Ferill 287. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. –
1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 287 . mál.


364. Frumvarp til laga



um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



I. KAFLI


Tilgangur, gildissvið og yfirstjórn.


1. gr.


    Tilgangur laga þessara er að tryggja bændum og öðrum notendum fullnægjandi vöru í samræmi við vörulýsingar og kröfur til landbúnaðarafurða um hollustuhætti.

2. gr.


    Lög þessi gilda um eftirlit með framleiðslu, geymslu og sölu á fóðri sem ætlað er búfé sem haldið er til matvælaframleiðslu og sölufóðri annarra dýra, svo og alla sáðvöru, tilbúinn áburð og önnur jarðvegsbætandi efni.

3. gr.


    Eftirlit með þeim vörum sem lög þessi taka til skal vera undir yfirstjórn landbúnaðarráðherra. Skal það nefnast aðfangaeftirlit og skipar ráðherra forstöðumann þess sem hefur á hendi umsjón með framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar verða samkvæmt þeim.
     Til aðstoðar aðfangaeftirlitinu skipar landbúnaðarráðherra þrjár nefndir til fjögurra ára í senn sem hafa það hlutverk að vera ráðgefandi um framkvæmd eftirlits samkvæmt lögum þessum:
    Fóðurnefnd, skipuð búfjárræktarráðunaut tilnefndum af Búnaðarfélagi Íslands, fóðursérfræðingi tilnefndum af Rannsóknastofnun landbúnaðarins og dýralækni tilnefndum af yfirdýralækni. Ráðherra skipar formann nefndarinnar.
    Sáðvörunefnd, skipuð jarðræktarráðunaut tilnefndum af Búnaðarfélagi Íslands, jarðræktarfræðingi tilnefndum af Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Einn nefndarmanna skipar landbúnaðarráðherra án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.
    Áburðarnefnd, skipuð jarðræktarráðunaut tilnefndum af Búnaðarfélagi Íslands og jarðvegsfræðingi tilnefndum af Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Ráðherra skipar einn nefndarmanna án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.

II. KAFLI


Aðfangaeftirlit.


4. gr.


    Aðfangaeftirlitið skal halda skrá yfir þá aðila sem framleiða hér á landi eða flytja inn þær vörur sem lög þessi taka til. Óheimilt er að skrá framleiðanda eða innflutningsaðila sem ekki sýnir fram á fullnægjandi aðstöðu fyrir þá starfsemi sem tilkynnt er um.

5. gr.


    Óheimilt er að flytja til landsins, framleiða eða pakka hér á landi vörum sem lög þessi taka til, nema tilkynna þær fyrst og láta skrá hjá aðfangaeftirlitinu sem staðfestir skráningu vörunnar. Aðfangaeftirlitið skal aðeins skrá vörur er þeim hefur verið lýst á fullnægjandi hátt.
     Landbúnaðarráðherra ákveður með reglugerð, að höfðu samráði við sérfræðinga Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og ráðunauta Búnaðarfélags Íslands, hvaða upplýsingar skylt er að láta fylgja vörum sem lög þessi ná yfir. Enn fremur skal kveðið á um merkingar og lýsingu á notkun einstakra vöruflokka.

6. gr.


    Aðfangaeftirlitið skal með sýnatökum fylgjast með að vörur þær sem skráðar hafa verið séu í samræmi við gildandi vörulýsingar. Aðfangaeftirlitið skal hafa aðgang að eftirlitsskyldum vörum hvar og hvenær sem þess er óskað. Kaupandi vöru getur óskað eftir því að fram fari sérstök athugun á vegum aðfangaeftirlitsins vegna gruns um að varan sé ófullnægjandi. Kostnað af ítrekuðum tilefnislausum rannsóknum greiðir kaupandi samkvæmt reikningi.

7. gr.


    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um sýnatöku og önnur atriði er varða framkvæmd aðfangaeftirlitsins, svo og ákvæði um merkingar vöru og pökkun hennar og ákvæði um hámark óæskilegra efna eða bann við notkun þeirra.

III. KAFLI

Eftirlitssjóður.

8. gr.

    Til að standa straum af kostnaði við framkvæmd aðfangaeftirlitsins skal innheimta eftirlitsgjald sem miða skal við raunkostnað við eftirlit með vörum þeim sem lög þessi ná til. Sértækt eftirlitsgjald skal greiða eftir reikningi.
     Eftirlitsgjald af innfluttum vörum skal innheimt við tollafgreiðslu vörunnar. Af innlendri framleiðslu skal greiða gjaldið samkvæmt söluskýrslum sem skila ber tvisvar á ári. Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um innheimtu á eftirlitsgjöldum, upphæð þeirra, álagningu, gjalddaga og annað er lýtur að framkvæmd á innheimtu gjaldanna. Eftirlitsgjöld má taka lögtaki.

