Ferill 12. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 12 . mál.


130. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um fyrirhugaðar breytingar á rekstri grunnskóla.

  1. Hefur verið gengið frá samningum milli ríkis og sveitarfélaga um fyrirhugaðan flutning á rekstri grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga árið 1995?
    Skipaður hefur verið sérstakur starfshópur til að meta kostnað af tilfærslu grunnskólans til sveitarfélaga og hvernig sveitarfélögum verði tryggðar auknar tekjur til reksturs þess hluta grunnskólans sem enn er í höndum ríkisins. Hóp þennan skipa fulltrúar tilnefndir af félagsmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Kennarasambandi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Formaður starfshópsins er Sturla Böðvarsson alþingismaður sem er skipaður af menntamálaráðherra án tilnefningar.

    2. Hver var heildarkostnaður ríkisins við rekstur grunnskóla árið 1992 og fyrstu sex mánuði ársins 1993? Hver hefði hann orðið ef grunnskólalögum væri að fullu framfylgt?
    Heildarkostnaður ríkisins 1992 við rekstur grunnskóla var 5.206.400 þús. kr., þar af kostaði almenni grunnskólinn, þ.e. grunnskólaumdæmi og Æfingaskóli KHÍ, 4.456.058 þús. kr. Reikna má með að kostnaðarauki ríkissjóðs á árinu 1992 hefði orðið a.m.k. 350 millj. kr. ef ákvæði í grunnskólalögum um lágmarkskennslutímafjölda á hvern nemanda og ákvæði um leyfilegan hámarksfjölda nemenda í 1. og 3. bekk hefðu verið í gildi.
    Heildarkostnaður ríkissjóðs fyrstu sex mánuði ársins 1993 var 2.530.531 þús. kr., þar af kostaði almenni grunnskólinn, þ.e. grunnskólaumdæmi og Æfingaskóli KHÍ, 2.178.028 þús. kr. Reikna má með að kostnaðarauki ríkissjóðs á fyrri hluta ársins 1993 hefði orðið a.m.k. 195 millj. kr. ef fyrrgreind ákvæði grunnskólalaga hefðu komið til framkvæmda.

    3. Munu lífeyrisskuldbindingar ríkisins vegna kennara og annarra starfsmanna skóla færast yfir á sveitarfélögin?
    Um þessi mál mun fjalla sérstakur starfshópur sem ætlað er að gera tillögur um hvernig fara skuli með áunnin starfstengd réttindi kennara hjá ríkinu, þar á meðal lífeyrisréttindi. Tilnefningar hafa verið að berast í hópinn og mun hann hefja störf á næstunni.

    4. Ef svo er, hverjar eru áætlaðar lífeyrisgreiðslur til kennara og starfsmanna skóla næstu tíu árin?
    Vísað er til svars við þriðju spurningu. Enn er ekki ljóst hvort skuldbindingar ríkisins verði færðar yfir til sveitarfélaga né með hvaða hætti ef af yrði.

    5. Hvaða tekjustofnar munu færast frá ríki til sveitarfélaga við það að sveitarfélögin yfirtaka rekstur skólanna?
    Það er hlutverk starfshópsins, sem nefndur var í svari við fyrstu spurningu, að gera tillögur í þessu efni.

    6. Er við ákvörðun um aukna tekjustofna sveitarfélaganna í tengslum við yfirtöku þessa rekstrar miðað við framkvæmd grunnskólalaga eins og hún er nú eða þann kostnað sem af hlytist ef grunnskólalögum væri að fullu framfylgt?
    Á nýbyrjuðu þingi mun verða lagt fram frumvarp til laga um grunnskóla. Gera má ráð fyrir að kostnaðarviðmið við yfirfærslu á rekstri grunnskóla til sveitarfélaga verði byggð á nýjum grunnskólalögum.