Ferill 206. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 206 . mál.


277. Svar


sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um störf hringormanefndar.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Starfar hringormanefnd, sem skipuð var í ágúst 1979, enn í umboði sjávarútvegsráðherra?
    Ef svo er, hver er kostnaður við störf nefndarinnar og eftir hvaða forsendum eru upphæðir „verðlaunaveitingar“ fyrir selveiðar ákveðnar?
    Ef svo er ekki, hver ber ábyrgð á störfum nefndarinnar og hvaða heimildir, lagalegar eða aðrar, hefur nefndin til þess að hvetja til selveiða með „verðlaunaveitingum“?
    Hver er niðurstaða og árangur af störfum þeirrar nefndar sem skipuð var 1979 og hringormanefndar sem starfar nú samkvæmt skipunarbréfi nefndarmanna frá 1979:
         
    
    af rannsóknum og tilraunum til þess að leita lausnar á þeim vanda sem hringormar í fiski valda íslenskum fiskiðnaði og hvar hafa niðurstöður af þeim rannsóknum og tilraunum birst;
         
    
    af rannsóknum á selastofnum við Ísland og hvar hafa niðurstöður þessara rannsókna birst?
    Eru störf hringormanefndar tengd fjölstofnaverkefni Hafrannsóknastofnunar? Ef svo er, hvert er hlutverk hringormanefndar í því samstarfi?
    Hve oft hafa stofnstærðir sela verið áætlaðar eða selir taldir frá því að hringormanefndin var skipuð 1979? Hverjir hafa staðið fyrir þeim áætlunum og talningu í hvert skipti og hvaða breytingar hafa orðið á stærð selastofna og dreifingu þeirra á þessum tíma?
    Hve margir selir hafa verið veiddir síðan 1979 fyrir tilstuðlan hringormanefndar, skipt niður á ár og fjölda í hverjum landshluta?
    Hvernig er háttað stjórn og eftirliti með selveiðum?
    Hefur sá vandi, sem hringormar í fiski valda íslenskum fiskiðnaði, minnkað frá því að hringormanefnd var skipuð 1979? Ef svo er, hversu mikið hefur hann minnkað og hvernig fer sú mæling fram?


