Ferill 269. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 269 . mál.


324. Tillaga til þingsályktunar



um rannsóknir á ástæðum og afleiðingum ofbeldis gegn konum á Íslandi.

Flm.: Svavar Gestsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd er undirbúi og hafi umsjón með rannsókn á umfangi og eðli ofbeldis gegn konum á Íslandi.
    Verkefni nefndarinnar verði
    að safna saman þeim upplýsingum sem fyrir liggja hjá fjölmörgum aðilum um ofbeldi gegn konum hér á landi,
    að vinna eða láta vinna úr þeim upplýsingum sem fyrir liggja um þessi efni,
    að efna til sjálfstæðrar könnunar á ástæðum og afleiðingum ofbeldis gegn konum á Íslandi,
    að ganga frá skýrslu um málið sem lögð verði fyrir Alþingi,
    að gera tillögur um úrbætur.
    Nefndin skili áfangaskýrslum um störf sín eftir því sem þeim miðar fram en nefndin ljúki störfum fyrir lok ársins 1994.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er flutt af brýnni þörf því engin heildarkönnun liggur fyrir á ástæðum og afleiðingum ofbeldis gegn konum á Íslandi.
    Vitað er að upplýsingar liggja fyrir víða en þær eru sundurlausar og ekki í samræmdu formi. Þeir aðilar, sem hafa upplýsingar, eru að sjálfsögðu lögreglustjóraembættin, sérstaklega í Reykjavík. Enn fremur liggja fyrir upplýsingar hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins, félagsmálastofnunum sveitarfélaga, heilsugæslustöðvum og slysamóttökum, Samtökum um kvennaathvarf, Stígamótum, Fjölskylduþjónustu kirkjunnar og sjálfsagt fleiri aðilum.
    Í svari við fyrirspurn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til dómsmálaráðherra um líkamlegt ofbeldi á heimilum (89. mál á 115. löggjafarþingi) kom fram að mikil vandkvæði eru á því hjá lögregluembættum að svara umbeðnum upplýsingum í samanteknu formi vegna skorts á tölvuvæðingu sem ekki er til staðar nema hjá stærri embættum. Í svarinu kom jafnframt fram að við undirbúning að gildistöku laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði (sem tók gildi 1. júlí 1992) var starfandi nefnd sem vann að því að vinnubrögð við meðferð mála yrðu bætt og tölvutækni notuð. Það ætti því að vera auðveldara nú að fá nákvæmar upplýsingar um þennan þátt.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir að nefndin vinni eða láti vinna úr þeim upplýsingum sem fyrir liggja um ofbeldi gegn konum. Yrði sú vinna vonandi til þess að þeir aðilar, sem hér um ræðir, komi á skipulegu samstarfi sín á milli þannig að unnt verði að nota upplýsingarnar framvegis til miðlunar upplýsinga og til þess að byggja á tillögur um úrbætur.
    Þegar nefndin hefur lokið úrvinnslu úr þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, væri eðlilegt að hún sendi frá sér áfangaskýrslu. Samhliða söfnun upplýsinga og úrvinnslu væri síðan eðlilegt — og raunar óhjákvæmilegt — að hún léti kanna sérstaklega afmarkaða þætti ofbeldis gegn konum. Virðist í fljótu bragði eðlilegt að Félagsvísindastofnun yrði fengin til þess að kanna málin í einstökum atriðum með viðtalskönnunum og með aðstoð þeirra stofnana og samtaka sem þekkja til ofbeldis gegn konum.
    Þá er komið að fjórða þætti tillögunnar en það er útgáfa á niðurstöðum hennar og loks er gert ráð fyrir að unnið verði að tillögum um úrbætur í framhaldi af starfi nefndarinnar.
