Ferill 240. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 240 . mál.


275. Tillaga til þingsályktunar


um skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar.

Flm.: Guðrún J. Halldórsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson,

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Kristín Einarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að setja reglur um að:
    lágmarkskunnátta í íslensku sé fyrir hendi hjá umsækjanda um ríkisborgararétt þannig að annaðhvort sé lagt fram gilt vottorð um íslenskukunnáttu eða umsækjandi sýni fram á að hann hafi sótt nám í íslensku máli,
    hinu opinbera sé skylt að sjá til þess að í boði sé nám í íslensku fyrir þá sem ætla sér að setjast hér að,
    undanþiggja megi fólk vegna aldurs eða sjúkdóma.

Greinargerð.

    Það er alkunna að á undanförnum 13 árum hefur nýbúum á Íslandi fjölgað mjög mikið og tala þeirra hartnær tvöfaldast. Mest hefur fjölgun þeirra orðið sem koma frá framandi málsvæðum. Um áramótin 1992–93 voru nýbúar án íslensks ríkisfangs allmargir eða 640 frá Austur-Evrópu, 164 frá Suður-Ameríku, 160 frá Suður-Evrópu, 207 frá Afríku og 927 frá Asíu.
    Líklegt má telja að þessar tölur hafi hækkað nokkuð en að meðaltali hefur útlendingum, sem setjast hér að án íslensks ríkisfangs, fjölgað um 190 á ári undanfarin ár. Flestir þeir sem setjast hér að sækja um íslenskan ríkisborgararétt. Til þess að fá hann þurfa umsækjendur að uppfylla ýmis skilyrði.
    Þessi þingsályktunartillaga lýtur að einum þætti þessara skilyrða, þ.e. íslenskukunnáttu umsækjenda og skyldu hins opinbera til að veita fræðslu í íslenskri tungu og þar með þekkingu á íslensku samfélagi. Þeir sem búa langa ævi meðal þjóðar sem þeir geta ekki átt orðastað við hljóta oft að finna til einsemdar og hjálparleysis. Það getur haft alvarlegar afleiðingar þegar tjáskiptagetan er svo léleg að fólk skilur ekki starfsfólk heilbrigðisþjónustu, félagsmálaþjónustu eða aðra starfsmenn hins opinbera.
    Í daglegu lífi getur einsemd sú, sem málfátæktin veldur, orðið til þess að illleysanleg sálræn vandamál og slæm samskiptavandamál skapist. Það ber því bráða nauðsyn til að þau ákvæði um veitingu ríkisborgararéttar, sem lúta að þekkingu á íslensku, séu skýr og beini umsækjendum inn á brautir sem bæta réttmæta og eðlilega félagslega stöðu umsækjanda.