Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 232 . mál.


260. Frumvarp til laga


um breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 82/1989, með síðari breytingum.

Flm.: Svavar Gestsson.


1. gr.

    4. tölul. 17. gr. laganna orðast svo:
    Sjálfseignar-, leigu- og búseturéttaríbúðir fyrir aldraða, ætlaðar öldruðum sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu. Þar skal vera völ á sömu þjónustu og um getur í 1. tölul. 18. gr.

2. gr.

    Á undan 30. gr. laganna kemur ný grein er verður 30. gr. og orðast svo:
    Óheimilt er í auglýsingum, sölumennsku eða kynningu að nota heiti úr lögum þessum yfir þá þjónustu sem ætlunin er að veita nema að fengnu samþykki samstarfsnefndar um málefni aldraðra.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Mikið hefur verið byggt af húsnæði í þágu aldraðra á síðustu árum eða frá því að lögin um Framkvæmdasjóð aldraðra voru sett á sínum tíma. Hafa orðið straumhvörf í byggingu hjúkrunarrýmis fyrir gamalt fólk á þessum tíma. Enn skortir þó mikið á að nægilegt hjúkrunarrými sé til og enn vantar sárlega um 150 pláss fyrir gamalt fólk í Reykjavík einni.
    Á sama tíma og reist hafa verið og opnuð hjúkrunarheimili fyrir aldraða um allt land hafa einnig verið byggðar íbúðir „fyrir aldraða“. Þessar íbúðir eru þó ekki fyrir aldraða nema að nafninu til. Að vísu er þó nokkuð um íbúðir sem beint tengjast þjónustu við aldraða, t.d. á Reykjavíkursvæðinu. En þess eru einnig mörg dæmi að fólk kaupi sér íbúðir fyrir aldraða sem í raun tengjast þjónustukerfi við aldraða aðeins lauslega en eru ekki sérstakur hluti af því. Hafa byggingameistarar notað aðstöðu sína í Reykjavík sérstaklega til að byggja svokallaðar íbúðir fyrir aldraða. Kveður svo rammt að þessu að ríkisstjórnin hefur neyðst til að horfast í augu við vandann og hefur félagsmálaráðherra lagt fram skýrslu um málið. Er hún birt sem fylgiskjal með frumvarpinu.
    Á síðasta þingi komu fram tillögur um breytingar á lögum um málefni aldraðra í því skyni að koma í veg fyrir að byggingaraðilar misnotuðu aðstöðu sína á þennan hátt. Þáverandi heilbrigðisráðherra tók þeim hugmyndum vel í orði. Á lista ríkisstjórnarinnar yfir forgangsmál kemur hins vegar ekki fram að breyta eigi þessum lögum. Þess vegna er frumvarp þetta flutt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir breytingu á 4. tölul. 17. gr. laganna. Markmiðið með breytingunni er að skýrt verði kveðið á um hvaða íbúðir teljist sjálfseignar-, leigu- og búseturéttaríbúðir fyrir aldraða samkvæmt lögunum. Þannig verði tryggt að þær tengist ekki einungis þeirri opinberu þjónustu sem öldruðum býðst, heldur séu hluti af þjónustukerfinu.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að ný grein bætist við lögin sem felur í sér nýmæli. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að þeir sem hyggjast auglýsa þjónustu, sem kveðið er á um í lögunum, sæki um sérstaka heimild í því skyni til samstarfsnefndar um málefni aldraðra. Með því á að girða fyrir hvers kyns misnotkun.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.



BYGGINGARKOSTNAÐUR ÍBÚÐA FYRIR ALDRAÐA

Skýrsla starfshóps á vegum félagsmálaráðuneytis.

(Júlí 1993.)


    Starfshópur sá, sem félagsmálaráðherra skipaði 14. ágúst 1991 til að gera úttekt á byggingarkostnaði og söluverði þjónustuíbúða fyrir aldraða, hefur lokið störfum og skilað meðfylgjandi skýrslu. Í skýrslunni er gerður samanburður á byggingarkostnaði nærri 300 íbúða fyrir aldraða sem byggðar voru á vegum níu framkvæmdaraðila víðs vegar um landið. Þessir byggingaráfangar voru mismunandi stórir og einnig var gerður samanburður við byggingarkostnað félagslegra íbúða. Þá er einnig að finna í skýrslunni umfjöllun um eignafyrirkomulag og rekstur íbúðanna auk tillagna og leiðbeininga til framkvæmdaraðila og væntanlegra íbúðakaupenda varðandi atriði er lúta að kostnaði og rekstri íbúða fyrir aldraða.
    Samstaða var í starfshópnum um allar tillögur og ábendingar sem fram koma í skýrslunni.

Virðingarfyllst,


Ingi Valur Jóhannsson, formaður.

Ásgeir Jóhannesson.

Gunnar S. Björnsson.

Jóna Ósk Guðjónsdóttir.

Höskuldur Sveinsson.







(Repró, 18 síður.)



VIÐAUKI


Yfirlit yfir íbúðir fyrir aldraða.

(Júlí 1993.)


(Repró, 4 síður.)