    Þar sem hér er um viðamikið starf að ræða er gert ráð fyrir að nefndin ljúki störfum fyrir árslok 1994. Má vissulega segja að það sé of langur tími miðað við það hvað alvarlegt vandamálið er orðið á Íslandi, en vinna nefndarinnar sem slík mundi einnig áreiðanlega hafa almenn varnaðaráhrif ef rétt er á henni haldið.
    Nýlega hafa birst ítarlegar niðurstöður um ofbeldi gegn konum í Bretlandi og ekki er langt síðan birt var greinargerð um ofbeldi gegn konum í Danmörku. Vafalaust mætti hafa not af þessum könnunum við heildarrannsókn hér á landi.
    Hér er gert ráð fyrir að dómsmálaráðuneytið hafi forustu um þessa rannsókn. Það er vandi að finna aðila til að annast slíka rannsókn með hlutlægum hætti; með því að fela dómsmálaráðuneytinu rannsóknina er að nokkru leyti verið að fela því að rannsaka sjálft sig. Hins vegar er vandi að finna annan aðila sem er skyldara að taka á þessu máli með skipulegum hætti. Þess vegna er dómsmálaráðuneytið nefnt. Hins vegar er hér lagt til að dómsmálaráðuneytið fái óháða aðila, eins og Félagsvísindastofnun, til að annast hluta af þessari könnun, en einnig má nefna landlæknisembættið.
    Á undanförnum árum hefur aðsókn að eina kvennaathvarfinu á Íslandi aukist mjög. Ljóst er að hér er um stórt vandamál að ræða þótt engar heildarkannanir liggi fyrir. T.d. er ekki vitað hvort um aukningu almennt er að ræða eða hvort aukin fræðsla leiðir til þess að fleiri konur leita sér nú aðstoðar, bæði vegna nauðgunarmála hjá Stígamótum og vegna heimilisofbeldis hjá Kvennaathvarfinu.
    Dómsmálaráðuneytið hafði yfirumsjón með dönsku könnuninni sem áður var nefnd. Hún var tvíþætt, annars vegar úrtakskönnun á líkamlegu ofbeldi gegn konum og körlum, unnin var af dönsku félagsrannsóknastofnuninni (Socialforskningsinstitutet), þar sem rætt var persónulega við u.þ.b. 1.600 manns, og hins vegar samantekt og úrvinnsla upplýsinga frá þeim stofnunum sem höfðu einhverjar upplýsingar fyrirliggjandi. Í könnuninni var spurt um ofbeldi sem konur og karlar höfðu orðið fyrir eftir 16 ára aldur, bæði nauðganir og líkamlegt ofbeldi. Niðurstöður komu út í maí 1992. Þar kemur m.a. fram að 19% kvenna höfðu orðið fyrir líkamlegu ofbeldi a.m.k. einu sinni eftir að þær urðu fullorðnar og af þeim höfðu 9% orðið fyrir grófu ofbeldi. Konurnar þekktu ofbeldismanninn í nær öllum tilvikum. Í helmingi tilvika er ofbeldismaðurinn fyrrverandi eiginmaður eða sambýlismaður. Í hinum helmingnum verða konur fyrir ofbeldinu í tengslum við vinnu, gjarnan vinnu í félags- eða heilbrigðisstofnunum. Fleiri karlar en konur hafa orðið fyrir ofbeldi, líka grófari tegund ofbeldis. 36% höfðu orðið fyrir ofbeldi, þar af 23% grófara ofbeldi. Hins vegar höfðu flestir karlarnir aðeins verið beittir ofbeldi einu sinni og þá yfirleitt af öðrum körlum sem þeir þekktu ekki. Konurnar, sérstaklega þær sem hafa verið beittar grófu ofbeldi, hafa orðið fyrir því oft og þekkja oftast ofbeldismanninn. Samkvæmt könnuninni er eðli ofbeldisins því mismunandi eftir því hvort kynið verður fyrir því.
    Breska könnunin náði til 580 kvenna og 240 karla. Þar var spurt um líkamlegt ofbeldi. Konur voru spurðar um ofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir en karlarnir um ofbeldi sem þeir hefðu hugsanlega beitt konur. Niðurstaða þessarar könnunar var birt í febrúar á þessu ári. Hún var unnin af The London Borough of Islington en fjármögnuð af The Department of the Environment and Middlesex University.
    Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi. Hún kom ekki til umræðu og er því endurflutt.