    Í ágústmánuði 1979 skipaði ráðuneytið svokallaða hringormanefnd að ósk og frumkvæði sölusamtaka í sjávarútvegi. Ráðuneytið hefur síðan engin afskipti haft af þessari nefnd og standa þau samtök, sem fulltrúa eiga í nefndinni, undir rekstri hennar. Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum, sem beðið er um í fyrirspurninni, frá hringormanefnd og eru þær eftirfarandi, en athugasemdir við 8. lið eru frá ráðuneytinu. Jafnframt fylgir frá hringormanefnd ritskrá yfir útgefið efni sem tengist þessu máli.
    1. Eins og fram kemur í svari sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn um sama efni í mars 1991, þskj. 829 (357. mál), starfar hringormanefnd nú ekki í umboði sjávarútvegsráðherra. Aðeins tveir af sjö núverandi nefndarmönnum voru í nefndinni 1979.
    2. Á ekki við samkvæmt svari við fyrsta lið.
    3. Í svari við fyrirspurn 1991, þskj. 829 (357. mál), er talið upp hverjir bera ábyrgð á störfum nefndarinnar. Starfsemi hringormanefndar fer í öllu að íslenskum lögum.
    4. Orðalag þessa liðs á ekki við, sbr. svar við 1. lið. Niðurstöður af störfum hringormanefndar eru:
    Niðurstöður rannsókna og tilrauna til þess að leita lausnar á hringormavandanum hafa birst víða, m.a. í Ægi, tímariti Fiskifélags Íslands, í Fiskvinnslunni, tímariti Fiskiðnar, fagfélagi fiskiðnaðarins, í ritaröð Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og víðar (sjá meðfylgjandi ritskrá).
    Niðurstöður af rannsóknum á selastofnunum við Ísland hafa birst í Náttúrufræðingnum, tímariti hins íslenska náttúrufræðifélags, Hafrannsóknum og ársskýrslum Hafrannsóknastofnunar (sjá meðfylgjandi ritskrá).
    5. Starfsmaður hringormanefndar er verkefnisstjóri fimm undirverkefna fjölstofnaverkefnis Hafrannsóknastofnunar: Fæða landsels og útsels, Ferðir landsela í Húnaflóa kannaðar með VHF-tækni, Orkuþörf sela við náttúrulegar aðstæður, Orkuinnihald fisktegunda á Íslandsmiðum og Kannanir á sambandi kvarnarlengdar, fisklengdar og -þyngdar hjá mikilvægustu fisktegundum í fæðu sela.
    Starfsmaður hringormanefndar þiggur ekki laun frá Hafrannsóknastofnun vegna starfa sinna sem verkefnisstjóri. Hringormanefnd leggur hann til, Hafrannsóknastofnun að kostnaðarlausu. Auk þess kostar hringormanefnd úrvinnslu þegar safnaðra fæðusýna úr útsel hér við land, en þau munu nýtast fjölstofnarannsóknum Hafrannsóknastofnunar. Hafrannsóknastofnun leitaði til starfsmanns hringormanefndar um samstarf vegna sérþekkingar hans á selum.
    6. Hringormanefnd hefur kostað talningar landsela og haustkópa frá 1980 til 1992. Landselir hafa verið taldir árin 1980, 1985, 1990 og 1992. Haustkópar hafa verið taldir 1982, 1986, 1990 og 1992 (sjá ársskýrslu Hafrannsóknastofnunar; Nytjastofnar sjávar og umhverfisþættir 1992/93 bls. 70–71). Gerð er grein fyrir talningum á selum frá 1980 til 1990 í Hafrannsóknum 43. hefti bls. 5–22. Um ástand selastofna má lesa í þessum ritum, en í stuttu máli er ástand þeirra nú þannig að landsel hefur fækkað talsvert á síðustu 12 árum (1980–1992), en útsel aðeins lítillega ef nokkuð.
    7. Upplýsingar um selveiðar frá 1982 til 1992 er að finna í skýrslu Hafrannsóknastofnunar; Nytjastofnar sjávar og umhverfisþættir 1992/93, tafla 3.21.1 bls. 140. Hringormanefnd hóf greiðslur til selveiða 1982. Í fyrstu var greitt fyrir alla seli, en eftir 1. mars 1990 var hætt að greiða fyrir veiðar landsela. Nákvæma sundurliðun selveiðanna er að finna í grein Erlings Haukssonar í Hafrannsóknum 43. hefti; Selveiðar 1982 til 1989. Slík sundurliðun útselsveiðinnar árin 1990–1992 liggur ekki fyrir að svo stöddu. Grein um þetta efni verður væntanlega birt síðar.
    8. Um selveiði gildir ákvæði tilskipunar frá 20. júní 1949 um veiði á Íslandi. Framkvæmd þeirra laga er ekki hjá sjávarútvegsráðuneytinu.
    9. Hringormanefnd hefur staðið að þremur sjálfstæðum könnunum á hringormasýkingu þorsks á Íslandsmiðum, árin 1980, 1986 og 1991. Áður hafði Jónbjörn Pálsson kannað hringormasýkingu þorsks 1973. Þegar hafa verið birtar tvær greinar um þessar rannsóknir og er söfnun og úrvinnslu lýst í þeim (Erlingur Hauksson 1984 og sami 1992). Niðurstöður þriðju könnunarinnar eru óbirtar. Starfsmaður hringormanefndar hefur túlkað niðurstöður þessara þriggja kannana á þann veg að á umræddu tímabili hafi selormasýking (phocanema) þorsks staðið svo til í stað, en hvalormasýking (anisakis) þorsks vaxið eitthvað. Ef litið er á hringormasýkingu þorsks í afla umrædd ár hefur hundraðshluti sýktra þorska af selormi lítið breyst á umræddu tímabili. Meðalfjöldi selorma í þorski hefur líklega vaxið frá 1973 til 1986 og minnkað lítillega eftir það. Það skal þó undirstrikað að fleiri kannanir á þessu þarf til svo að skera megi úr um hvort þetta sé ábyggileg fækkun orma eða einungis tilviljanakennd breyting. Slík sambærileg könnun við þær fyrri verður væntanlega gerð árið 1995.

