Ferill 207. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 207 . mál.


231. Tillaga til þingsályktunar


um græn símanúmer hjá ráðuneytum og stofnunum ríkisins.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Egill Jónsson, Vilhjálmur Egilsson,

Matthías Bjarnason, Tómas Ingi Olrich,

Sturla Böðvarsson, Eggert Haukdal.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að sett verði upp græn símanúmer í öllum ráðuneytum Stjórnarráðsins og helstu stofnunum ríkisins svo að auðveldara og hagkvæmara verði fyrir þá landsmenn sem búa utan höfuðborgarsvæðisins að ná til æðstu starfsmanna stjórnsýslunnar með sín mál.

Greinargerð.

     Mikil breyting hefur orðið á uppbyggingu gjaldskrár fyrir símtöl innan lands. Taxti fyrir langlínusamtöl hefur lækkað mikið, en taxti fyrir staðarsímtöl hækkað lítillega. Af þessum sökum lækkaði símakostnaður innan lands að raungildi um 13% frá meðaltali 1987 til ársins 1992 ef miðað er við framfærsluvísitölu. Þegar verst lét var hlutfall innanbæjarsamtala og hinna dýrustu langlínusamtala allt að einum á móti ellefu en er nú komið niður í einn á móti fjórum. Jafnframt hefur gjaldflokkssvæðum verið breytt til þess að jafna símakostnað notenda.
     Engu að síður er það svo að símakostnaður er almennt hærri úti á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Eðli málsins samkvæmt þurfa landsbyggðarbúar meira að nota langlínusamtöl sem eru dýrari en staðarsímtölin. Verulegur hluti allrar almennrar þjónustu, jafnt opinberrar sem annarrar þjónustu, er staðsettur á höfuðborgarsvæðinu og þangað þarf landsbyggðarfólk tíðum að leita, margvíslegra erinda. Af því hlýst töluverður kostnaður sem um munar í pyngju fólks og fyrirtækja á landsbyggðinni.
     Þetta á ekki síst við um erindi sem menn reka gagnvart opinberum stofnunum og ráðuneytum. Ekki er óalgengt að fólk þurfi að hringja mörg símtöl áður en niðurstaða fæst af málaleitan þess. Algengt er að fólk þurfi að bíða eftir viðtali með ærnum tilkostnaði.
     Fyrir allnokkrum árum tók Póstur og sími að bjóða upp á svokölluð „græn símanúmer“. Þegar fólk hringir í slík númer greiðir það aðeins fyrir samtölin sem þau færu fram innan bæjar eða á taxta staðarsímtala. Mismuninn greiða eigendur viðkomandi númera. Í upphafi varð vart við nokkurn áhuga á þessu fyrirkomulagi, en því miður hefur allt of hægt gengið að útbreiða það.
    Samkvæmt upplýsingum frá Pósti og síma eru 73 slík græn símanúmer í notkun hér á landi og eru þau öll staðsett á höfuðborgarsvæðinu, allflest í Reykjavík. Þá eru dæmi um að erlendir aðilar hafi boðið upp á slíka þjónustu hér á landi.
     Því miður er það svo að almenningur nýtir þessa möguleika ótrúlega lítið. Á því eru augljósar skýringar. Þessi kostur hefur almennt ekki verið nægjanlega kynntur og fyrirtæki og stofnanir vekja sjaldnast mikla athygli á því að upp á hann sé boðið. Öðru máli gegnir í þeim takmörkuðu tilvikum þar sem rækileg athygli hefur verið vakin á hinum „grænu símanúmerum“. Þar er notkunin mun meiri.
     Með því að fara yfir meðfylgjandi lista um úthlutun grænna númera kemur í ljós að sárafáar ríkisstofnanir bjóða upp á þessa símaþjónustu. Af honum má sjá að aðeins sex stofnanir ríkisins gefa viðskiptavinum sínum kost á að nota græn númer. Nokkrar stofnanir skera sig þó úr og bjóða fram þessa þjónustu (sjá fylgiskjal). Hvað varðar Stjórnarráðið sérstaklega hafa eingöngu ráðuneyti samgöngumála og landbúnaðar yfir grænum símanúmerum að ráða. Alþingi, sjálf löggjafarsamkoman, hefur ekki grænt símanúmer upp á að bjóða. Þá vekur það athygli að hvorugur ríkisbankanna og enginn sparisjóður býður viðskiptavinum sínum þessa þjónustu, en skylt er að geta þess að menn eiga þess kost að hringja í grænt símanúmer vilji þeir nota sér þjónustusíma banka og sparisjóða er veitir upplýsingar um stöðu innlánsreikninga.
     Það ætti og að vera metnaðarmál þeirra einkafyrirtækja, sem eiga viðskipti út um landsbyggðina, að gefa viðskiptavinum sínum kost á að hringja í græn símanúmer. Er það vel að ýmis þeirra hafa sýnt þessu skilning og það jafnvel meiri skilning en ríkisstofnanir almennt.
     Því er tvímælalaust ástæða til að hvatt sé til þess að ríkisstofnanir og ráðuneyti komi sér undantekningarlaust upp grænum símanúmerum svo að auðveldara verði og hagkvæmara fyrir landsmenn sem búa utan höfuðborgarsvæðisins að ná til æðstu starfsmanna stjórnsýslunnar með sín mál. Ástæða er líka til þess að undirstrika að slíkt fyrirkomulag á vitaskuld að ríkja á útibúum og skrifstofum þessara stofnana sem aðsetur hafa utan höfuðstöðva þeirra, svo sem hjá Ríkisútvarpinu og Vegagerð ríkisins svo dæmi séu nefnd.



