Ferill 273. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 273 . mál.


343. Frumvarp til laga



um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Flm.: Gísli S. Einarsson, Gunnlaugur Stefánsson.



1. gr.

    67. gr. laganna, sbr. 18. gr. laga nr. 44/1993, orðast svo:
    Ökutæki, sem skráð er hér á landi, skal færa til almennrar skoðunar árlega frá og með þriðja ári eftir að það er skráð nýtt fyrsta sinni. Bifreiðaskoðun Íslands annast skoðun ökutækja. Þó er heimilt á fjórða ári eftir nýskráningu, fimmta ári og annað hvert ár eftir það að láta skoða ökutæki hjá verkstæði sem öðlast hefur viðurkenningu til að annast almenna skoðun samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setur.
    Endurskoðun ökutækja má með sama hætti fara fram á verkstæði sem öðlast hefur viðurkenningu, sbr. 1. mgr.
    Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um skoðun skráningarskyldra ökutækja, þar á meðal um skilyrði þau er almenn verkstæði skulu uppfylla til að mega skoða ökutæki, hvenær almenn skoðun fer fram og að öðru leyti um framkvæmd hennar.
    Dómsmálaráðherra ákveður gjald fyrir skoðun ökutækja.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Samkvæmt reglum þeim, sem nú eru í gildi um skoðun ökutækja og settar eru á grundvelli 67. gr. umferðarlaga, er meginreglan sú að skylt er að færa ökutæki hér á landi til almennrar skoðunar hjá Bifreiðaskoðun Íslands hf. Skal skoðun fara fram ár hvert frá og með næsta ári eftir skráningu, þó að undanskildum bifeiðum til fólksflutninga, bifhjólum og skráðum eftirvögnum undir 5.000 kg af leyfðri heildarþyngd en þau ökutæki skal skoða árlega almennri skoðun frá og með þriðja ári eftir að ökutækið var skráð fyrsta sinni. Samkvæmt reglunum ákveður Bifreiðaskoðun Íslands hvar ökutæki skulu færð til almennrar skoðunar. Í öllum tilvikum skal færa ökutæki til skoðunar hjá Bifreiðaskoðun Íslands en þó er heimilt að láta annast endurskoðun á verkstæði ef Bifreiðaskoðunin hefur veitt verkstæðinu heimild til að annast slíka skoðun.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á fyrrgreindri tilhögun. Í breytingunum felst í fyrsta lagi að gert er ráð fyrir að reglan um skoðun þremur árum eftir nýskráningu taki til allra skráðra ökutækja. Í öðru lagi er lagt til að í stað þess að aðeins sé heimilt að láta almenna lögboðna skoðun fara fram hjá Bifreiðaskoðun Íslands verði eigendum ökutækja heimilt að láta skoða þau hjá verkstæðum sem öðlast hafa viðurkenningu til að annast lögbundna skoðun á fjórða og fimmta ári eftir nýskráningu og annað hvert ár þar á eftir. Með þessu munu eigendur ökutækja öðlast þann kost að láta lögboðna skoðun að hluta fara fram á almennum verkstæðum sem uppfylla tilskilin skilyrði í stað þess að þurfa ætíð að færa ökutæki sitt til Bifreiðaskoðunarinnar. Þó þykir ástæða til að sú regla gildi að Bifreiðaskoðun Íslands sjái um skoðun á þriðja og sjötta ári eftir nýskráningu og annað hvert ár þar á eftir enda hefur Bifreiðaskoðunin yfir að ráða mjög fullkomnum tækjabúnaði til skoðunar sem ekki er hægt að skylda almenn verkstæði til að afla sér kostnaðarins vegna. Þá er lagt til að lögbundin verði heimild til að láta endurskoðun fara fram hjá verkstæðum sem uppfylla skilyrði samkvæmt reglum dómsmálaráðherra í stað þeirra reglna að endurskoðun megi aðeins fara fram á verkstæði hafi það fengið heimild til slíkrar skoðunar hjá Bifreiðaskoðuninni.
    Full ástæða er til að endurskoða gildandi reglur hér á landi um bifreiðaskoðun. Má í því sambandi benda á að mjög ör þróun hefur orðið í sambandi við öryggisbúnað og endingu ökutækja. Betri endingu bifreiða hér á landi má einnig rekja til vegabóta á síðastliðnum árum. Árleg skoðun ökutækja þjónar samkvæmt framansögðu vart tilgangi nú á tímum og þykir því rétt að sömu reglur verði látnar gilda um öll ökutæki, þ.e. að þau verði fyrst færð til skoðunar á ný á þriðja ári eftir nýskráningu.
    Sú tilhögun að Bifreiðaskoðun Íslands hafi einkarétt til almennrar skoðunar byggir á samningi fyrirtækisins við dómsmálaráðuneytið. Sú skipan hefur verið nokkuð umdeild og má einnig nefna að þær ráðagerðir að margir landsmenn þurfi að sækja lögbundna skoðun bifreiða um enn lengri veg en verið hefur eru hvetjandi um endurskoðun á því fyrirkomulagi sem nú er í gildi.
    Ljóst er að þær reglur, sem nú eru í gildi, leiða til kostnaðar fyrir eigendur ökutækja sem alls ekki eru í samræmi við öryggissjónarmið þau er ættu að liggja að baki. Markmið frumvarpsins er m.a. hagkvæmni varðandi skoðun og eftirlit. Þannig verður lögbundin skoðun ökutækja aðgengilegri fyrir landsmenn en nú er án þess að dregið verði úr gæðum eða kröfum til öryggis ökutækja.