IV. KAFLI

Refsiákvæði, gildistaka o.fl.

9. gr.

    Brot gegn lögum þessum og reglugerðum, sem settar verða samkvæmt þeim, varða sektum nema þyngri refsing liggi við að öðrum lögum.
     Með mál vegna brota skal farið að hætti opinberra mála.

10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 53 16. maí 1978, um eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum, áburði og sáðvörum og verslun með þær vörur, og lög nr. 106 28. desember 1992, um breytingu á þeim lögum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Alþingi samþykkti vegna gildistöku samnings um EES lög nr. 106/1992 þar sem sniðnir voru af lögum nr. 53/1978 viðskiptatæknilegir vankantar.
     Um nokkurn tíma hefur verið ljós sú brýna þörf sem er á heildarendurskoðun gildandi laga og reglugerða. Eftir að frumvarp það, er varð að lögum nr. 106/1992, var lagt fram skipaði landbúnaðarráðherra nefnd til slíkrar heildarendurskoðunar. Í þeirri nefnd eiga sæti Jón Höskuldsson, deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, formaður, Brynjólfur Sandholt yfirdýralæknir og Gunnar Sigurðsson deildarstjóri, Rannsóknastofnun landbúnaðarins.
     Frumvarp það, sem hér liggur fyrir, er byggt á tillögum nefndarinnar. Var það lagt fyrir búnaðarþing 1993 sem mælti fyrir sitt leyti með lögfestingu þess, enda væru breytingar þær sem frumvarpið felur í sér til bóta fyrir málaflokkinn. Frumvarpið var lagt fram á 116. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Það er nú endurflutt án efnislegra breytinga.
     Ljóst er að við gildistöku samningsins um EES breytist það viðskiptaumhverfi sem verið hefur fyrir vöruflokka þá sem lög þessi taka til. Einnig hafa verið miklar og örar breytingar á framleiðsluháttum. Með bættum tækjakosti söluaðila og innra eftirliti hefur stöðugleiki vörugæða aukist. Eðli opinbers eftirlits breytist því samhliða yfir í að vera til tryggingar á að þær vinnureglur, sem settar eru um notkun hráefna og almenna viðskiptahætti, séu haldnar. Erlendis er eftirlitsstarfsemi sem þessi alls staðar beinn hluti framkvæmdarvalds.
     Víða erlendis er talið erfitt að stunda nútímabúfjárhald nema með stöðugri lyfjanotkun í fóður. Hér á landi hefur ríkt sú skoðun að lyf skuli aðeins nota í búfjárrækt í sjúkdómstilvikum og þá samkvæmt tilvísun dýralæknis. Ein undantekning hefur verið frá þessu sem er notkun hníslasóttarlyfja í fóðri kjúklinga. Þetta gefur íslenskri búfjárframleiðslu sérstöðu sem viðurkennd er af hálfu EB. Í samningnum um EES eru í gildi ákvæði um að þessar reglur er varða lyfjanotkun í fóður skuli koma til endurskoðunar árið 1995, sjá fskj. II. Vaxandi skilningur á gildi hreinleika í framleiðslu á landbúnaðarvörum mun gera okkur kleift að tryggja þessum sjónarmiðum brautargengi áfram.
     Vegna athugasemda Íslendinga og fleiri þjóða við upphaflega skoðun laga í viðauka II, kafla 14, um áburð, sjá fskj. III, hefur EB fallist á sjónarmið sem sett voru fram í þessu tilliti. Þessari sérstöðu mun Ísland halda og mun EB aðlaga sig þessum umhverfissjónarmiðum okkar í viðskiptum með áburð.
     Í ljósi þess sem að framan er rakið eru því með frumvarpi þessu lagðar til eftirfarandi meginbreytingar á gildandi lögum:
    Opinbert eftirlit verði ótvírætt hluti framkvæmdarvaldsins. Framkvæmd gildandi reglna og aðlögun þeirra breytinga, sem stöðugt eru í gangi, yrði verkefni aðfangaeftirlits sem hluti landbúnaðarráðuneytisins og hefur þannig öðlast hliðstæða stöðu í stjórnkerfinu og sambærilegt eftirlit erlendis.
    Reglur um vörulýsingar og skilgreiningar á vörum (efna- og lífeðlisfræðilegir þættir) verði færðar til meira samræmis við það sem nú gerist erlendis.
    Framkvæmd tilkynningarskyldu skv. 12. gr. gildandi laga er endurskoðuð í ljósi fenginnar reynslu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er tilgangi laganna lýst, en hann er sá að tryggja bændum og öðrum notendum fóðurs, áburðar og sáðvöru fullnægjandi vöru sem uppfyllir vörulýsingar og kröfur til landbúnaðarafurða um hollustuhætti. Greinin er skýrar orðuð en ákvæði 1. gr. núgildandi laga.

