valda neinum ágreiningi.