    Hringormanefnd áformar að framkvæma kannanir á fimm til sex ára fresti þannig að úrtakið samanstandi að mestu leyti af nýjum árgöngum þorsks sem ekki hafa verið kannaðir áður. Þorskar safna í sig hringormum sem þeir fá með fæðunni og hringormarnir virðast ekki drepast í þorskholdinu meðan fiskurinn lifir. Veruleg fækkun útsela, sem eru mikilvægustu lokahýslar og dreifendur selorma í þorsk, kæmi því ekki fram sem minni selormur í þorski fyrr en um fimm árum eftir fækkunina, í fyrsta lagi. Fram til þessa hefur útsel ekki fækkað verulega hér við land.

Ritskrá:
1980        Selir (Pinnipeds at the Icelandic coast). Erlingur Hauksson 1980. Rit Landverndar 7:49:64. Reykjavík.
1982        Hringanórinn (Occurrence of ringed seal in Icelandic Waters). Týli 12(1):7–12.
1984         Selveiðarnar 1982. Ægir 2:102–104.
1984         Selormurinn (Phocanema decipiens). Krabbe. Líffræði hans og hringormavandinn. Ægir 4:190–197.
1984         Hringormar í fiski. Fiskvinnslan 2:12–15.
1984         Könnun á sýkingu þorsks á Íslandsmiðum af selormi (Phocanema decipiens). Krabbe. (Anisakis simpleks). Dujardin. Hafrannsóknir 30:5–26.
1984         Fæða landsels (Phoca vitulina) L. og útsels (Halichoerus grypus) Fabr. við Ísland. Hafrannsóknir 30:27–65.
1985         Preliminary results of investigations on the biology of seals at the coast of Iceland, in the period 1980–1984. ICES N:17, 27 bls.
1985         Talning útselskópa úr lofti, kópaframleiðsla og stofnstærð útsels. Náttúrufræðingurinn 55 (2):83–93.
1985         Fylgst með landselum í látrum. Náttúrufræðingurinn 55(3):119–131.
1986         Fjöldi og útbreiðsla landsels við Ísland. Náttúrufræðingurinn 56(1):19–29.
1986         Hringormavandinn. Ugginn 7(1):14–18.
1986         Farselir við Ísland. Hafrannsóknir 35:41–68.
1986         Síldarormurinn. Fiskvinnslan 3/86:36, 39–40, 42–43.
1987         Selir. Bls. 124–131 í Fjölriti Náttúruverndarráðs nr. 16; Villt spendýr og fuglar. Árekstrar við hagsmuni mannsins.
1987         The status of the Icelandic seal populations. Bls. 91–104 í Procedings of International workshop on coastal seals. Conseil International de la chasse et de la Conservation du Gibier. Paris.
1987         Existing laws and regulations in connection to seals and sealing at the coast of Iceland. bls. 216–219 í Procedings of International workshop on coastal seals. Conseil International de la chasse et de la Conservation du Gibier. Paris.
1987         Sealing in Iceland — past and present. Bls. 254–265 í Procedings of International workshop on coastal seals. Conseil International de la chasse et de la Conservation du Gibier. Paris.
1988         Er munur á hringormafjölda í lifandiblóðguðum og dauðblóðguðum fiski? Fiskvinnslan 1/88:15–17.
1989         Geymsla fisks í krapa og hringormar. Fiskvinnslan 1/89:29, 31 og 33.
1989         Staðsetning hringorma í þorskflökum. Fiskvinnslan 2/89: 14–17.
