Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 16:20:12 (3173)


[16:20]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil árétta það enn að gefnu tilefni að það hefur aldrei verið deiluefni af hálfu okkar alþýðuflokksmanna hvort verðjöfnunargjaldaákvörðunin væri að okkar kröfu hjá utanrrn. eða viðskrn. Forræðisdeilan var þess vegna milli fjmrn. og landbrn. ( ÓRG: Þú vildir að hún væri í fjmrn.) Ég er búinn að fjalla um það og það eru út af fyrir sig veigamikil rök fyrir því að vista þau í fjmrn. en skiptir þó minna máli þegar um er að ræða verðjöfnunargjöld, sem hv. þm. greinilega skilur ekki hvað eru,

vegna þess að þau eru á takmörkuðu vörusviði og það er ekkert ágreiningsefni um það hvernig eigi að reikna verðjöfnunargjöld. Þau eru t.d. ekki lögð á þegar um er að ræða innflutning á vöru sem ekki er framleidd hér á landi og eins og þarna segir í texta frv. varða þau hráefnisþáttinn að því er varðar unnar vörur.
    En að því er varðar spurningu hv. þm. um GATT --- hefur hv. þm. áhuga á að heyra svarið? ( JGS: Já, já.) Þá erum við að tala um allt aðra hluti. Þá erum við að tala um tollígildi sem eru eins og ég sagði heimildarákvæði. Og það segir sig nánast sjálft að þegar að því kemur að beita þeim þá er það pólitískt stefnumál sem hlýtur að koma til kasta allra í viðkomandi ríkisstjórn.