Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 16:13:25 (3168)


[16:13]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr: Hvað fékkst fram í þessu samkomulagi sem formaður Alþfl. er sérstaklega ánægður með? Það hélt ég að lægi í augum uppi. Í fyrsta lagi það að eftirleiðis er engin hindrun fyrir því að við getum efnt þá milliríkjasamninga sem ég hef áður talið upp og við höfum skuldbundið okkur að. Í annan stað er samkomulag um að endurskoða innflutningslöggjöfina til samræmis við GATT. Og í þriðja lagi var enginn ágreiningur um verðjöfnunargjöld vegna þess að í EES-samningnum er gert ráð fyrir því að þau verði lögð á þegar um er að ræða takmarkað vörusvið og reikningsdæmið liggur fyrir þannig að það er ekki ástæða til neins ágreinings þegar þetta hefur náðst fram.