1989         Selir og áhrif þeirra á fiskveiðar. Neysla sela á nytjafiskum og áhrif hennar á fiskafla. Ægir 6/89:290–295.
1989         Investigations on the sealworm problem in Icelandic waters; Recent findings and future research. Pps. 30–31, in Möller H. (ed.), Nematode problems in North Atlantic fish. Report from a workshop in Kiel, 3–4 April 1989. ICES, Mariculture Committee/F:6.
1990         Selir við Ísland. Ugginn 11(1):10–22.
1991         Slóg og hringormar. Ugginn 12(1):12–16.
1991         J. Brattey and W.T. Stobo (Rapporteurs), A. Björge, M.D.B. Burt, S. des Clers, L.P. Fanning, L. Jarecka, T. Landry, A. Mansfield, G. McClelland, R. Mohn, H. Möller, R.A. Myers, I.H. Ni, J. Pálsson, J.W. Smith, D. Thompson and R. Wootten. Group Report 2: Infection of Definitive Hosts. Bls. 139–145 í Bowen, W.D. (ritstj.) Population Biology of Sealworm (Pseudoterranova decipiens) in Relation to its Intermediage and Seal Hosts. Canadian Bulletin of Fisheries and Aquatic Sciences 222. Ottawa, 306. bls.
1991         D. Thompson and A.W. Mansfield (Rapporteurs), B. Beck, A. Björge, D. Bowen, M. Hammill, R.A. Myers, I.H.Ni, and K. Zwanenburg. Group Report 3: Seal Ecology. Bls. 163–170 í Bowen, W.D. (ritstj.) Population Biology of Sealworm (Pseudoterranova decipiens) in Relation to its Intermediage and Seal Hosts. Canadian Bulletin of Fisheries and Aquatic Sciences 222. Ottawa, 306 bls.
1991         Report on analyses of varations in feeding of grey seals in Iceland. Bls. 9–10 í Kapel, F. (ritstj.) report of Nordic Seminar on Predation and Predatory Processes in Marine Mammals and Sae–Birds. Tromsö, 39. bls.
1992         Observations on Seals on Surtsey in the Period 1980–1989. Surtsey Research Progress Report X:31–32.
1992         Útselur. Lífríki sjávar. Námsgagnastofnun — Hafrannsóknastofnun.
1992         Landselur. Lífríki sjávar. Námsgagnastofnun — Hafrannsóknastofnun.
1992         Farselir 1. Lífríki sjávar. Námsgagnastofnun — Hafrannsóknastofnun.
1992         Farselir 2. Lífríki sjávar. Námsgagnastofnun — Hafrannsóknastofnun.
1992         Talningar á landsel og útsel og ástand þessara stofna við strendur Íslands. Hafrannsóknir 43:5–22.
1992         Vöxtur og viðkoma landsels og útsels við Ísland. Hafrannsóknir 43:23–49.
1992         Stærð og sköpulag kjálka og vígtanna hjá landsel og útsel eftir kyni. Hafrannsóknir 43:50–58.
1992         Selveiðar 1982–1989. Hafrannsóknir 43:59–70.
1992         Sýking þorska á Íslandsmiðum af selormi og hvalormi 1985–1988. Hafrannsóknir 43:71–106.
1992         Hringormasýking nokkurra fisktegunda við Íslandsstrendur. Hafrannsóknir 43:107–123.
1992         Áhrif verkunar á hringorma. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins 33. rit. Mars 1992. Reykjavík.
1993         Árstíðabreytingar á fjölda sela í látrum á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu. Náttúrufræðingurinn 62(1.–2.):37–41.