Um 2. gr.

    Greinin fjallar um gildissvið laganna, en þau taka til eftirlits með framleiðslu, geymslu og sölu á fóðri sem ætlað er búfé og öðrum dýrum. Gerður er greinarmunur á fóðri dýra í matvælaframleiðslu og fóðri annarra dýra, þannig að landbúnaðaráðherra sé kleift, ef nauðsynlegt er talið, að setja ákvæði um hámark óæskilegra efna í heimaaflafóður. Þá ná lögin yfir alla sáðvöru, en ekki aðeins sáðvörur til landbúnaðarnota, eins og er samkvæmt gildandi lögum, tilbúinn áburð og önnur jarðvegsbætandi efni, svo sem áburðarkalk, mómold (spagnum) og önnur skyld efni.

Um 3. gr.

    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er gert ráð fyrir að eftirlitsdeild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins verði lögð niður og eftirlit með þeim vöruflokkum, sem lögin ná yfir, falið aðfangaeftirliti sem heyri beint undir landbúnaðarráðherra. Þessi breyting er til samræmis þeirri stjórnsýslu sem gildir um þennan málaflokk meðal nágrannaþjóða okkar. Eðli málsins samkvæmt er nauðsynlegt að aðfangaeftirlitinu verði falin umsjón með framkvæmd laga og reglugerða sem varða þetta svið.
     2. og 3. mgr. svarar að efni til ákvæðum 3. og 4. gr. laga nr. 53/1978.

Um 4. gr.

    Greinin er nýmæli í lögum og tekur mið af reynslu liðinna ára um framkvæmd á tilkynningarskyldu 12. gr. núgildandi laga.
     Nokkuð hefur skort á að ákvæði 12. gr. hafi verið uppfyllt og er skýrar kveðið á um þau atriði sem innflytjendur fóðurs þurfa að uppfylla áður en til innflutnings kemur þar sem lögin gera ráð fyrir að vörur, sem lýst hefur verið, fái staðfestingu aðfangaeftirlitsins á því að þær falli að þeim umhverfissjónarmiðum sem viðhalda á hér á landi, sbr. nánar 5. gr. laganna.

Um 5. gr.

    Í greininni er lögð sú skylda á framleiðendur og/eða innflytjendur að tilkynna þær vörur sem lögin ná yfir til aðfangaeftirlitsins sem skráir viðkomandi vöru. Tilkynningarskylda sem þessi er nauðsynleg til að eftirlitið geti, hvenær sem ástæða er talin til, gripið til viðhlítandi úrræða til að tryggja sem best að gildandi lög um notkun fóðurefna og íblöndunarefna séu virt.
     2. mgr. er efnislega samhljóða 2. gr. laga nr. 106/1992 um breytingu á 7. gr. laga nr. 53/1978.

Um 6. gr.

    Greinin tekur til eftirlits með að þær vörulýsingar, sem gefnar voru skv. 5. gr., standist. Sú skilgreining, sem gerð er á vörunum til að falla að markmiðum um umhverfi og hollustuhætti, krefst eftirlits. Það er eftirlit fyrir kaupendur vöru til að tryggja áður talin markmið og til að tryggja framleiðendum og seljendum samræmdar forsendur við sölu.

Um 7. gr.

    Gert er ráð fyrir að ákvæði um framkvæmd á nauðsynlegri sýnatöku og framkvæmd eftirlits að öðru leyti verði sett með reglugerð.

Um 8. gr.

    Ákvæði greinarinnar svarar til V. kafla laga nr. 53/1978. Með sértæku eftirlitsgjaldi er átt við gjald sem innheimta má til að standa straum af kostnaði við sérstakar rannsóknir sem kann að þurfa að gera á vörum umfram þær almennu vörulýsingar sem reglugerðir kveða á um. Nauðsynlegt getur reynst að framkvæma sérstakar rannsóknir með tilliti til hollustu þeirrar vöru sem til skoðunar er.
     Tryggja verður að innheimt eftirlitsgjöld séu notuð til raunverulegs eftirlits en séu ekki óbein skattheimta á vörurnar. Það verður að telja betur tryggt með því breytta fyrirkomulagi sem lagt er til í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins.

