Íslenskt heiti á "European Union"

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 17:07:30 (3854)


[17:07]
     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans við fyrirspurninni. Ég skil það svo að hann standi að tillögu um að tekið verði upp heitið Evrópusambandið á European Union eða Europäische Union, svo að notuð sé þýskan þar sem unions-heitið kemur einnig fram sem og í Norðurlandamálunum þar sem unions-nafnið er á fyrirbærinu. En að hann vilji ekki taka undir hugmyndir um að skammstafa þetta ES vegna hættu á ruglingi við EES er sjónarmið sem ég skil út af fyrir sig. Ég hefði talið skynsamlegt af hæstv. utanrrh. að óska eftir því að Íslensk málnefnd færi yfir þetta efni hið fyrsta og gæfi ráðuneytinu álit af sinni hálfu því að hér kemur sitthvað til álita hvað eðlilegt er með tilliti til inntaks Maastricht-sáttmálans og þeirrar þróunar sem í gangi er í skjóli hans.
    Ég sagði það áðan að ég væri ekki með neina naglfasta skoðun í þessu efni og mér hefði komið til hugar heitið Evrópusamveldið. Einnig gæti verið til álita Evrópuríkjasambandið ef menn vildu nota sambandsheitið eða tengja það við Evrópuríki sem væri þá skammstafað ERS eða Evrópusambandsríkið sem væri nokkuð til samræmis við heitið á Bandaríkjunum og notað var á heiti Sovétríkjanna sálugu sem einnig voru með unions-nafnið í sínu heiti og Evrópusambandsríki væri þá skammstöfunin ESR. Hér kemur því margt kemur til álita.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir taldi að þetta væri kannski ekki mikið mál með skammstöfun á nafninu vegna þess að við værum svo dugleg að nefna hlutina fullu nafni. Það er, held ég, tæplega rétt að svo sé. Hér fer notkun skammstafana afar mikið í vöxt eins og við þekkjum úr gamla heitinu EB svoleiðis að ég held að við verðum líka að koma okkur upp a.m.k. einni viðurkenndri skammstöfun.
    Ég þakka virðulegum forseta fyrir þolinmæðina.