Ferill 8. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 8 . mál.


8. Frumvarp til laga



um yfirstjórn menningarstofnana.

Flm.: Svavar Gestsson.



I. KAFLI


Breyting á lögum nr. 38/1969, um Landsbókasafn Íslands.


1. gr.


    9. gr. laganna orðast svo:
    Forseti Íslands skipar landsbókavörð samkvæmt tillögu menntamálaráðherra. Landsbókavörður stýrir safninu undir yfirstjórn menntamálaráðuneytis.
    Heimilt er landsbókaverði að skipta safninu í deildir og að ákvarða skipulag þess í einstökum atriðum eftir því sem hann telur rétt á hverjum tíma í samræmi við fagleg markmið safnsins og fjárhagslegar forsendur þess.
    Landsbókavörður ræður bókaverði og aðra starfsmenn safnsins eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum.
    Fari landsbókavörður í leyfi skal staðgengill gegna störfum fyrir hann. Landsbókavörður ákveður í upphafi starfsferils síns hver verður staðgengill í forföllum hans.
    Landsbókavörður er ráðinn til fjögurra ára í senn. Heimilt er að ráða landsbókavörð í átta ár samfellt hið lengsta.

2. gr.


    Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein er orðast svo:
    Nú lætur landsbókavörður af störfum og skal þá ráðuneytið auglýsa stöðu landsbókavarðar lausa tafarlaust. Að liðnum hæfilegum umsóknarfresti fer dómnefnd yfir umsóknirnar. Dómnefndin skal þannig skipuð að ráðherra menntamála tilnefnir einn nefndarmann og skal hann vera formaður, Háskóli Íslands tilnefnir einn mann og einn nefndarmanna skal tilnefndur af stjórn Bókavarðafélags Íslands. Allir dómnefndarmenn skulu hafa þekkingu og reynslu á sviði bókasafnsfræði og á starfsemi bókasafna.
    Dómnefnd skilar áliti innan eins mánaðar frá því að umsóknarfrestur rennur út. Skal hún við úrskurð sinn taka tillit til faglegrar þekkingar og reynslu umsækjenda, m.a. af stjórnun. Dómnefnd skal raða umsækjendum, sem hæfir teljast, í tölusetta röð.
    Menntamálaráðherra gerir tillögu um skipan landsbókavarðar í samræmi við álit dómnefndarinnar.

II. KAFLI


Breyting á lögum nr. 66/1985, um Þjóðskjalasafn Íslands.


3. gr.


    1. gr. laganna orðast svo:
    Þjóðskjalasafn Íslands er sjálfstæð skjalavörslustofnun undir yfirstjórn menntamálaráðuneytisins.
    Heimilisfang þess er í Reykjavík.
    Kostnaður við rekstur safnsins greiðist úr ríkissjóði samkvæmt árlegum fjárveitingum í fjárlögum.

4. gr.


    Á eftir 2. gr. laganna koma tvær nýjar greinar er orðast svo:

    a. (3. gr.)
    Forseti Íslands skipar þjóðskjalavörð samkvæmt tillögu menntamálaráðherra. Þjóðskjalavörður annast daglegan rekstur og stjórn safnsins og kemur fram fyrir hönd þess út á við.
    Þjóðskjalavörður ræður aðra fasta starfsmenn Þjóðskjalasafns.
    Fari þjóðskjalavörður í leyfi skal staðgengill gegna störfum fyrir hann. Þjóðskjalavörður ákveður í upphafi starfsferils síns hver verður staðgengill hans í forföllum.
    Þjóðskjalavörður er ráðinn til fjögurra ára í fyrsta sinn. Heimilt er að ráða þjóðskjalavörð í átta ár samfellt hið lengsta.

