Ferill 70. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 70 . mál.


73. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, með síðari breytingum.

Flm.: Guðrún Helgadóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Svavar Gestsson.



1. gr.


    Lokamálsliður e-liðar 1. gr., orðin „Leyfishafi greiði í ríkissjóð 20% af nettóársarði í einkaleyfisgjald,“ fellur brott.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


     Frumvarpstextinn skýrir sig sjálfur en rökin fyrir breytingartillögunni eru þessi:
     Þegar Happdrætti Háskóla Íslands var stofnað með lögum nr. 44/1933 var peningahappdrætti nýjung á Íslandi sem aðrir höfðu ekki heimild fyrir. Vegna þessa einkaleyfis Háskólans til rekstrar peningahappdrættis þótti eðlilegt að ríkissjóður nyti í einhverju hluta arðsins af svo ábatavænlegu fyrirtæki sem happdrættið hefur svo sannarlega verið en eins og kunnugt er hefur Háskólinn fjármagnað húsakost sinn að verulegu leyti án fjárframlaga úr ríkissjóði.
     Þetta einkaleyfi hefur ekkert gildi lengur þar sem æ fleiri aðilar hafa nú fengið leyfi til að reka peningahappdrætti og þar með veitt Háskóla Íslands harða samkeppni án þess að þurfa að greiða sams konar hluta arðsins í ríkissjóð. Eins og að líkum lætur hefur arður af Happdrætti Háskólans farið þverrandi eftir því sem peningahappdrættin urðu fleiri og því verður að teljast ósanngjarnt að það eitt greiði hluta arðsins til ríkissjóðs. Því er lagt til að framangreint ákvæði verði úr lögum fellt.