Um 9. og 10. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

    Með frumvarpinu er settur nýr lagarammi um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Þessu eftirliti er nú sinnt af eftirlitsdeild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Frumvarpið gerir ráð fyrir að stofnuð verði sérstök stjórnsýsludeild, sem heyri beint undir landbúnaðarráðherra, til þess að sinna þessu eftirliti. Þessi deild verði vistuð innan Rannsóknastofnunar landbúnaðarins eða landbúnaðarráðuneytis.
    Kostnaður við eftirlitið er um 5 m.kr. á ári og er það fjármagnað að fullu með gjaldtöku. Ekki verður séð að frumvarpið leiði til kostnaðarauka fyrir notendur þjónustunnar né heldur ríkissjóð.



Fylgiskjal II.


Ákvæði EES-samningsins.
Viðauki I, bls. 49–51,
um heilbrigði dýra og plantna,
II. kafli um fóður.

II. FÓÐUR

    Þrátt fyrir ákvæði gerða, sem vísað er til í þessum kafla, skulu Sviss og Liechtenstein innleiða innlenda löggjöf um gæludýrafóður samkvæmt gerðum þessum í síðasta lagi 1. janúar 1995. Frá 1. janúar 1993 skulu Sviss og Liechtenstein ekki leggja bann við markaðssetningu afurða sem samræmast ákvæðum gerðanna.
    Afurðir úr dýraríkinu fengnar úr fóðri í samræmi við ákvæði gerða, sem getið er í viðauka þessum, skulu ekki vera háðar neinum viðskiptahindrunum vegna ráðstafana sem mælt er fyrir um í þessum kafla.

GERÐIR SEM VÍSAÐ ER TIL

Aukefni.
    370L0524: Tilskipun ráðsins 70/524/EBE frá 23. nóvember 1970 um aukefni í fóðri (Stjtíð. EB nr. L 270, 14.12. 1970, bls. 1) eins og henni var breytt með:
     —    373L0103: Tilskipun ráðsins 73/103/EBE frá 28. apríl 1973 (Stjtíð. EB nr. L 124 10.5. 1973, bls. 17);
     —    384L0587: Tilskipun ráðsins 84/587/EBE frá 30. júní 1984 (Stjtíð. EB nr. L 319, 8.12. 1984, bls. 13);
     —    387L0153: Tilskipun ráðsins 87/153/EBE frá 16. febrúar 1987 (Stjtíð. EB nr. L 64 7.3. 1987, bls. 19);
     —    391L0248: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 91/248/EBE frá 12. apríl 1991 (Stjtíð. EB nr. L 124, 18.5. 1991, bls. 1);
     —    391L0249: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 91/249/EBE frá 19. apríl 1991 (Stjtíð. EB nr. L 124, 18.5. 1991, bls. 43);
     —    391L0336: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 91/336/EBE frá 10. júní 1991 (Stjtíð. EB nr. L 185, 11.7. 1991, bls. 31).

        EFTA-ríkin munu taka upp ákvæði tilskipunarinnar frá 1. janúar 1993 með eftirtöldum skilmálum:
          —    EFTA-ríkin geta viðhaldið eigin löggjöf um vaxtarhvetjandi efni. Samningsaðilar skulu endurskoða þetta atriði árið 1995.
          —    EFTA-ríkin geta beitt eigin löggjöf í tengslum við önnur aukefni sem viðauki I tekur til þar til 31. desember 1994.