    b. (4. gr.)
    Nú lætur þjóðskjalavörður af störfum og skal þá ráðuneytið auglýsa stöðu þjóðskjalavarðar lausa tafarlaust. Að liðnum hæfilegum umsóknarfresti fer dómnefnd yfir umsóknirnar. Dómnefndin skal þannig skipuð að ráðherra menntamála tilnefnir einn nefndarmann og skal hann vera formaður, Háskóli Íslands tilnefnir einn mann en einn nefndarmanna skal tilnefndur af stjórnarnefnd Þjóðskjalasafnsins. Allir dómnefndarmenn skulu hafa þekkingu og reynslu á sviði skjalavörslu og á starfsemi skjalasafna.
    Dómnefnd skilar áliti innan eins mánaðar frá því að umsóknarfrestur rennur út. Skal hún við úrskurð sinn taka tillit til faglegrar þekkingar og reynslu umsækjenda, m.a. af stjórnun. Dómnefnd skal raða umsækjendum, sem hæfir teljast, í tölusetta röð.
    Menntamálaráðherra gerir tillögu um skipan þjóðskjalavarðar í samræmi við álit dómnefndarinnar.

III. KAFLI


Breyting á þjóðminjalögum, nr. 88/1989.


5. gr.


    4. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Ársskýrslu þjóðminjaráðs skal birta með starfsskýrslu Þjóðminjasafns Íslands.

6. gr.


    Á eftir 2. gr. laganna kemur ný grein er orðast svo:
    Þjóðminjavörður hefur umsjón með þjóðminjavörslu í landinu öllu í umboði þjóðminjaráðs. Hann er framkvæmdastjóri þjóðminjaráðs og situr fundi þess ásamt safnstjóra Þjóðminjasafns Íslands. Safnstjóri Þjóðminjasafns Íslands er staðgengill þjóðminjavarðar, hvort sem um er að ræða forföll til lengri eða skemmri tíma.
    Forseti Íslands skipar þjóðminjavörð til fimm ára í senn að tillögu menntamálaráðherra. Að öðru jöfnu skal ráðinn maður með sérfræðilega menntun og reynslu á sviði þjóðminjavörslu og í fornleifafræði.
     Nú lætur þjóðminjavörður af störfum og skal þá ráðuneytið auglýsa stöðu hans lausa tafarlaust. Að liðnum hæfilegum umsóknarfresti fer dómnefnd yfir umsóknirnar. Dómnefndin skal þannig skipuð að ráðherra menntamála tilnefnir einn nefndarmann og skal hann vera formaður, Háskóli Íslands tilnefnir einn en einn nefndarmaður skal tilnefndur af þjóðminjaráði. Allir dómnefndarmenn skulu hafa þekkingu og reynslu á sviði þjóðminjavörslu og fornleifafræði og á starfsemi safna.
    Dómnefnd skilar áliti innan eins mánaðar frá því að umsóknarfrestur rennur út. Skal hún við úrskurð sinn taka tillit til faglegrar þekkingar og reynslu umsækjenda, m.a. af stjórnun. Dómnefnd skal raða umsækjendum, sem hæfir teljast, í tölusetta röð.
    Menntamálaráðherra gerir tillögu um skipan þjóðminjavarðar í samræmi við álit dómnefndarinnar.

7. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
    2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Þjóðminjaráð ræður safnstjóra Þjóðminjasafns. Safnstjóri Þjóðminjasafns skal ráðinn til fjögurra ára í fyrsta sinn. Heimilt er að ráða safnvörð Þjóðminjasafns í átta ár samfellt hið lengsta.
    2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Safnstjóri Þjóðminjasafns skipar, í samráði við þjóðminjavörð, deildarstjóra og sérfræðinga að fengnum tillögum þjóðminjaráðs, sbr. þó 5. mgr. 3. gr., og skulu þeir að öðru jöfnu hafa sérfræðimenntun á sviði þeirrar deildar sem þeir starfa við.

8. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt vegna þeirra atburða sem hafa átt sér stað við stjórn menningarstofnana á undanförnum missirum. Er þar m.a. um að ræða Þjóðminjasafnið þar sem ráðinn var þjóðminjavörður til tveggja ára án alls samráðs við starfsmenn safnsins. Var þá jafnvel gengið á svig við lög þar sem safnstjóri átti lögum samkvæmt að taka við starfi þjóðminjavarðar í forföllum hans. Í frumvarpi þessu er tekið á málefnum Þjóðminjasafnsins og tveggja annarra menningarstofnana. Fjallað er um Landsbókasafnið, þá Þjóðskjalasafnið og loks Þjóðminjasafnið.
    Vel má hugsa sér að taka fleiri menningarstofnanir inn í svona frumvarp ef samkomulag næst um afgreiðslu þess. Í því sambandi koma mörgum vafalaust í hug stofnanir eins og Þjóðleikhúsið og Ríkisútvarpið. Um Þjóðleikhúsið gilda sérstök lög og þar er gert ráð fyrir skipan Þjóðleikhússtjóra í takmarkaðan tíma í senn. Hefur sú skipan gefist vel. Engu að síður er nauðsynlegt að tryggja faglega skipan Þjóðleikhússtjóra betur en gert er í gildandi lögum. Þá er augljóst að lögum um Ríkisútvarpið þarf að breyta. Fráleitt er að ráðherra geti hlutast til um ráðningar einstakra starfsmanna útvarpsins með þeim hætti sem núverandi menntamálaráðherra hefur gert í blóra við aðra starfsmenn stofnunarinnar. Flutningsmaður telur að eðlilegast væri að afnema allar ráðherraskipanir starfsmanna Ríkisútvarpsins, annarra en útvarpsstjóra, en um skipan hans þyrfti að setja í lög sérstakar hæfniskröfur líkt því sem um er að ræða í þessu frumvarpi. Það mun ætlan ríkisstjórnarinnar að taka fyrir í frumvarpi málefni Ríkisútvarpsins og verður að vænta þess að þá gefist kostur á að ræða málið sérstaklega á Alþingi.
    Fyrirmyndin að frumvarpi því sem hér er flutt er að nokkru leyti í breytingum á lögum um Háskóla Íslands sem samþykkt voru í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þá hafði Háskólinn lent í hremmingum einkavinavæðingar Sjálfstæðisflokksins eins og Ríkisútvarpið og Þjóðminjasafnið nú. Þess vegna var flutt frumvarp á vegum þeirrar ríkisstjórnar sem síðast sat hér á landi um að takmarka verulega ráðningarvald ráðherra. Hefur sú skipan mála gefist vel. Það ber að taka fram að um það mál var alger samstaða á Alþingi á sínum tíma utan það að einn þingmanna Sjálfstæðisflokksins fann að málatilbúnaði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er gert ráð fyrir breytingu á 9. gr. laga um Landsbókasafn Íslands, nr. 38/1969, og miðar hún að því að gera embætti landsbókavarðar sjálfstæðara. Landsbókavörður mun áfram stýra safninu undir yfirstjórn menntamálaráðuneytis en vera sjálfráður um skiptingu safnsins í deildir og skipulag þess í einstökum atriðum. Embættisfærsla hans skal þó vera í samræmi við fagleg markmið safnsins og fjárhagslegar forsendur þess. Enn fremur er gert ráð fyrir því að landsbókavörður, í stað menntamálaráðherra, ráði bókaverði og aðra starfsmenn eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum. Þá er lagt til að landsbókavörður skuli hafa lokið prófi bókasafnsfræðings en í lögunum eru ekki gerðar kröfur til menntunar landsbókavarðar.
    Í greininni er jafnframt lagt til að landsbókavörður tilnefni í upphafi starfsferils síns staðgengil sem gegna mun starfi landsbókavarðar. Loks verði landsbókavörður ráðinn til fjögurra ára í fyrsta sinn, en heimilt sé að ráða hann í átta ár samfellt hið lengsta.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að ný grein bætist við lög um Landsbókasafn Íslands, nr. 38/1969, um hvernig fara skuli með stöðuveitingu landsbókavarðar. Er gert ráð fyrir að sérstök dómnefnd fari yfir umsóknir um stöðuna og leggi mat sitt á þær. Nefndin skili ráðherra áliti sem gerir tillögu um skipan landsbókavarðar í samræmi við álit dómnefndarinnar. Kveðið er og á um að dómnefndarmenn hafi allir reynslu og þekkingu á því sviði sem um er að ræða.