Fylgiskjal.

UPPLÝSINGAR FRÁ PÓSTI OG SÍMA


Yfirlit yfir úthlutun á grænum númerum.

(1. nóvember 1993.)


Rétthafar

Græn númer


Íslenskur hugbúnaður, Sigluvogi 14     
996000

Ísól hf., Ármúla 17     
996123

Söludeild sérbúnaðar, Ármúla 27     
996360

Söludeild, Kringlunni 8–12     
996690

Reiknistofa bankanna, Kalkofnsvegi 1     
996444

Rekstrarvörur, Réttarhálsi 2     
996554

Byggðastofnun, Rauðarárstíg 25     
996600

Lánasjóður íslenskra námsmanna, Laugavegi 77     
996665

Þjónustumiðstöð ríkisverðbréfa, Hverfisgötu 6     
996699

Íslandsbanki, Kringlunni 7     
996786

Landbúnaðarráðuneytið, Rauðarárstíg 25     
996800

Samgönguráðuneytið, Tryggvagötu     
996900

Skipulag ríkisins, Laugavegi 166     
996100

Ístækni hf., Ármúla 34     
996891

Húsnæðisstofnun ríkisins, Suðurlandsbraut 24     
996969

Johan Rönning hf., Sundaborg 15     
996400

Álnabær, Síðumúla 32     
996770

Goði hf., Kirkjusandi við Laugarnesveg     
996366

Sindra-Stál hf., Borgartúni 31     
996222

Bjarni Þ. Halldórsson, umboðs- og heildverslun, Skútuvogi 11     
996277

Byggingavöruverslun Kópavogs, Nýbýlavegi 6     
996410

Græna bókalínan sf., Hafnarstræti 5     
996633

Nýherji hf., Skaftahlíð 24     
996977

Vinalínan, Tjarnargötu 35     
996464

Vegagerð ríkisins, Borgartúni 5–7     
996314

Vegagerð ríkisins, vegaeftirlit, Borgartúni 5–7     
996315

Vegagerð ríkisins, vegaeftirlit, símsvari, Borgartúni 5–7     
996316

Ferðaskrifstofan Úrval-Útsýn, Lágmúla 4     
996300

Póstur og sími, umdæmi V, Kirkjustræti     
996363

G.J. Fossberg hf., vélaverslun, Skúlagötu 63     
996560

Íslensk getspá, Íþróttamiðstöðinni Laugardal     
996511

Hjálpartækjabanki RKÍ og Sjálfsbjargar, Hátúni 12     
996233

Kvennaráðgjöfin, Vesturgötu 3     
996215

Skipstjóra- og stýrimannafélagið Aldan, Borgartúni 18     
996660

Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Suðurlandsbraut 30     
996665

Málning hf., Funahöfða 7     
996577

Hagkaup, póstverslun, Kringlunni 8–12     
996680

Íslenskar getraunir, Íþróttamiðstöðinni Laugardal     
996888

Brunamálastofnun ríkisins, Laugavegi 59     
996350

Heilbrigðisráðgjöf í fyrirtækjum, Skipholti 50b     
996500

Umboðsmaður Alþingis, Rauðarárstíg 27     
996450

K. Richter hf., umboðs- og heildverslun, Smiðsbúð 5, Garðabæ     
996999

Strengur hf., Stórhöfða 15     
996130

Skeljungur hf., Suðurlandsbraut 4     
996036

Íslenska útvarpsfélagið, upplýsingar og áskrift, Lynghálsi 5     
996777

Rafiðnaðarsamband Íslands, Háaleitisbraut 68     
996433

Neytendasamtökin, Skúlagötu 26     
996250

Póstur og sími, upplýsingasími     
997000

Íslenska verkfærasalan hf., Engihjalla 11, Kópavogi     
996799

Morgunblaðið, Kringlunni 3     
996122

Þjóðleikhúsið, Hverfisgötu 19     
996160

Blómaheildsalan hf., Réttarhálsi 2     
996860

Frjáls fjölmiðlun hf., Þverholti 11     
996270


Rétthafar
Græn númer    


Frjáls fjölmiðlun hf., Þverholti 11     
996272

Ísboltar hf., Strandgötu 75, Hafnarfirði     
996965

Miðlun hf., Ægisgötu 7     
996262

Egill Guttormsson, Fjölval hf., Mörkinni 1     
996650

Vélstjórafélag Íslands, Borgartúni 18     
996933

O. Ellingsen hf., Grandagarði 2     
996288

Húsasmiðjan hf., Súðavogi 3     
996688

Löggildingarstofan, Síðumúla 13     
996811

Mjólkursamsalan, Emmess-ísgerð, Brautarholti 16     
996200

Hótel Saga, Hagatorgi     
996099

Rauðakrosshúsið, Tjarnargötu 35     
996622

Hótel Loftleiðir, Reykjavíkurflugvelli     
996322

Hótel Esja, Suðurlandsbraut 2     
996220

Mál og menning, bókaklúbbar, Síðumúla 7–9     
996655

Ríkisskattstjóri, Laugavegi 166     
996311

Bifreiðaskoðun Íslands hf., Hesthálsi 6–8     
996333

Samtök um Kvennaathvarf     
996205

Skandia Ísland hf., Laugavegi 170     
996290

ÍM Gallup á Íslandi, Skeifunni 11b     
996979

Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5     
996692




(Repró, 3 síður.)