        Engu að síður
          —    getur Finnland viðhaldið eigin löggjöf um sýklalyf. Samningsaðilar skulu endurskoða þetta atriði árið 1995;
          —    getur Ísland
                              —    viðhaldið eigin löggjöf um sýklalyf. Samningsaðilar skulu endurskoða þetta atriði árið 1995;
                              —    beitt eigin löggjöf um þráavarnarefni, bragðbætandi og lystaukandi efni svo og litarefni, þar á meðal dreifuliti, þar til 31. desember 1995;
          —    getur Noregur
                              —    viðhaldið eigin löggjöf um sýklalyf, hníslalyf og önnur læknandi efni, rotvarnarefni, brennisteinssýru og saltsýru, svo og snefilefnið kopar sem vaxtarhvetjandi efni. Samningsaðilar skulu endurskoða þetta atriði árið 1995;
                              —    á tímabili sem lýkur 31. desember 1994 beitt eigin löggjöf um vítamín, próvítamín og efni sem eru vel skilgreind efnafræðilega og hafa svipuð áhrif. Samningsaðilar geta komið sér saman um að framlengja þetta tímabil;
          —    getur Svíþjóð
                              —    viðhaldið eigin löggjöf um sýklalyf, hníslalyf og önnur læknandi efni svo og rotvarnarefnið maurasýru. Samningsaðilar skulu endurskoða þetta atriði árið 1995.
        Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:
        Vegna beitingar 4. og 5. gr.
          —    skulu EFTA-ríkin eigi síðar en 1. janúar 1993 senda málsskjöl um aukefni sem leyfð eru af EFTA-ríkjum en ekki í bandalaginu, ákvarðað í samræmi við viðmiðunarreglur sem kveðið er á um í tilskipun 87/153/EBE.

        Senda skal málsskjöl og greinargerðir, eftir því sem við á, að minnsta kosti á ensku. Auk þess skal senda stutt yfirlit sem ætlað er til birtingar með grunnupplýsingum málsskjala og greinargerða á ensku, frönsku og þýsku;

        fyrir 1. janúar 1995 skal tekin ákvörðun, í samræmi við málsmeðferð 23. gr., um innlend leyfi sem EFTA-ríki veita. Þar til ákvörðun hefur verið samþykkt af Efnahagsbandalagi Evrópu er EFTA-ríkjunum heimilt að styðjast við innlend leyfi vegna afurða sem markaðssettar eru á yfirráðasvæði þeirra.

    387L0153: Tilskipun ráðsins 87/153/EBE frá 16. febrúar 1987 um að setja viðmiðunarreglur um mat á aukefnum í dýrafæðu (Stjtíð. EB nr. L 64, 7.3. 1987, bls. 19).


Fylgiskjal III.


Ákvæði EES-samningsins.
Viðauki II, kafli XIV,
bls. 163, Áburður.


XIV. ÁBURÐUR

GERÐIR SEM VÍSAÐ ER TIL


    376l0116: Tilskipun ráðsins 76/116/EBE frá 18. desember 1975 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um tilbúinn áburð (Stjtíð. EB nr. L 24, 30.1. 1976, bls. 21) eins og henni var breytt með:
     —    388L0183: Tilskipun ráðsins 88/1983/EBE frá 22. mars 1988 (Stjtíð. EB nr. L 83, 29.3. 1988, bls. 33);
     —    389L0284: Tilskipun ráðsins 89/284/EBE frá 13. apríl 1989 um viðbætur og breytingar á tilskipun 76/116/EBE hvað snertir kalsíum-, magníum-, natríum- og brennisteinsinnihald tilbúins áburðar (Stjtíð. EB nr. L 111, 22.4. 1989, bls. 34);
     —    389L0530: Tilskipun ráðsins 89/530/EBE frá 18. september 1989 um viðbætur og breytingar á tilskipun 76/116/EBE hvað snertir snefilefnin bór, kóbalt, kopar, járn, mangan, mólýbden og sink í tilbúnum áburði (Stjtíð. EB nr. L 281, 30.9. 1989, bls. 116).

        EFTA-ríkjunum verður frjálst að takmarka aðgang að mörkuðum sínum varðandi kadmíum í tilbúnum áburði í samræmi við kröfur í gildandi löggjöf þeirra daginn sem samningur þessi tekur gildi. Samningsaðilar skulu endurskoða stöðuna sameiginlega árið 1995.

        Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er þennan samning varðar, aðlöguð sem hér segir:
         
    
    Í kafla A II í viðauka I bætist eftirfarandi við svigagreinina í þriðju undirgrein 6. dálks í 1. tölul.:
                   „Austurríki, Finnlandi, Íslandi, Liechtenstein, Noregi, Svíþjóð og Sviss“.
         
    
    Í kafla B 1., 2. og 4. í viðauka I bætist eftirfarandi við í svigagreininni á eftir 6b í 3. tölul. 9. dálks:
                   „Austurríki, Finnlandi, Íslandi, Liechtenstein, Noregi, Svíþjóð og Sviss“.

    377L0535: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 77/535/EBE frá 22. júní 1977 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um aðferðir við sýnatöku úr og greiningu á tilbúnum áburði (Stjtíð. EB nr. L 213, 22.8. 1977, bls. 1) eins og henni var breytt með:
         . . .