Ferill 195. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 195 . mál.


328. Svar



kirkjumálaráðherra við fyrirspurn Bryndísar Friðgeirsdóttur um ráðningu aðstoðarprests á Ísafirði.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Er það ætlun ráðuneytisins að fallast á ítrekaðar óskir heimamanna um ráðningu aðstoðarprests á Ísafirði?

    Í 3. gr. laga nr. 62/1990, um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, er almenn heimild til handa ráðherra til að ráða aðstoðarprest í prestakall. Í 3. mgr. greinarinnar segir:
    „Aðstoðarprestur er ráðinn samkvæmt tillögu biskups í samráði við sóknarprest og með samþykki sóknarnefndar. Ráðningartími aðstoðarprests skal vera allt að fjórum árum í senn.“
    Þá er ráðherra heimilt, sbr. 9. gr. laganna, samkvæmt tillögu biskups að ráða farprest til starfa í prófastsdæmum sem hefur það hlutverk að vera til aðstoðar í prestaköllum, þjóna í forföllum og annast tiltekin sérverkefni.
    Dóms- og kirkjumálaráðherra tekur samkvæmt þessu ákvarðanir um veitingu ofangreindra stöðuheimilda til þjóðkirkjunnar og forgangsröðun í því sambandi á grundvelli tillagna biskups.
    Heimild til ráðningar í stöðu verður enn fremur ekki veitt nema fjárveiting fyrir hinni nýju stöðu fáist.
    Ráðuneytinu er kunnugt um að biskup telur afar brýnt að veitt verði heimild til ráðningar í stöðu farprests á Vestfjörðum er mundi hafa aðsetur á Ísafirði og vera sóknarpresti þar til aðstoðar auk þess að sinna öðrum störfum fyrir prófastsdæmin, svo sem æskulýðsmálum og fræðslustarfi auk afleysinga í tímabundinni fjarveru sóknarpresta. Eigi að síður hafa óskir um aðrar stöðuheimildir verið settar ofar á forgangslista af hálfu þjóðkirkjunnar fram að þessu þar sem talið hefur verið að þörfin væri enn þá brýnni.