Minning Steingríms Aðalsteinssonar

73. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 01:45:01 (3258)


[01:44]
     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Mitt í önnum Alþingis í dag bárust þær fregnir að Steingrímur Aðalsteinsson, fyrrverandi alþingismaður og forseti efri deildar Alþingis, hefði andast í morgun, mánudaginn 20. des., á nítugasta og fyrsta aldursári. Ég vil á þessum síðasta fundi Alþingis fyrir jólahlé minnast hans nokkrum orðum.
    Steingrímur Aðalsteinsson var fæddur 13. jan. 1903 á Mýrarlóni í Glæsibæjarhreppi. Foreldrar hans voru hjónin Aðalsteinn húsmaður þar, síðar daglaunamaður í Glerárþorpi Hallgrímsson bónda í Myrkárdal í Skriðuhreppi Manassessonar og Kristbjörg Þorsteinsdóttir bónda á Mýrarlóni Þorsteinssonar. Hann var á barnsaldri þegar hann missti föður sinn og þurfti ungur að fara að vinna fyrir sér, var vinnumaður á Gilsá og Æsustöðum í Eyjafirði fram undir tvítugt. Gagnfræðaprófi lauk hann á Akureyri vorið 1924. Hann átti heimili á Lyngholti í Glerárþorpi og var daglaunamaður þar 1922--1932, átti síðar heimili á Akureyri og var bæjarfulltrúi þar frá 1934 þar til hann fluttist alfarinn til Reykjavíkur upp úr 1950 þar sem hann bjó síðan. Við alþingiskosningarnar í júlí 1942 var hann í kjöri á Akureyri fyrir Sameiningarflokk alþýðu --- Sósíalistaflokkinn og hlaut kosningu sem landskjörinn alþingismaður. Hélt hann því þingsæti til 1953, en þá var hann fluttur burt frá Akureyri. Á haustþinginu 1942 var hann kjörinn forseti efri deildar og hélt því starfi fram á árið 1946. Hann sat á 13 þingum alls. Eftir flutninginn til Reykjavíkur stundaði hann leigubílaakstur árum saman og var fulltrúi á skrifstofu verðlagsstjóra 1957--1965.
    Steingrímur Aðalsteinsson hafði mikil afskipti af verkalýðsmálum á starfsævi sinni. Hann varð formaður Verkalýðsfélagsins í Glerárþorpi rúmlega tvítugur, árið sem hann fluttist til Akureyrar var hann kjörinn formaður Verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar og í Reykjavík starfaði hann í samtökum leigubílstjóra, Hreyfli. Á árunum nyrðra reyndi mikið á forustu hans í verkalýðsmálum. Það voru tímar harðra vinnudeilna, kreppu og atvinnuleysis. Hann brást ekki trausti stéttarbræðra sinna, vann stefnufastur og heils hugar að þeim fjölþættu verkefnum sem á honum hvíldu á þeim vettvangi.
    Við verkalýðsmál tvinnuðust afskipti Steingríms Aðalsteinssonar af stjórnmálum. Hann átti af hálfu flokks síns sæti í bæjarstjórn og á Alþingi. Hér átti hann sæti rúman áratug, hvarf héðan fyrir fjörutíu árum. Hann flutti mál sitt hér sem endranær með festu og gjörhygli og átti hylli flokksbræðra í heimabæ sínum meðan hann bjó nyrðra. Í forsæti á Alþingi fékk hann orð fyrir röggsama og trausta fundarstjórn, réttsýni og sanngirni.
    Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Steingríms Aðalsteinssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]