Ferill 73. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 73 . mál.


76. Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir til að tryggja vegasamband hjá Jökulsárlóni.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Steingrímur J. Sigfússon, Jóhann Ársælsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta hefja undirbúning aðgerða til að tryggja vegasamband á hringveginum hjá Jökulsárlóni í Austur-Skaftafellssýslu. Kostnaður við athuganir og aðgerðir í þessu skyni greiðist af óskiptu vegafé. Skilað verði skýrslu um málið til Alþingis fyrir 1. maí 1994.

Greinargerð.


    Tillaga sama efnis var flutt á 116. löggjafarþingi en varð þá ekki útrædd. Meginforsendur málsins eru óbreyttar og því er tillagan nú endurflutt. Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi í ágúst 1992 var lýst stuðningi við tillöguna og á aðalfundi SSA í ágúst sl. var ályktað eftirfarandi um „ótryggt vegasamband við Jökulsá á Breiðamerkursandi“:
     „Aðalfundur SSA, haldinn á Breiðdalsvík 26. og 27. ágúst 1993, lýsir áhyggjum yfir því alvarlega ástandi sem gæti skapast vegna ágangs sjávar við brúna á Jökulsá á Breiðamerkursandi og minnir alþingismenn á samþykkt frá síðasta aðalfundi um þetta efni.“
     Þá er nú bætt við málið nýju fylgiskjali (fskj. III) sem er yfirlit frá Vegagerð ríkisins með niðurstöðum mælinga varðandi rof í árfarvegi og á ströndinni við útfall Jökulsár á Breiðamerkursandi. Einnig er í fylgiskjali IV að finna brot úr útboðslýsingu ásamt uppdrætti sem sýnir rofvörn sem nú er unnið að í árfarveginum.
     Sem kunnugt er hafa orðið miklar breytingar á afstöðu láðs og lagar við Jökulsárlón í Austur-Skaftafellssýslu. Strandlínan hefur færst inn sem nemur 700 m frá því í byrjun aldarinnar eða sem svarar 8,5 m á ári að meðaltali. Eru nú aðeins 300 m frá fjörubakka að hengibrúnni á þjóðvegi sem byggð var á árunum 1966–1967. Þetta segir hins vegar ekki alla sögu því að breytingar hafa einnig orðið á inn- og útfalli úr jökullóninu norðan brúar. Við óhagstæðar aðstæður, stórstreymi og brim, getur hér orðið hraðfara rof sem veikir undirstöður brúarinnar löngu áður en strandlínan hefur náð henni sem líkur eru á að geti orðið á nokkrum áratugum.
    Jökulsárlón er nú orðið um 12,5 ferkílómetrar á stærð og fer stækkandi því að Breiðamerkurjökull er stöðugt að hopa. Nýlegar mælingar á þykkt jökulsins hafa leitt í ljós að hann liggur í lægð sem er undir sjávarmáli á um 20 km vegalengd til norðurs. Fer dýpi vaxandi innan við núverandi jökulrönd og nær mest rúmlega 200 m undir sjávarmál. Ef jökullinn hyrfi væri þarna um 20 km langur og 2–4 km breiður fjörður sem næði inn á milli Esjufjalla og Svöludals norðvestur af Þverártindsegg. Það er því borin von að með áframhaldandi hopi jökulsins skapist aðstæður til brúargerðar norðan við núverandi jökullón.
    Hér er svo stórt og mikilsvert mál á ferðinni að nauðsynlegt er að kanna í tæka tíð hversu við skuli brugðist og hvernig standa eigi að framkvæmdum, tæknilega og fjárhagslega. Í tillögunni kemur fram það viðhorf að eðlilegt sé að greiða kostnað vegna athugana og framkvæmda síðar af óskiptu vegafé þar eð hér er um stórmál að ræða sem varðar landið allt. Á sínum tíma voru vegaframkvæmdir á Skeiðarársandi kostaðar með átaki sem allir landsmenn stóðu að.
    Það voru heimamenn sem fyrstir vöktu athygli á því hversu hraðfara breytingar eiga sér hér stað. Í janúar 1990 kynnti Fjölnir Torfason á Hala, sem á hlut að ferðaþjónustu við Jökulsárlón, opinberum stofnunum niðurstöður af mælingum sínum á landbrotinu. Þáverandi samgönguráðherra svaraði í framhaldi af því fyrirspurn um málið á Alþingi og beitti sér fyrir fyrstu aðgerðum. Síðan hafa Vegagerð ríkisins og fleiri fylgst með þróun á svæðinu og rætt hefur verið hvernig við skuli bregðast. Veglína austan brúar hefur þegar verið færð til og var sumarið 1992 styst tæpa 140 m frá fjörubakka en var áður í 56 m fjarlægð.
    Með tillögu þessari er birt sem fylgiskjal grein eftir Helga Jóhannesson, verkfræðing hjá Vegagerð ríkisins, og er þar dreginn fram margháttaður fróðleikur og reifaðar fyrstu hugmyndir um æskileg viðbrögð. Enn fremur er birt fjarvíddarmynd af botni Breiðamerkurjökuls og nágrennis samkvæmt íssjármælingum Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands.
    Á það skal minnt að umrætt landbrot kemur við fleiri þætti en vegasamband. Til dæmis liggja raflínur og ljósleiðari um eiðið milli Jökulsárlóns og sjávar. Þarf að taka tilllit til alls þessa við málsmeðferð framvegis.
    Með tillögunni er gert ráð fyrir að hið fyrsta verði mörkuð stefna af hálfu stjórnvalda varðandi aðgerðir og að skýrsla ríkisstjórnar um málið liggi fyrir eigi síðar en 1. maí 1994.


Fylgiskjal I.


Helgi Jóhannesson:


Landbrot framan við brúna yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi.


(Úr Tæknivísi 1992.)



(Repró í Gutenberg, bls. 615-618 í 3. hefti 1992.)


(4 síður.)




Fylgiskjal II.


Fjarvíddarmynd af botni Breiðamerkurjökuls og nágrennis


samkvæmt íssjármælingum Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands.


(Byggt á óbirtum gögnum frá Helga Björnssyni jarðeðlisfræðingi.)




(Repró í Gutenberg, bls. 619 í 3. hefti 1992.)





Fylgiskjal III.


Vegagerð ríkisins:

Niðurstöður mælinga á rofi í árfarvegi og á ströndinni


við útfall Jökulsár á Breiðamerkursandi.


(8. október 1993.)



(Repró, 1 síða.)



Helgi Jóhannesson,


Vegagerð ríkisins.




(Repró 2 síður.)





Fylgiskjal IV.


Vegagerð ríkisins:

Úr útboðslýsingu á rofvörn í Jökulsá á Breiðamerkursandi.


(Mars 1993.)




(Repró, 4 síður. Er hægt að gera 3 síður úr þeim?)