Um 3. gr.


    Hér er gerð tillaga um breytingu á 1. gr. laga um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985, í tengslum við breytingar sem lagðar eru til í 4. gr. frumvarpsins, þannig að tvær síðustu málsgreinar 1. gr. laganna breytist og verði að nýrri grein.

Um 4. gr.


    Lagt er til að á eftir 2. gr. laga um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985, komi tvær nýjar greinar um skipun þjóðskjalavarðar og verkefni hans.
    Efni a-liðar (er verði 3. gr. laganna) er ekki með öllu ókunnugt því að efni tveggja málsgreina er að hluta til fengið úr 1. gr. laganna. Þannig er gert ráð fyrir að forseti Íslands skipi áfram þjóðskjalavörð, hann annist daglegan rekstur og stjórn safnsins og komi fram fyrir hönd þess út á við.
    Nýmæli ákvæðsins felast hins vegar í því að þjóðskjalavörður skipi sjálfur skjalaverði í stað menntamálaráðherra áður. Enn fremur verði kveðið á um staðgengil þjóðskjalavarðar (líkt og staðgengil landsbókavarðar eins og lagt er til í 1. gr. frumvarpsins), svo og ráðningartíma þjóðskjalavarðar. Allt miðar þetta að því að gera embætti þjóðskjalavarðar sjálfstæðara, bæði innan stofnunarinnar og gagnvart ráðherra.
    Í b-lið greinarinnar (er verði 4. gr. laganna) eru einnig nýmæli. Þar er kveðið á um hvernig fara skuli með ráðningu þjóðskjalavarðar. Sama málsmeðferð verði viðhöfð þar og við ráðningu landsbókavarðar, sérstök dómnefnd fari yfir umsóknir sem skili áliti til ráðherra sem geri aftur tillögu um skipan í embættið í samræmi við vilja nefndarinnar.

Um 5. gr.


    Í III. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á þjóðminjalögum, nr. 88/1989. Lúta þær að meginefni að því sama og breytingarnar sem lagðar hafa verið til í frumvarpi þessu á lögum um Landsbókasafn Íslands og lögum um Þjóðskjalasafn Íslands.
    Í 5. gr. er lögð til breyting á 4. mgr. 2. gr. laganna sem fjallar um embætti þjóðminjavarðar. Gert er ráð fyrir að kveðið verði á um það embætti í sérstakri grein, sbr. 6. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.


    Hér er kveðið á um embætti þjóðminjavarðar. Í 1. mgr. er ekki að finna efnislegar breytingar frá núgildandi lögum (þ.e. 4. mgr. 2. gr. þjóðminjalaga) fyrir utan það að lagt er til að skýrt verði mælt fyrir um að safnstjóri Þjóðminjasafns sé staðgengill þjóðminjavarðar, hvort sem um er að ræða forföll til lengri eða skemmri tíma, svo og að þjóðminjavörður hafi menntun og reynslu á sviði þjóðminjavörslu og í fornleifafræði. Í 2.–5. mgr. eru lagðar til sambærilegar breytingar og í öðrum greinum frumvarpsins er lúta að landsbókaverði og þjóðskjalaverði, um málsmeðferð við ráðningu þjóðminjavarðar og ráðningartíma hans.

Um 7. gr.


    Hér er lögð til breyting á 5. gr. þjóðminjalaga er lýtur að ráðningu safnstjóra Þjóðminjasafnsins. Ráðningin verði tímabundin og alfarið í höndum þjóðminjaráðs. Þá er lagt til að safnstjóri Þjóðminjasafns ráði deildarstjóra og sérfræðinga safnsins — í samráði við þjóðminjavörð — í stað menntamálaráðherra áður. Breytingin er í samræmi við það sem lagt hefur verið til í öðrum greinum frumvarpsins um að gera yfirstjórn menningarstofnana sjálfstæðari.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.