Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 00:36:02 (6624)

[00:36]
     Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég er búinn að hlýða á mál allnokkurra þingmanna í sambandi við fundarhaldið og hvert halda skuli. Það komu hér eindregin hvatningarorð frá formanni heilbr.- og trn. um að nú væri rétti tíminn til þess að gefa í og halda umræðunni áfram, enda var hann staddur á miðju vori. Nú hygg ég að það mundi þykja nokkur tíðindi austur í kjördæmi okkar hv. þm., þar sem snjóalög eru óvenjumikil og aðeins fáir dagar liðnir af sumri samkvæmt almanaki, að við séum staddir á miðju vori. En allt um það. ( GunnS: Þú horfir sjaldan til himins.) Ég horfi sjaldan til himins, upplýsir hv. þm. Hann fylgist væntanlega grannt með því. Ég veit ekki á hverju hann byggir það. En ég ætlaði nú eiginlega, virðulegi forseti, að taka undir með hv. þm. sem mælti hér að það væri full þörf á því að ræða þetta mál og mér er það nokkuð í mun vegna þess að ég var hér í ræðustól fyrr í dag, eða réttara sagt á síðasta degi, milli kl. 5 og 6 og reyndi þá ég að ná eyrum hv. þm., formanns heilbr.- og trn., sem og hæstv. ráðherra, heilbr.- og trmrh., en hvorugur þeirra var hér í þingsal og hvorugur var í þinghúsi og hvorugur svaraði kalli forseta að koma til þingfundar til þess að vera viðstaddir það mál sem við erum að ræða hér. ( GunnS: Fremur en hv. þm. í allt kvöld?) Og síðan koma þessir ( GunnS: Fremur en hv. þm. í allt kvöld?) Virðulegur forseti. Gæti forseti kannski hlutast til um það að hv. þm. kæmi í ræðustól á eftir til þess að flytja sitt mál. Það er einhver vanstilling hér. Ég hélt að hv. þm. mundi fagna því að það kemur hér einhver til að taka undir með honum því að ég á eftir að setja mig hér á mælendaskrá í þessu máli til þess að ná eyrum þessara hv. þm. sem voru ekki viðstaddir umræðu um það mál sem er á þeirra forræði og fyrst og fremst formaður heilbr.- og trn. víðs fjarri þegar málið var rætt hér á björtum degi og ekki finnanlegur til að koma til þings. Og sama gilti um ráðherrann. Og það mátti heyra á þeim sem stýrði þá fundi, hv. 2. þm. Norðurl. v., að hann taldi þetta ekki viðunandi háttalag og ég veit að sá forseti sem nú situr í forsetastóli mundi taka undir varðandi það sjónarmið. Síðan koma þessir hv. þingmenn hér, formaður heilbr.- og trn., um hálfeittleytið til þess að hvetja til þess að menn þreyi umræðuna til næsta dags, ef ég skildi hann rétt. ( GunnS: Steinar ná skammt úr glerhúsi.) Ekki skal standa á því ef færi er á því að ná samtali við þessa hv. þm. um þetta mál, þá ætla ég að nota mér það hvenær sem það verður, virðulegur forseti.