Ferill 296. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 296 . mál.


420. Tillaga til þingsályktunar



um viðbrögð vegna starfsleyfis fyrir THORP-endurvinnslustöðina í Sellafield.

Frá umhverfisnefnd.



    Alþingi ályktar að mótmæla harðlega ákvörðun breskra stjórnvalda þann 15. desember 1993 að veita THORP-endurvinnslustöðinni fyrir geislavirkan kjarnorkuúrgang starfsleyfi og ganga þannig gegn samþykktum Parísarsamningsins um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum.
    Alþingi væntir þess að ríkisstjórnin grípi til skjótra og ákveðinna viðbragða vegna þessarar ákvörðunar sem gengur þvert á lífshagsmuni íslensku þjóðarinnar.

Greinargerð.


    Þann 15. desember 1993 veittu bresk stjórnvöld THORP-endurvinnslustöðinni fyrir geislavirkan kjarnorkuúrgang starfsleyfi. Um leið höfnuðu þau kröfu tugþúsunda um opinbera rannsókn á fyrirhugaðri starfsemi, svo og frá fjölda sveitarfélaga og samtaka á Bretlandseyjum.
    Áætlað hefur verið að starfsemi THORP auki tífalt það magn geislavirkra efna sem berast út í hafið og andrúmsloftið miðað við þá starfsemi sem nú er í Sellafield.
    Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt því að starfsleyfi verði veitt fyrir endurvinnslustöðinni, svo og umhverfisráðherrar Norðurlanda og ríkja við Norðursjó. Þann 11. janúar 1993 sendu 42 alþingismenn bréf til breskra stjórnvalda þar sem mótmælt var fyrirhugaðri starfsemi THORP-stöðvarinnar.
    Starfsemi THORP stríðir gegn samþykktum Parísarsamningsins um varnir gegn mengun sjávar, en sérstök samþykkt um THORP-endurvinnslustöðina í Sellafield var gerð af aðilum samningsins á fundi í Berlín 14.–19. júní 1993.